fbpx
Föstudagur 28.júní 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Frjálslyndir jafnt sem íhaldssamir án hugsjóna

Eyjan
Sunnudaginn 23. júní 2024 16:30

Anders Krab-Johansen

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég byrjaði að fylgjast með stjórnmálum var Paul Schlüter forsætisráðherra Dana. Hann kom úr Íhaldssama þjóðarflokknum (Det Konservative Folkeparti) en í viðtali við Weekendavisen síðla árs 1984 kvaðst hann aðspurður um pólitískar hugsjónir sínar vissulega vera íhaldsmaður „men ikke så meget, at det gør noget“. Og í viðtali við Berlingske Tidende fáeinum vikum síðar sagði hann hugmyndafræði einhvern þvætting („Ideologi er noget bras“).

Mér varð hugsað til þessa hugmyndafræðilega uppgjafartóns Schlüters heitins þegar ég las á dögunum nýútkomna bók danska blaðamannsins, Anders Krab-Johansen, Fri os fra den værdiløse borgerlighed, sem fjallar um kreppu borgaralegu aflanna í Danmörku. Íslendingum er lítt tamt að tala um borgarastétt og það hugtak hefur að ég hygg óljósa merkingu í íslensku. Víðast hvar í nágrannalöndunum er aftur á móti á finna rótgróna borgarastétt sem í stjórnmálunum skiptist í íhaldsmenn og frjálslynda. Krab-Johansen segir nú svo komið að borgaralegu öflin hafi glatað hugmyndafræði sinni og um leið áhrifavaldi sínu í þjóðfélaginu. Þau hafi engin svör við aðkallandi vandamálum samtímans og þurfi því að enduruppgötva gildi sín.

Málstola um eigin hugmyndafræði

Krab-Johansen segir að það að vera borgari hafi dýpri merkingu en að vera einstaklingur — í orðanna hljóðan liggi að einstaklingurinn sé þar með hluti af samfélagi. Orðið tengist borgaralegum réttindum og ábyrgð hvers og eins á lýðræðinu — en líka borgaralegum skyldum sem séu ekki síður mikilvægar. Borgaralegu öflin hafi misst sjónar á þessu og tali hugmyndafræðilega um fátt annað á okkar tímum en einstaklingsréttindi. Hugmyndafræðileg kreppa frjálslyndra og íhaldssamra sé orðin slík að þeir komi ekki orðum að draumsýn sinni um samfélag.

Fyrir fáeinum áratugum hafi menn með borgaralegar hugsjónir stýrt helstu stofnunum þjóðfélagsins; skólum, kirkjunni, söfnum, dómstólum, stjórnsýslunni og stærstu fyrirtækjum. Þetta sé að mestu liðin tíð og ýmsar stofnanir nú beinlínis í gíslingu afla sem hafni borgaralegum gildum. Með byltingu 68-kynslóðarinnar hefðu um sumt orðið jákvæðar samfélagsbreytingar en að öðru leyti verið framin skemmdarverk, til að mynda með því að steypa kennaranum af stalli í viðleitni til að innleiða eitthvað í skólastofunni sem kallað var „basisdemokrati“. Afar örðugt geti reynst að vinda ofan af sumum samfélagsbreytingum — það sé ekkert náttúrulögmál að „pendúllinn sveiflist til baka“ hafi menn gengið of langt í einhverja öfgaátt. Stundum sé skaðinn óbætanlegur.

Ekkert viðnám lengur

Krab-Johansen segir stjórnmálin of föst í efnahagslegum mælikvörðum — hvaðeina sé mælt í krónum og aurum, stjórnmálamenn berji sér á brjóst og segi lífskjör aldrei hafa verið betri. Borgaralegu öflin tengi sig í samtímanum umfram allt við frjálsan markað og veraldleg gæði en sannleikurinn sé sá að vel megi koma á einhvers konar kapítalísku hagkerfi í einræðisríkjum, líkt og dæmin frá Kínverska alþýðulýðveldinu og Singapúr sanni. Borgaralegar hugsjónir séu aftur á móti miklu dýpri en svo að þær verið samsamaðar kapítalismanum einum. Þau gildi sem hér um ræði snúi vitaskuld að frjálsum markaði en miklu fremur fjölskyldunni, menningunni, tungumálinu, sögunni, skólunum, náttúrunni, vestrænu samstarfi, siðferðinu og trúnni.

Að mati Krab-Johansen hafa borgaralegu öflin glatað erindi sínu í stjórnmálum og því komi ekkert viðnám úr þeirri átt þegar vegið sé að ýmsum borgaralegum grunngildum. Hann nefnir sem dæmi þegar hætt var að sýna teikningar af Múhameð í skólum og þegar karlmönnum sem telji sig vera í röngum líkama var leyft að keppa í kvennaflokki í íþróttum. Hvort tveggja hafi gengið fram af borgaralega sinnuðu fólki en það varla hreyft við andmælum og látið þetta yfir sig ganga.

Þörfnumst sameiginlegs gildismats

Krab-Johansen segir borgaralega sinnað fólk, hvort sem það telji sig íhaldssamt eða frjálslynt, þurfa að enduruppgötva gildi sín og gera sér grein fyrir því að lýðræðið sjálft og grundvallarmannréttindin séu kjarni þeirra gilda. Gilda sem séu í hættu vegna afla sem misnoti frelsið til að afla sér réttinda á kostnað annarra.

Hann nefnir í bókinni dæmi um mann sem mætir með hljómflutningstæki í almenningsgarð og trufli samborgara sína með því að skrúfa tónlistina í botn ellegar fólk sem beiti öllum brögðum til að hafa eins mikið fé út úr almannatryggingum og það mögulega geti. Skeytingarleysi um hag náungans og eigingirni hafi alltaf verið til, en megi ekki verða reglan. Það sé einmitt hætta á að svo fari skorti sameiginlegt gildismat. Velferðarríkið hafi engin önnur svör við háttalegi eins og hér er nefnt en setja fleiri reglur og herða eftirlit.

Krab-Johansen gerir einnig að umtalsefni þá staðreynd að sífellt fleiri séu einmana, finni til öryggisleysis og tilgangsleysis. Notkun hvers kyns geðlyfja hafi stóraukist, líka meðal barna. Þetta gerist á sama tíma og menn hafi aldrei borið jafn mikið úr býtum peningalega og þrátt fyrir alla tæknibyltingu síðustu ára. Vart þarf frekari vitna við um fáfengileika þess að miða allt út frá efnahagslegum mælikvörðum.

Hugmyndafræðileg festa

Ég hef stundum hér á þessum vettvangi gert að umtalsefni hugmyndafræðilegt öngstræti Sjálfstæðisflokksins en sjúkdómseinkenni borgaralegu aflanna í Danmörku eiga ekki síður við um þau öfl hér á landi — og athugum þá að borgaralega sinnað fólk fyrirfinnst miklu víðar en í Sjálfstæðisflokknum, sér í lagi á seinni árum í kjölfar almennrar pólitískrar upplausnar.

Segir mér hugur að miklu meiri hljómgrunnur sé fyrir borgaralegri festu í okkar samtíma en menn gera sér almennt grein fyrir. Gengi samfélagsins verður aldrei mælt einvörðungu í krónum og aurum og nauðsynlega þarf að verða hugmyndafræðileg endurskoðun þar sem borgarlegu öflin hér sem annars staðar finni aftur sitt pólitíska erindi og tali hátt og snjallt um þau samfélagslegu verðmæti sem þarf að varðveita og efla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Spurning um pólitísk eftirmál

Þorsteinn Pálsson skrifar: Spurning um pólitísk eftirmál
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Niður á jörðina aftur

Þorsteinn Pálsson skrifar: Niður á jörðina aftur
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Skítabombur þá og nú

Svarthöfði skrifar: Skítabombur þá og nú
EyjanFastir pennar
22.05.2024

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar: Snillingar í lágkúrunni

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar: Snillingar í lágkúrunni
EyjanFastir pennar
20.05.2024

Svarthöfði skrifar: „Geislavirka“ fórnarlambið, Katrín Jakobsdóttir

Svarthöfði skrifar: „Geislavirka“ fórnarlambið, Katrín Jakobsdóttir