fbpx
Sunnudagur 12.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Kæra miðaldra Ísland

Eyjan
Föstudaginn 21. júní 2024 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það kemur til okkar kasta að vega og meta af yfirvegun þá örlagaríku stund ef stjórnarsátt verður um frumvarp um lagareldi, réttnefndu sjókvíaeldi á Alþingi Íslendinga, frumvarpi sem nú hefur verið frestað fram á næsta haust.

Það kemur nú í okkar hlut að að slíta á vistarböndin við þá fjármagnseigendur sem í raun stýra Alþingi Íslendinga. Og við þurfum að hafa okkur öll við og í engu skeika, ekki með öskrum heldur skipulagi og festu.

Okkur er annt um lýðræðið. Við höfum tjáð í skoðanakönnunum að 90% þjóðarinnar eru andvíg sjókvíaeldi og 70% vilja að þeirri mengandi og meiðandi iðnaðarstarfsemi verði hætt með öllu og það sem fyrst. Þingið ætti með réttu að stöðva starfsemina núna þar til frumvarpið verður tekið fyrir á haustdögum til að lágmarka skaðann strax. Vilji okkar liggur fyrir, nú verðum við að tryggja að sá vilji verði að valdi í okkar höndum og búa nýjan forseta undir að taka slaginn með þjóðinni með neitunarvaldi sínu.

Við verðum að tryggja að eigendur Samherja, Ísfélagsins og Arnarlax fái ekki frekari heimildir til yfirtöku á sameign og auðlind þjóðarinnar og að þjóðin fái að greiða um það atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Halla Tómasdóttir hefur reyndar gefið í orði fyrirheit um að standa með þjóðinni sem sannarlega setti traust sitt á hana. Ekki síst fyrir þær sakir sem er þyrnir í augum þeirra sem eiga og ráða, þá er það staðreynd að hún á sig sjálf og enginn á neitt inni hjá henni á Íslandi. Fjármagnseigendur á Íslandi gerðu ekki Höllu ríka, það er okkar styrkur kæru vinir.

Fjármagnseigendur sem stýra landinu okkar hafa nú þegar fengið yfrið nóg, fyrir utan eignarhald í fyrirtækjarekstri um samfélagið allt. Frumvarp þetta tryggir þeim og þeirra erlendu viðskiptafélögum í sjókvíaeldi heimildir til að fara fram með hætti sem aflagður er annars staðar, með tækjum sem þykja úrelt annars staðar og eyðileggja náttúru og framtíðarmöguleika á Vestfjörðum og Austfjörðum. Fyrir utan íslenska laxastofninn sem nú þegar á í vök að verjast fyrir umhverfissóðaskap sem fylgir kynþroska norskum seiðum. Fyrir ósköpin munu fáir græða meira en þjóð og landi blæða.

Íslendingar eiga betra skilið en að eiga meira undir öðrum en orðið er og við verðum að eygja vonina um að endurheimta aftur það sem okkar er. Við skuldum þessu fólki enga frekari greiða. Þau hafa fengið nóg og komandi kynslóðir eiga heimtingu á því að geta skapað sér sín eigin tækifæri sem sjálfstæðir Íslendingar.

Það er vegið að sjálfstæði Íslendinga af auðlindaupptökufólki og því fólki sem fyrir ofangreind fyrirtæki starfa. Við sáum ofan í réttina Ísland í aðdraganda forsetakosninga. Hvar fólk skipar sér í hirðir og flokka og hvar fylgispektin liggur í okkar samfélagi. Þeir hræddu skipa sér í lið þeirra sem eiga og ráða í þeirri trú að þá sé vist þeirra tryggð.

Tengsl sjávarútvegsins og Framsóknarkaupfélags Skagfirðinga verður að rjúfa, samfélaginu til heilla. Þórólf Gíslason, vikapilt Samherja sem kaupir upp húsnæði fyrir væntanlega mengandi atvinnustarfsemi á Vestfjörðum og Austfjörðum og reyndar víðar um land, þarf að stöðva. Heimafólk verður nú að sýna áræðni og losa sig við keyptar bæjar- og sveitastjórnir hringinn í kringum landið.

Við verðum að vera hugrökk og vitanlega þurfum við að hreinsa út í næstu kosningum drauga fjórflokkanna sem stýrðu hér öllu og hafa með vilja búið til auðræði á Íslandi á kostnað lýðræðisins. Við verðum að biðla til skárri hluta Sjálfstæðisflokks að losa sig við Bjarna Benediktsson, manninn sem hélt hann gæti keypt forsetaembættið fyrir Katrínu Jakobsdóttur en sem hans eigin flokkur kom í veg fyrir að raungerðist til að hefna fyrir Geir H. Haarde.

Hrossakaupin verða að leggjast af og nýtt upphaf verður að líta dagsins ljós með stórhreingerningu. Það mun taka tíma og þrautseigjan skal verða okkar aðalsmerki.

Í næstu kosningum verðum við að vera hugrökk fyrir hönd afkomenda okkar og endurheimta þingið okkar úr höndum glæframanna og verja hagsmuni okkar sem þjóðar. Við verðum að trúa því sjálf að á Íslandi búi kjarkmikil, gáfuð og velviljuð þjóð sem eigi betra skilið en að hafna enn og aftur í algjörri ánauð auðugra yfirboðara sem skeyta í engu um landa sína.

Við miðöldrungar þurfum að rjúfa vistarböndin, losa komandi kynslóðir undan okkar farangri og misvitru fylgispekt. Við verðum að kenna þeim yngri að sjá og skilja kaupin á eyrinni svo þau séu vel í stakk búin að ganga framtíðinni á hönd vopnuð nauðsynlegum upplýsingum sem þau geta varið sig og framtíðina með.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
30.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta
EyjanFastir pennar
29.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel
EyjanFastir pennar
22.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!