Ég sat í næstliðinni viku fundi í stjórnum þriggja frjálsra félagasamtaka og var viðstaddur aðalfund þess fjórða, þar sem ég var kjörinn skoðunarmaður reikninga. Ég gerði mér þá grein fyrir því að ég væri félagskjörinn skoðunarmaður reikninga í einum fimm samtökum. Ekkert nema gott um það að segja að vera virkur í félagsstarfi en í einu þeirra félaga þar sem ég á sæti í stjórn, gamalgrónu menningarfélagi, gerðist það síðastliðið sumar að Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð þess efnis að félaginu yrði slitið að kröfu ríkisskattstjóra. Okkur stjórnarmönnum varð þetta ekki ljóst fyrr en komið var fram á haust en við hin þvinguðu slit ríkisvaldsins höfðu eignir félagsins verið gerðar upptækar, nokkur hundruð þúsund krónur er lágu á sparisjóðsbók.
Umrætt félag heldur mánaðarlega fundi og hefur alla tíð vel virkt, samt sem áður fékkst samþykkt krafa ríkisskattstjóra um slit þess og upptöku eigna. Ekki var haft samband við neinn forsvarsmanna félagsins, látið var nægja að birta tilkynningu þessa í Lögbirtingarblaðinu, en enginn okkar stjórnarmanna les það að staðaldri.
Samkvæmt 74. gr. stjórnarskrár eiga menn rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi án þess að þurfa að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds en þó má banna „um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið fyrir dómi“. Vart þarf að taka fram að tilgangur umrædds menningarfélags fer ekki í bága við nokkur lög — en við vel að merkja „endurreistum“ félagið.
Krafa ríkisskattstjóra laut eingöngu að því að umrætt félag hafði ekki skilað inn upplýsingum um það sem kallað er „raunverulegir eigendur“ en tilkynning um að skila bæri inn slíkum upplýsingum barst engum stjórnarmanni — og hefði þó hæglega mátt hafa uppi á stjórnarmönnum með einfaldri leit á veraldarvefnum. Það er eins og þeir starfsmenn ríkisskattstjóra sem hér véluðu um hafi aldrei heyrt minnst á rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna og þá er vitaskuld rangnefni að tala um „raunverulega eigendur“ í félagasamtökum eins og hvert mannsbarn sér. Kannski umræddir ríkisstarfsmenn hafi notið hinna margumræddu „bónusa“ — kaupauka fyrir hvert það félag sem þeim tækist að slíta? Spyr sá sem ekki veit.
Þessi málsmeðferð er auðvitað öll með ólíkindum og blasir við að hún stangast á við félagafrelsisákvæði stjórnarskrár, enda öllum frjálst að stofna félög og þurfa ekki til þess leyfi ríkisvaldsins, og raunar var hér líka brotið gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrár er ríkissjóður tók til sín innistæðuna af sparisjóðsbókinni. En þetta mál vekur líka upp stærri spurningar um almennt skilningsleysi á gildi frjálsra félagasamtaka andspænis ofurvaldi ríkisins.
Glöggt er gests augað er mikið notað máltæki enda öllum auðskiljanlegt og spaklegt í einfaldleika sínum. Mér kom máltækið til hugar á dögunum þegar ég las um ferðalag Frakkanna Alexis de Tocqueville og Gustave de Beaumont til Vesturheims árið 1831. Þeir héldu þangað á vegum franskra stjórnvalda í þeim erindagjörðum að kynna sér refsivörslukerfi hinna ungu Bandaríkja Ameríku. Slíkar athuganir geta tekið allt aðra stefnu en upphaflega er ráðgert og svo fór einnig hér. Þeir tvímenningar heilluðust svo mjög af samfélagsháttum vestanhafs að útkoman varð allsherjar rannsókn á amerísku þjóðlífi. Frægasti afrakstur þessa leiðangurs var rit Tocquevilles, De la démocratie en Américque, sem út kom í tveimur bindum, hið fyrra 1835 og það síðara 1840.
Í bókinni rekur Tocqueville skilmerkilega hvernig Bandaríkjamönnum hafi tekist öðrum þjóðum fremur að nýta samtakamátt borgaranna til lausnar hvers kyns vanda en líka til að auðga trúarlíf, menningu og menntir. Tocqueville veitti stjórnmálahreyfingum vestanhafs athygli; þar héldu frjáls og öflug stjórnmálafélög aftur af harðstjórn en samt voru það hin ópólitísku félög sem heilluðu hann mest.
