fbpx
Miðvikudagur 26.júní 2024
Eyjan

Lestu hátíðarræðu forsætisráðherra – „Skautun, netárásir og undirróðursöfl sem skeyta engu um framtíð landsmanna“

Eyjan
Mánudaginn 17. júní 2024 19:30

Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, lýsir í hátíðarræðu sinni í tilefni þjóðhátíðardagsins, yfir áhyggjum af skautun í samfélaginu og hættulegum áhrifum samfélagsmiðla.

„Í okkar heimshluta eru vaxandi áhyggjur af lýðræðinu, neikvæðum áhrifum samfélagsmiðla, teikn eru um aukna skautun, netárásir og undirróðursöfl sem skeyta engu um framtíð landsmanna. Hraði í samskiptum hefur aukist með eindæmum og athyglin styst að sama marki.

Upphrópanir og skilaboð í stuttum myndskeiðum eru allsráðandi en þau rúma ekki dýpt flóknari mála. Falsfréttir flæða um netheima í harðri samkeppni við sannleikann og oft skortir gagnrýna hugsun til að greina þar á milli.

Málefnaleg umræða sem er lýðræðinu nauðsynleg á víða í vök að verjast. Verum minnug þess að gæði skoðanaskipta og gæði ákvarðana, þjóðinni til heilla, haldast iðulega í hendur.

Það sem við höfum að vernda er nokkuð sem fylgt hefur okkur frá landnámi – sjálft lýðræðið. Fátt er verðmætara fyrir okkur en að viðhalda getunni til málefnalegra, opinna skoðanaskipta og sameiginlegrar ákvarðanatöku.

Lýðræðið er sverð okkar og skjöldur gegn hvers konar ytri og innri ógn. Fjöregg þjóðarinnar.

Tökum höndum saman um að viðhalda og verja ávallt getuna til að skiptast á skoðunum á opinn og hreinskiptinn hátt. Gætum þess einnig að láta ekki ólík viðhorf og nýjar áskoranir draga úr okkur kjarkinn til frjálsra skoðanaskipta og til að taka ákvarðanir fyrir framtíðina.“

Bjarni segir hvergi betra að búa en á Íslandi og aldrei hafi þjóðin haft það betur en einmitt í dag.

Hér er ræða Bjarna í fullri lengd:

„Forseti Íslands, góðir landsmenn, innilega til hamingju með daginn!

Það er sannarlega tilefni til að gleðjast á þessum tímamótum þegar við fögnum 80 árum frá stofnun lýðveldisins þann 17. júní 1944, á fæðingardegi Jóns Sigurðssonar.

Ég vil byrja á að þakka sérstaklega Ingridu Šimonytė, forsætisráðherra Litáens, fyrir að koma til Íslands og fagna deginum með okkur. Þrjátíu og þrjú ár eru liðin frá því að Ísland viðurkenndi sjálfstæði Litáen, fyrst allra ríkja og mikil vinátta hefur verið milli þjóðanna allar götur síðan.

Prime Minister Šimonytė, welcome to Iceland. Your presence today is noticed and highly appreciated.

Góðir Íslendingar,

Það þurfti kjark og óbilandi trú á framtíðarmöguleika íslensku þjóðarinnar til að berjast fyrir fullveldinu og stofnun lýðveldis í framhaldinu.

Ísland hafði verið eitt fátækasta ríki Vestur-Evrópu og þeir voru til sem höfðu efasemdir um að við gætum nokkurn tímann staðið undir sjálfstæðinu.

Árið 1943 voru í tímaritinu The Norseman rifjuð upp orð Sir George Stuart Mackenzie, sem ferðaðist til Íslands á fyrri hluta nítjándu aldar. Eftir Íslandsförina sagði George þessi:

„Það væri móðgun við heilbrigða skynsemi að reyna aðra eins fásinnu eins og að gera Ísland að sjálfstæðu ríki, enda býr landið ekki yfir auðlindum af nokkru tagi.“

En tímarnir breyttust. „Fásinnan“ sem ferðalangurinn skrifaði um reyndist ekki meiri en svo, þegar fram liðu stundir, að í dag stendur sjálfstætt og fullvalda Ísland hvað fremst meðal þjóða á alla helstu mælikvarða.

Hvergi er betra að búa en einmitt hér. Og ef við hefðum val um það, hvenær í Íslandssögunni allri við mættum koma í heiminn, til þess að eiga mesta möguleika á að lifa hamingjusömu lífi, njóta langra ævidaga, stofna fjölskyldu, ala upp börn og fást við það í lífinu sem hugur okkar stæði helst til – er enginn vafi á að við myndum velja daginn í dag.

Lýðveldissagan hefur einkennst af stórtækum framförum á öllum sviðum. Drifkraftar framfaranna hafa verið sjálfstæði okkar og fullveldi, lýðræðið, frelsi til orðs og æðis, menntun, sjálfbær nýting auðlinda okkar, alþjóðasamvinna og síðast en ekki síst friður í okkar heimshluta.

Á þessum grunni hefur íslenska þjóðin verið í stöðugri sókn til bættra lífskjara: við njótum betri heilsu, hér er meira jafnrétti, meira frelsi á öllum sviðum, okkur hefur fjölgað, atvinnustarfsemin aldrei verið fjölbreyttari og innviðir samfélagsins, félagslegir sem efnislegir, eru sterkir. Kaupmáttur landsmanna hefur vaxið mjög ár frá ári.

Í dag hugsum við með þakklæti til horfinna kynslóða, þeirra sem á undan fóru og lögðu grunn að samfélagi samtímans.

Lýðveldisstofnunin átti rætur sínar í þeirri hugsjón að íslenskri þjóð myndi farnast best með því að taka í eigin hendur fulla ábyrgð á landsmálunum.

Um fullveldið var samið á friðsaman hátt og án átaka. Íbúafjöldi Danmerkur var um 35-faldur á við Íslendinga er sambandslagasamningurinn var gerður 1918. Á mælikvarða gildismats og hugsjóna sýndi Danmörk með samningnum stærð sem mun fjölmennari ríki og landmeiri eru fram á þennan dag ófær um.

Um það vitna vopnuð átök í okkar heimshluta þar sem reynt er að neyta aflsmunar og árás gerð á fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt þjóðar.

En fullveldi Íslands var einungis áfangi á langri leið.

Alnafni minn spurði í aðdraganda lýðveldisstofnunarinnar:

Myndi sá bóndi telja sig að fullu frjálsan sem ekki mætti hafa skipti við nágranna sína nema fyrir milligöngu óðalsbónda á fjarlægri jörð, eða öllu heldur vinnumanna hans, og yrði að hafa einhverja þessara vinnumanna með í för ef hann skryppi í kaupstað, og engin viðskipti hefðu lögformlegt gildi nema óðalsbóndinn samþykkti?

Slíku frelsi myndi enginn bóndi una til lengdar. Auðvitað þættu þessi kjör betri en algjör þrældómur, en honum myndi þykja það furðulegt, ef honum væri sagt, að nú væri frelsisbaráttu hans lokið.“ 

Í maí 1944 tóku svo yfir 98 prósent Íslendinga þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um að segja upp sambandslagasamningi við Dani og setja nýja stjórnarskrá.

Yfirgnæfandi meirihluti vildi stofnun lýðveldis og nýja stjórnarskrá.

Aðdragandinn var málafylgja, kraftmikil rökræða og loks var slaufa bundin um málið með lýðræðislegum kosningum.

Þessa skulum við minnast þegar við tökum ákvarðanir sem varða framtíð landsins. Það má leyfa sér að hugsa til þess, hvaða augum verður litið á það sem við nú tökum ákvarðanir um, af þeim sem hér munu safnast saman að 80 árum liðnum.

Í okkar heimshluta eru vaxandi áhyggjur af lýðræðinu, neikvæðum áhrifum samfélagsmiðla, teikn eru um aukna skautun, netárásir og undirróðursöfl sem skeyta engu um framtíð landsmanna. Hraði í samskiptum hefur aukist með eindæmum og athyglin styst að sama marki.

Upphrópanir og skilaboð í stuttum myndskeiðum eru allsráðandi en þau rúma ekki dýpt flóknari mála. Falsfréttir flæða um netheima í harðri samkeppni við sannleikann og oft skortir gagnrýna hugsun til að greina þar á milli.

Málefnaleg umræða sem er lýðræðinu nauðsynleg á víða í vök að verjast. Verum minnug þess að gæði skoðanaskipta og gæði ákvarðana, þjóðinni til heilla, haldast iðulega í hendur.

Það sem við höfum að vernda er nokkuð sem fylgt hefur okkur frá landnámi – sjálft lýðræðið. Fátt er verðmætara fyrir okkur en að viðhalda getunni til málefnalegra, opinna skoðanaskipta og sameiginlegrar ákvarðanatöku.

Lýðræðið er sverð okkar og skjöldur gegn hvers konar ytri og innri ógn. Fjöregg þjóðarinnar.

Tökum höndum saman um að viðhalda og verja ávallt getuna til að skiptast á skoðunum á opinn og hreinskiptinn hátt. Gætum þess einnig að láta ekki ólík viðhorf og nýjar áskoranir draga úr okkur kjarkinn til frjálsra skoðanaskipta og til að taka ákvarðanir fyrir framtíðina.

Jóhannes Nordal var maður sem lifði með öldinni, og fylgdist með þróun lýðveldisins allt frá upphafi. Hann hlustaði á lýðveldishátíðina 17. júní 1944 frá höfuðstöðvum breska ríkisútvarpsins í London, þá tvítugur námsmaður, milli þess loftvarnarviðvaranir glumdu yfir borginni.

Í grein um hálfum öðrum áratug síðar lýsti Jóhannes þýðingu lýðræðisins ágætlega þegar hann sagði;

Vér, sem nú lifum, höfum fengið að reyna, hve þunn er sú skel siðmenningar, sem skilur jafnvel hinar menntuðustu þjóðir frá fullkominni villimennsku. Þau verðmæti, sem vér metum mest, kunna því að verða fótum troðin, áður en varir, ef slakað er á þeim kröfum um frjálsa stjórnarhætti og virðingu fyrir lögum, þekkingu og mannréttindum sem vestrænt lýðræði hvílir á.

Hann taldi að frjálsri menningu stafaði hætta úr tveimur áttum, annars vegar ógnun þeirra sem þykjast hafa höndlað sannleikann og eru reiðubúnir að fórna flestu til að þröngva öðrum undir vald sitt – og svo frá hinum sem eru svo „frjálslyndir“, að þeir telja ekki rétt að berjast gegn hinu illa af fullri einurð og án afdráttar.

Þessi orð eiga jafn vel við nú, þegar ráðist er með herafli að þeim gildum sem við höfum að verja. Í okkar heimsálfu heyja Rússar blóðugt innrásarstríð, jafnt á eiginlegum vígvelli og á sviði upplýsingahernaðar, falsfrétta og áróðurs þar sem við sjáum hinar myrku hliðar nýrrar tækni. Slíkri framgöngu og tilburðum þarf að mæta af festu.

Það er frumskylda okkar að huga enn betur að eigin vörnum og styðja við varnir bandamanna okkar – rétt eins og við treystum á að þeir gerðu væri á okkur ráðist. Það fer vel saman að vera friðelskandi þjóð og verja þau gildi sem tilvist okkar sem sjálfstæðrar þjóðar grundvallast á.

Góðir landsmenn,

Það helst í hendur við áttræðisafmæli lýðveldisins að í dag er jafn langt síðan Sveinn Björnsson var kjörinn fyrsti forseti Íslands og síðan þá höfum við kosið í lýðræðislegum kosningum. Með okkur situr nú hæstvirtur sjötti forseti Íslands sem senn lætur af störfum og ég vil nota tækifærið og færa honum bestu þakkir fyrir störf í þágu lands og þjóðar.

Í sumar tekur við sjöundi forseti lýðveldisins, Halla Tómasdóttir, og við óskum henni öll velfarnaðar. Það var ánægjulegt að sjá ríka þátttöku í nýafstöðnum forsetakosningum, en hún er sannur mælikvarði á styrk lýðræðisins og vilja til þátttöku.

En styrkur okkar liggur víðar en í lýðræðinu. Við Íslendingar erum svo lánsöm að eiga auðugan menningararf. Íslendingasögurnar og íslenskar bókmenntir eiga ríkan þátt í sjálfsmynd þjóðarinnar. Íslenskan er lykill að þeim auðæfum.

Á eftir mun kórinn flytja þjóðhátíðarljóð skáldsins Huldu, sem vann til verðlauna sumarið 1944 í tilefni af stofnun lýðveldisins. Í mínum huga blasir svarið við þegar spurt er;

Hver á sér fegra föðurland,

með fjöll og dal og bláan sand, 

með norðurljósa bjarmaband

og björk og lind í hlíð?

Og hún heldur áfram:

Með friðsæl býli, ljós og ljóð,

svo langt frá heimsins vígaslóð.

Geym, drottinn, okkar dýra land

er duna jarðarstríð.

