fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Eyjan

Alþingi: Spyr hvort Sigurður Ingi nú og þá séu ekki einn og sami maðurinn – slátraði eigin samgönguáætlun

Eyjan
Þriðjudaginn 18. júní 2024 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði Sigurð Inga Jóhannsson, fjármálaráðherra, út í örlög samgönguáætlunar í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Hún vakti athygli á því að eftir mikla undirbúningsvinnu í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins hefði, þar sem fengnar hefðu verið umsagnir um 70 aðila og fundað hafi verið með öllum sveitarfélögum landsins og fleiri hagaðilum um áætlunina, sem er upp á 900 milljarða til 15 ára hafi meirihlutinn skyndilega tilkynnt á föstudagskvöld að samgönguáætlun yrði ekki afgreidd fyrir sumarið.

Þorbjörg Sigríður benti á að það var einmitt Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi innviðaráðherra, sem lagði fram samgönguáætlun. Sem fjármálaráðherra hafi síðan Sigurður Ingi Jóhannsson lagt fram fjármálaáætlun. „Rök ríkisstjórnarinnar fyrir því að slátra samgönguáætlun eru, að þeirra eigin sögn, misræmi milli samgönguáætlunar og þess fjármagns sem ætlað er í verkefnið.

Þessu misræmi er lýst sem óviðunandi ástandi. En hvar liggur þetta misræmi nákvæmlega? Er það misræmi milli samgönguáætlunar Sigurðar Inga og fjármálaáætlunar Sigurðar Inga?

Liggur misræmið einhvers staðar á mörkum fyrrverandi innviðaráðherra og núverandi fjármálaráðherra?

Erum við ekki örugglega á því að þetta sé einn og sami maðurinn?“ sagði Þorbjörg Sigríður.

Hún sagði að þessi ákvörðun meirihlutans hefði í för með sér að öll sú vinna sem fram hefur farið fari í súginn og byrja verði upp á nýtt þegar þing kemur saman í haust með ærnum tilkostnaði. Greinilegt væri að ríkisstjórnin bæri enga virðingu fyrir þeirri vinnu sem fram færi fram á þingi og í nefndum.

Sigurður Ingi sagðist vera einn og sami maðurinn. Í svari sínu sagðist hann ekki hafa orðið þess var sem innviðaráðherra að mikil vinna færi í samgönguáætlun innan umhverfis- og samgöngunefndar, honum hefði frekar þótt verkefnið vinnast hægt hjá nefndinni.

Hann sagði í raun engu máli skipta hvort samgönguáætlun yrði afgreidd fyrir sumarið eða í haust, í gildi væri samgönguáætlun, sem væri fullfjármögnuð og verkefni hennar myndu halda áfram eins og ekkert hefði í skorist. Sagðist Sigurður Ingi telja að það gæti bara verið betra að fara aftur yfir málið og jafnvel aftur og aftur.

Þorbjörg Sigríður kom aftur í pontu og þakkaði Sigurði Inga fyrir að hafa staðfest að þarna væri á ferðinni einn og sami maðurinn, það væri sami maðurinn sem hefði lagt fram samgönguáætlun og fjármálaáætlun sem innbyrðis virðist ekki ganga upp.

Hún sagðist skilja orð hans um störf umhverfis- og samgöngunefndar sem að með þeim væri ráðherrann að gagnrýna Bjarna Jónsson (VG) formann nefndarinnar fyrir að hafa ekki haldið nægilega þétt um málið í nefndinni.

„En mér finnst sérstakt að heyra hæstv. fjármálaráðherra og fyrrverandi innviðaráðherra tala með þeim hætti, það er ekki hægt að skilja það neitt öðruvísi en að hans eigin samgönguáætlun hafi haft enga efnislega þýðingu, það sé ekkert í húfi, eins og hann orðar það sjálfur. Það eru stór orð þegar við erum að tala um allar samgönguinnviði landsins til 15 ára. Potturinn þar undir eru 900 milljarðar og fjármálaráðherra, glænýr í embætti, talar um þessa þessar framkvæmdir í þágu samgangna landsins sem þætti sem engu máli skipta, að hér sé ekkert í húfi. Það er sérstakt og þá er kannski skiljanlegt að þessu hafi öllu verið kastað í ruslið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra