fbpx
Föstudagur 28.júní 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …

Eyjan
Laugardaginn 22. júní 2024 15:45

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það snýr svo að segja allt á hvolf í íslenskum stjórnmálum nú um stundir. Og það má raunar heita svo að pólitískur ómöguleiki hafi verið festur í sessi.

Meira en hundrað ára gamall íhaldsflokkur hefur verið leiddur til hásætis við ríkisstjórnarborð landsins, einmitt um þær mundir sem hann hefur tapað helftinni af því kjörfylgi sem hann hefur vanalega notið. Dæmalausum hrakningum hans fylgja meiri ítök en nokkru sinni.

Heita má að því sé nú svo farið við valdstjórnina að óvinsældir færi mönnum mestu áhrifin. Þeim mun verr sem stjórnmálamönnum tekst að sannfæra þjóðina um ágæti sitt, því meiri verður pólitískur máttur þeirra og myndugleiki. Og hafi sömu menn verið staðnir af alvarlegum embættisafglöpum, sem knúið hefur þá til afsagnar, er fyrst tímabært að færa þá til öndvegis við valdsmannsbekkinn. En það er auðvitað eftir öðru að verst þokkuðu pólitíkusarnir, sem vel að merkja njóta allra minnsta traustsins á meðal almennings, í hverri könnuninni af annarri – og það árum saman – eiga nú greiðustu leiðina í veldisstólinn. Og svoleiðis er valdhrokinn verðlaunaður.

Það má heyra vel að fólk hristir hausinn, eins og sagt var úr pontu Alþingis um árið, um ónefndan þingmann úti í sal, svo gáttaður sem hann þótti á svipinn.

En svona er þetta bara. Af því einfaldlega að pólitík snýst öllu frekast um völd. Og skiptir fylgið þar minna máli. Og aðalatriðið er að halda völdum.

Eins og dæmin sanna.

„Heita má að því sé nú svo farið við valdstjórnina að óvinsældir færi mönnum mestu áhrifin.“

Það er nefnilega svo til viðbótar að langsamlega ólánlegasti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar, sem mælist núna ítrekað undir mörkum þess að koma nokkrum einasta manni á þing, ræður auðvitað mestu um að akkúrat svona er komið fyrir kansellíi landsmanna. Áhrifaríkasti örlagavaldurinn við æðstu stjórn landsins er sá flokkur sem fæstir styðja. Og er einmitt talin vera sú stjórnmálahreyfing í landinu sem farið hefur mest á svig við sjálfa sig – og það um árabil, með einbeittum endurtekningum.

Það er eftir öðru – og lýsir sjálfsagt sjálfseyðingarhvötinni hvað best – að mögulega er það síðasti pólitískur gjörningur þessara allt að því útþurrkuðu samtaka, að afhenda lengstum helsta andstæðingi sínum í stjórnmálum hér á landi, sjálfan höfuðlykilinn í Stjórnarráði Íslands. Og það er þeim einmitt svo mikið kappsmál að fá að vera áfram – og helst sem lengst – í liði með þeim sem eiga að heita lengst frá þeim í stefnumálum, að sjálfsagt mál er að afhenda honum bara fyrirliðabandið.

Það má heyra fyrrum blótsyrðin og skammirnar úr röðum gömlu róttæklinganna í ræðustól Alþingis sem hefðu ekki átt orð – og allra síst falleg ummæli – um svona ráðahag. Og hefðu sjálfsagt sagt að svona lagað mætti aldregi líðast, enda óravegu frá bráðnauðsynlegum byltingarandanum.

En pólitískur ómöguleiki hefur sumsé verið festur í sessi á Íslandi. Það sem áður var óhugsandi, er á að giska allt í góðu. Og eftirmælin eru eftir bókinni, því það sem helst hann varast vann, varð að koma yfir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Spurning um pólitísk eftirmál

Þorsteinn Pálsson skrifar: Spurning um pólitísk eftirmál
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Niður á jörðina aftur

Þorsteinn Pálsson skrifar: Niður á jörðina aftur
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Skítabombur þá og nú

Svarthöfði skrifar: Skítabombur þá og nú
EyjanFastir pennar
22.05.2024

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar: Snillingar í lágkúrunni

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar: Snillingar í lágkúrunni
EyjanFastir pennar
20.05.2024

Svarthöfði skrifar: „Geislavirka“ fórnarlambið, Katrín Jakobsdóttir

Svarthöfði skrifar: „Geislavirka“ fórnarlambið, Katrín Jakobsdóttir