Í bók sinni The Great Degeneration rekur sagnfræðingurinn Niall Ferguson hvernig starfsemi öflugra frjálsra félagasamtaka hafi gegnt lykilhlutverki við uppbyggingu vestrænna þjóðfélaga á nítjándu öld og fram á þá tuttugustu. Tölur um hæstu landsframleiðslu á mann eftir ríkjum um aldamótin 1900 haldist í hendur við mikla félagslega virkni og meðal Evrópuríkja nefnir hann þar sér í lagi Bretland, Holland, Danmörku og Svíþjóð í þessu sambandi. Þessi viðhorf berast hingað til lands og þegar árið 1844 ritar Jón Sigurðsson í Nýjum félagsritum: „Félagsandinn er sál þjóðlífsins og vörður frelsisins.“
Eftir miðja síðustu öld hnignaði frjálsu félagslífi stórkostlega vestanhafs. Robert D. Putman tekur þetta vel saman í bók sinni Bowling Alone sem út kom árið 2000. En hann notast við orðið social capital í þessu sambandi sem þýtt hefur verið sem félagsauður á íslensku. Sér í lagi verður hrun í þátttöku borgaranna í frjálsum félagasamtökum á sjöunda áratugnum samkvæmt rækilegri tölfræði sem Putman útlistar í bókinni. Að hans mati fylgdi þessu lýðræðisleg hnignun, því hin sterka lýðræðishefð Bandaríkjanna hafi grundvallast á virkri þátttöku borgaranna.
Sem dæmi má nefna að á sjöunda áratugnum fækkaði þeim sem sóttu borgarafundi um 35% og um 42% færri höfðu embættum að gegna innan frjálsra félagasamtaka við lok áratugarins en við upphaf hans, hvort sem það var í Rauða krossinum, íþróttafélögum, Rótarýklúbbum, Lions, skátahreyfingunni, Kiwanis, kvenfélögum og svo mætti lengi telja. Þessi hnignun skipulagðra félaga hefur svo haldið áfram. Putman tók hina vinsælu afþreyingu keiluspil sem dæmi en á sjöunda áratugnum hefði félagsmönnum í keilufélögum fækkað um 73% en iðkendum samt fjölgað. En bókin heitir einmitt Bowling Alone eins og áður sagði.
Putman rekur margvíslegar ástæður þessa, svo sem að fólk hafi fjarlægst hvert annað í hinum nýju úthverfum stórborganna og þá hefði sjónvarpið haft gríðarleg áhrif hér á. Í stað þess að mæta á mannfagnaði hefðu menn gónt á sjónvarpsskerminn á kvöldin. (Raunar væri áhugavert að sjá hvort sambærileg rannsókn hér á landi myndi leiða í ljós að hrun þátttöku í félagsstarfi hafi fylgt tilkomu sjónvarpsins.) Putman nefnir enn fremur kynslóðaskipti; Bandaríkjamenn sem voru að vaxa úr grasi á eftirstríðsárunum höfðu ekki sama metnað í þessum efnum og foreldrar þeirra og forfeður. Hér má líka geta enn einnar rannsóknar en annar bandarískur þjóðfélagsfræðingur, Charles Murrey, heldur því fram í bók sinni Coming Apart frá árinu 2012 að hnignun félagslífs bandarískrar alþýðu sé ein helsta ástæða aukins ójafnaðar í Bandaríkjum samtímans.
Sama þróun hefur átt sér stað í áðurnefndum Evrópuríkjum. Í nýútkominni bók danska blaðamannsins, Anders Krab-Johansen, Fri os fra den værdiløse borgerlighed, rekur hann hvernig frjálsum samtökum borgaranna hefur hnignað stórum í Danmörku. Fyrir ekki svo löngu hafi Danmörk verið réttnefnd „foreningsland“ og lýðræðið í landinu byggst á „det folkelige liv og det frie ord“. Í samtímanum sé öll áherslan á velferðarríkið sem sé miðstýrt frá Kristjánsborgarhöll; hið opinbera hafi tekið að sér flest öll þau verkefni sem umfangsmikil félagasamtök höfðu áður með höndum. Í stað þess að frjáls samtök borgaranna leysi margþætt viðfangsefni samfélagsins beina borgararnir kröfugerð sinni að ríki og bæjarfélögum.
Ferguson bendir á í áðurnefndri bók að Tocqueville hafi þegar í greiningu sinni á bandarísku þjóðlífi á fjórða áratug nítjándu aldar séð hver hætta þessa sjálfsprottna samfélags væri: Að ríkisvaldið yxi því yfir höfuð; hið opinbera yrði svo voldugt að það slæfði framtak einstaklinganna og samtakamátt borgaranna, beygði þá undir vilja sinn og stýrði þeim — án þess þó að niðurstaðan yrði endilega harðstjórn. Ferguson segir hnignun félagasamtaka ekki tilkomna vegna tækninýjunga á borð við sjónvarp og veraldarvefinn heldur hins altumlykjandi ríkisvalds.
Svo ég vitni aftur í Tocqueville þá taldi hann að hið pólitíska vald myndi aldrei megna að leysa þann aragrúa verkefna sem bandarískir borgarar leystu sjálfir í krafti samtakamáttarins á hverjum einasta degi. Og eftir því sem ríkisvaldið tæki til sín fleiri verkefni sem borgararnir hefðu sjálfir fram að því leyst trosnuðu þau bönd sem borgararnir hefðu bundist, þeir sæju sífellt minni þörf á að umgangast hver annan, hvað þá að koma hver öðrum til hjálpar. Tocqueville orðaði það svo (í lauslegri þýðingu minni) að „í sambandi hver við annan þroskuðu menn tilfinningar sínar og hugmyndir, náungagæskan ykist og mannsandanum færi fram“.
