fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Vantraust á matvælaráðherra: Jón Gunnarsson sat hjá – annars hreinar línur milli stjórnar og stjórnarandstöðu

Eyjan
Fimmtudaginn 20. júní 2024 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna, aðrir en Jón Gunnarsson, greiddu atkvæði gegn vantrauststillögu Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, gegn Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, matvælaráðherra, en atkvæðagreiðsla fór fram á Alþingi í hádeginu.

Í umræðum um tillöguna kom fram að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hygðust verja ráðherrann vantrausti. Þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem til máls tóku, lýstu stuðningi við tillögu Bergþórs, á ólíkum forsendum þó. Þingmenn Pírata studdu vantraustið fyrst og fremst vegna andstöðu sinnar við hvalveiðar en fram kom hjá þingmönnum Miðflokksins, Samfylkingarinnar og Viðreisnar að það væri ekki afstaðan til hvalveiða sem slíkra sem réði stuðningi þeirra við vantrauststillöguna heldur stjórnsýsla ráðherra í málinu.

Jón Gunnarsson gagnrýndi matvælaráðherra harðlega og sagði framkomu ráðherra Vinstri grænna vera fordæmalausa. „Hagsmunum alþýðunnar, starfsfólks og fyrirtækja er fórnað á altari málstaðar sem engar forsendur eru fyrir,“ sagði hann. Af orðum hans að dæma mátti búast við því að hann  myndi greiða atkvæði með vantrauststillögunni. Svo fór þó ekki. Hann kom upp og gerði grein fyrir atkvæði sínu. Þar kom fram að þrátt fyrir að hann fordæmi vinnubrögð ráðherrans telji hann stjórnmálaástandið með þeim hætti að óábyrgt væri að rjúfa ríkisstjórnarsamstarfið nú og því greiddi hann ekki atkvæði.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var að 23 greiddu atkvæði með vantrausti, 35 á móti og einn sat hjá. Tveir voru á fjarvistarskrá og tveir aðrir fjarverandi.

Í umræðum um tillöguna og við atkvæðaskýringar kom glögglega fram að mikil kergja er í ýmsum þingmönnum sjálfstæðismanna gagnvart matvælaráðherra og Vinstri grænum almennt. Minntu umræður og atkvæðaskýringar á köflum á málfundaræfingar framhaldsskólanema.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt