fbpx
Föstudagur 28.júní 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Þarf alltaf að vera með leiðindi?

Svarthöfði
Miðvikudaginn 19. júní 2024 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í síðustu viku snupraði Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, fjármálaráðherra, fyrir að skipta sér af því sem honum kemur ekki við. Sigurður Ingi hafði þá sent lögreglu bréf með ábendingum um að þörf væri á að rannsaka netverslun með áfengi hér á landi, þar sem hún bryti gegn lögum sem kveða á um einokun ÁTVR á smásölu áfengis hér á landi.

Svarthöfði er það sjóaður í pólitískri greiningu að hann áttar sig á því að Sigurði Inga er vitaskuld sama hverjir selja áfengi hér á landi. Hefði hann áhyggjur af sölufyrirkomulagi áfengis á Íslandi myndin hann vísast byrja á að beita sér fyrir hömlum á starfsemi vínveitingahúsa hér á landi, en myrkranna á milli og jafnvel lengur, nánast hvern dag ársins, er áfengi til sölu á þúsund veitingastöðum hringinn í kringum landið, jafnvel í vegasjoppum.

Sigurður Ingi veit hins vegar sem er að boð og bönn eru fengsæl mið þegar kemur að atkvæðaveiðum. Hún er rík tilhneigingin hjá mörlandanum að vilja einatt banna hluti og skipta sér af því sem náunginn gerir. Við erum jú þjóðin sem leyfði ekki bjórinn fyrr en 1989, við erum þjóðin sem leyfði ekki einkaaðilum rekstur ljósvakamiðla fyrr en 1986 og leggur raunar enn stein í götu þeirra sem leyfa sér að reka fjölmiðla í samkeppni í ríkismiðilinn, sem yfir öllu gnæfir. Við erum líka þjóðin sem heldur uppi matvælaverði í landinu með verndartollum og innflutningstakmörkunum til að vernda hagsmuni örfárra gráðugra milliliða sem hafa stillt sér upp milli framleiðenda og neytenda á Íslandi. Sigurður Ingi veit sem er að hann getur gert sér mat úr þessu bannblæti landans.

Svarthöfða verður stundum hugsað aftur til þeirra dýrðardaga er Sambandið var og hét og rak stórmarkaðinn Miklagarð við Sund í samkeppni við Hagkaup og Bónus. Þá var nú gaman að lifa. Ekki hefðu verið mikil vandræði með að bjarga netsölu á áfengi á þeim tíma. Ekki eins og núna, þegar allt verður vitlaust við það eitt að Hagkaup tilkynnir opnun netverslunar með áfengi.

Nei, hér í den hefði málið verið leyst farsællega, ekki síst með Framsókn og íhaldið saman í ríkisstjórn. Mikligarður hefði bara líka fengið að opna netverslun með sprútt og málið dautt.

Svarthöfði veltir því fyrir sér hvort félagarnir, Sigurður Ingi og Bjarni Ben, geti ekki leyst málið núna sín á milli með því að skilgetinn afkomandi verslunarreksturs Sambandsins sáluga, Samkaup, opni bara líka sína netverslun með áfengi. Hvað með netverslun Nettó (NN), getur hún ekki líka selt brennivín? Þarf alltaf að vera með leiðindi?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Spurning um pólitísk eftirmál

Þorsteinn Pálsson skrifar: Spurning um pólitísk eftirmál
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Niður á jörðina aftur

Þorsteinn Pálsson skrifar: Niður á jörðina aftur
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Skítabombur þá og nú

Svarthöfði skrifar: Skítabombur þá og nú
EyjanFastir pennar
22.05.2024

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar: Snillingar í lágkúrunni

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar: Snillingar í lágkúrunni
EyjanFastir pennar
20.05.2024

Svarthöfði skrifar: „Geislavirka“ fórnarlambið, Katrín Jakobsdóttir

Svarthöfði skrifar: „Geislavirka“ fórnarlambið, Katrín Jakobsdóttir