Góðir landsmenn, 

Verum meðvituð um að í ákveðnum skilningi erum við ekki svo langt frá heimsins vígaslóð, og vorum það raunar ekki heldur þegar ljóð Huldu var ort. Á ófriðartímum er rík ástæða til að standa keik og sameinast um það sem við getum verið stolt af.

Í tilefni lýðveldisafmælisins höfum við leitað fanga víða í íslenskum menningararfi. Bókin “Fjallkonan – þú ert móðir vor kær” er gjöf til Íslendinga á afmælisárinu. Fjallkonan er tákngervingur Íslands sem minnir okkur á sögu lands og þjóðar, og hvetur til samheldni og friðar. Hún minnir á þá baráttu sem háð var fyrir fullveldi og sjálfstæði Íslands og færði okkur það samfélag sem við þekkjum í dag.

Menningararfi okkar Íslendinga tilheyra gersemar sem eru í eigu erlendra safna og hvíla venjulega á erlendri grund. Í tilefni hátíðarhaldanna hefur Þjóðminjasafn Skotlands í Edinborg lánað Lögréttutjöldin svokölluðu hingað til lands og eru þau til sýnis í Þjóðminjasafninu. Veggtjöldin voru notuð í Lögréttuhúsinu á Alþingi á Þingvöllum og er yngra tjaldið talið vera frá seinni hluta 17. aldar eða fyrri hluta 18. aldar.

Hátíðardagskrá hefur verið bæði í þjóðgarðinum og á Hrafnseyri við Arnarfjörð í tilefni afmælisársins.

Glæsilegt merki 80 ára lýðveldisafmælisins eftir Sigurð Oddsson prýðir fána, nælur, bækur og ýmsan varning sem gefinn hefur verið út í tilefni tímamótanna.

Kórar víða um land hafa æft nýtt hátíðarlag Atla Ingólfssonar, tónskálds, við ljóðið: Ávarp fjallkonunnar, eftir Þórarin Eldjárn ásamt fleiri ættjarðarlögum. Ég hvet fólk til að leggja sérstaklega við hlustir. Kórastarfið er skrautfjöður í hatt okkar Íslendinga.

Frjáls félagasamtök leika ávallt stórt hlutverk 17. júní og í dag verður engin breyting á. Ég vil þakka þeim sem gera hátíðarhöldunum hátt undir höfði sérstaklega fyrir óeigingjarnt og mikilvægt starf.

Góðir landsmenn,

Íslenska þjóðin sýnir best úr hverju hún er gerð við erfiðar aðstæður. Þegar heimabær á fjórða þúsund landsmanna, eða 1% þjóðarinnar, öflugt samfélag þar sem fólk hefur notið þess að búa, starfa og alast upp, er ógnað af jarðeldum sem engu eira – þá stöndum við, öll sem eitt, með bæjarbúum. Fólk finnur stuðning í þjóð sinni.

Kæra íslenska þjóð,

Vel tókst því fólki upp, sem fylgdi hugsjónum sínum og lagði á sig að vinna að fullveldi Íslands og síðar lýðveldi. Þau auðnuspor skiluðu okkur frjóum jarðvegi sem hefur farsællega tekist að rækta.

Tækifæri hafa opnast, við höfum nýtt þau, þau hafa gefið okkur gjöfult og gott samfélag, og þau blasa enn við. Í tilefni þess njótum við dagsins, göngum saman út í sumarið, veifum fánum, setjum upp merkin, verum stolt af þeirri sögu sem sameinar okkur og styrkir.

Það fyllir okkur stolti að líta um farinn veg, huga að öllu því sem þjóðin hefur áorkað á 80 árum.

Við skulum gleðjast og fagna. Á morgun heldur starf okkar allra áfram við að gera enn betur fyrir framtíðarkynslóðir.

Ég óska okkur öllum til hamingju með 80 ára afmælið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stjórnarandstaðan ánægð með árangurinn í þinglokasamningum

Stjórnarandstaðan ánægð með árangurinn í þinglokasamningum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Lítið lagðist fyrir kappana

Orðið á götunni: Lítið lagðist fyrir kappana
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reykvíkingum sjálfum að kenna þegar ruslatunnur þeirra eru ekki tæmdar – „Íbúar þurfa bara að passa upp á nágranna sína“

Reykvíkingum sjálfum að kenna þegar ruslatunnur þeirra eru ekki tæmdar – „Íbúar þurfa bara að passa upp á nágranna sína“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sidekick Health kaupir þýska félagið PINK!

Sidekick Health kaupir þýska félagið PINK!