Þessar nærri tveggja alda gömlu hugleiðingar tala skýrt inn í okkar samtíma. Aldrei hafa verið til jafnmiklir peningar í þjóðfélagi okkar og nú — á sama tíma og aldrei hefur verið kvartað jafnhástöfum undan skorti á peningum. Við blasir að hið opinbera hefur tekist á hendur miklu fleiri og umfangsmeiri verkefni en því verður nokkurn tímann fært að sinna. Kjörnir fulltrúar og embættismenn verða samdauna þeim hugsunarhætti að ekkert sé ríki og bæjarfélögum óviðkomandi.
Ég minnist þess er ég var varaborgarfulltrúi fyrir um áratug að starfsmönnum borgarinnar var gert að hlaða í bálkesti fyrir gamlárskvöld. Þetta er dæmi um einfalt verkefni sem borgararnir eiga að leysa sjálfir í sínum félögum: vilji menn halda álfabrennu geta þeir sjálfir skipulagt hana og um leið notið gleðinnar sem því fylgir að gefa af sér til nærsamfélagsins.
Á dögunum frétti ég af framfarafélagi nokkru sem hafði um árabil reynt að fá yfirvöld viðkomandi bæjarfélags til að ganga frá lóð í eigu bæjarins þar sem hvers kyns úrgangi hafði verið safnað, bílhræjum og járnarusli. Á endanum tóku nokkrir röskir menn í stjórn umrædds framfarafélags sig til, mættu á staðinn með gröfu og vörubíl og hreinsuðu svæðið — og voru snöggir að því. Það er þetta framtak sem við þurfum að virkja og treysta á í auknum mæli, fyrir utan að það verður miklu skemmtilegra samfélag þar sem borgararnir sjálfir eru virkir þátttakendur; ekki bara með greiðslu skatta heldur með því að taka til hendinni.
En þau eru miklu stærri og mikilvægari viðfangsefnin sem frjáls samtök borgaranna hafa leyst hingað til en að hlaða bálkesti og hreinsa upp járnarusl. Verkefni sem þeir geta leyst og eiga að leysa. Hlutur frjálsra félagasamtaka í uppbyggingu íslensks nútíma samfélags verður seint ofmetinn. Um aldamótin 1900 spruttu hér upp fjöldahreyfingar sem opnar voru almenningi og helguðu sig mannrækt, góðgerðar- og líknarmálum. Samvinnufélög áttu stóran þátt í að fá verslunina inn í landið, sparisjóðir gerðu almenningi kleift að njóta bankaþjónustu, ungmennafélög voru stofnuð hvarvetna til sveita og góðtemplarafélög og íþróttafélög í bæjunum.
Sjúkrahús hér á landi voru í upphafi reist af frjálsum félagasamtökum og ýmis heilbrigðis- og félagsþjónusta er enn í höndum öflugra sjálfseignarstofnana og félaga, þó svo fjármagnið komi nú orðið að stórum hluta úr opinberum sjóðum. Nægir hér að nefna SÍBS, Sjómannadagsráð, Náttúrulækningafélagið, SÁÁ, Sólheima í Grímsnesi og Elliheimilið Grund. Við þurfum fleiri slíkar stofnanir og á öðrum sviðum sömuleiðis. Háskólinn í Reykjavík, Iðnskólinn í Reykjavík, Samvinnuskólinn og Verzlunarskólinn voru stofnaðir fyrir framtak borgaranna sjálfra. Við þyrftum fleiri sjálfstæða skóla á öllum stigum náms. Sífelld vandkvæði við heilbrigðisþjónustu, skortur á rými fyrir börn á leikskólum og stórfelld hnignun kunnáttu grunnskólanema kann að vera til marks um að hið opinbera ráði ekki við verkefnið eitt.
Ísland var langt fram eftir tuttugustu öld efnahagslega veikburða en sterkt félagslega þar sem borgararnir höfðu byggt um öflug samtök til að fást við hvers kyns viðfangsefni þjóðlífsins. Íslendingar urðu almennt vel að sér um grundvallarreglur lýðræðislegra vinnubragða í krafti mikillar reynslu af félagsstörfum. Velsæld okkar eigum við að stórum hluta að þakka frjálsum félagskap borgaranna þó svo að sú hreyfing hafi ekki orðið eins öflug hér og í Bandaríkjunum. Brýnt er að við gerum okkur betur grein fyrir þessum grundvallarþætti í tilurð nútímasamfélags og treystum á nýjan leik á borgarana sjálfa og samtakamátt þeirra við úrlausn þjóðfélagsmála. Fyrir löngu er orðið ljóst að hið opinbera hefur færst miklu meira í fang en því er nokkurn tímann fært að sinna.