fbpx
Mánudagur 15.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Í dag erum við öll Akurnesingar

Eyjan
Föstudaginn 14. júní 2024 13:40

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég deili með vini mínum Ástþóri Magnússyni, sem ég var svo lánsöm að kynnast í forsetakosningunum, að vera með þeim ósköpum gerð að upplifa einstaka sinnum að fá sýnir í björtu, allsgáð og í engri leit að andlegri uppljómun. Yfirleitt gerist þetta við algerlega hversdagsleg störf, eins og að vaska upp eða versla í matinn. Í fyrsta sinn sem þetta gerðist var ég hnáta að heimsækja ömmubróður minn, sem þá var forstjóri Sementsverksmiðjunnar á Akranesi, en við mamma heimsóttum hann, sigldum auðvitað yfir á Akraborginni sálugu. Mín fyrsta sjóferð. Þegar Akranes varð vel greinanleg sá ég mynd af bæ sem er ekki til. Ekki enn þá.

Ég er löngu hætt að hafa af því áhyggjur af því að sýnir sem þessar séu nokkuð til að gera veður út af. Ef ég verð talin galin fyrir að gangast við þessu þá verður að hafa það en svona er þetta og ég lít á þetta sem gjöf sem mér var gefin.

Svo var það að þegar ég kom fyrst til Santa Barbara, helgarparadísar margra LA búa, að ég fattaði að sýnin gamla um Akranes var nokkurskonar myndrænn draumur um alíslenskan systurbæ sem byggði á sömu lögmálum en þó með íslenskum formerkjum og menningarsniði.

Mig dreymir enn um að Akranes verði einhver yndislegasta útivistarparadís landsins, þar sem við Reykvíkingar og nærsveitungar förum til Akraness um helgar til að borða gott sjávarfang á margvíslegum gæða matsölustöðum, heimsækjum óteljandi lítil og persónuleg kaffihús, skranbúðir og listgallerí, verslanir með fagurt íslenskt handverk, lítil hótel á viðráðanlegu verði og njótum undursamlegrar náttúru Langasands sem er ein fallegasta strönd landsins. Þar verði kajakaleiga og skipulagðar sjósundshátíðir, Guðlaugin alltaf yfirfull af fólki og á rigningardögum og um vetur væri hægt að fara á yoganámskeið eða í séríslenskt „Þangspa“ Akurnesinga eða hlusta á skemmtilega fyrirlestra í miðbænum til dæmis á gömlu bæjarstjórnarskrifstofunum, þar sem alltaf væru konsertar á kvöldin, því gamla húsi sem sannarlega skortir upplyftingu og líf og sem væri hægt að gera að hjarta bæjarins.

Ég trúi á það að maður eigi að láta sig dreyma í vöku og það hafi áhrif til góðs. Ég er kannski dálítið snúin að því leyti að þegar ég fæ eitthvað á heilann þá verð ég að koma því frá mér og við bæjarstjóraskipti á Akranesi fyrir kosningar síðast gekk ég svo langt að hringja í einn frambjóðandann, man ekki úr hvaða flokki, fannst hann bara viðkunnanlegur af mynd að dæma og sagði honum hvað ég hefði mikla ofurtrú á að Akranes hefði alla möguleika sem ferðamannaparadís fyrir okkur og alla útlendingana sem hingað koma. Og gæti orðið fyrirmynd annarra bæja víða um strandir landsins.

2020 fóru að berast af því fréttir að eitthvert furðufyrirtæki frá Maine í Bandaríkjunum hygðist stunda töfrabrögð lítt rannsökuð sem áttu með yfirnáttúrlegum hætti að binda kolefni í hafi. Allt sem skrifað var um þetta stríddi gegn heilbrigðri skynsemi – ég tek það fram að ég hef ekkert vit á þessu – en ekkert af því sem um þetta fyrirtæki var skrifað var á þá vegu að leikmaður fengi nokkurn botn, hvað þá tiltrú að þetta væri yfirleitt hægt. Af eðlislægu óþoli spurði ég spurninga og einn eiganda íslenska fyrirtækisins TRANSITION LABS sem greiddi aðkomu RUNNING TIDE reyndi að róa mig niður þó honum tækist ekki að fullvissa mig um ágæti fyrirætlananna.

Ég efast ekki um góðan vilja þeirra sem greiddu götu RUNNING TIDE þaraframleiðslufyrirtækisins og því síður trú þeirra á að þetta gæti verið ekki bara ábatasamt, sem verður að vera þáttur í áhættu fjárfesta, heldur líka til blessunar fyrir lífríki heimsins. Þetta eru fyrirtaks menn.

En fólk sem stundar viðskipti veðjar stundum á rangan hest, gerir mistök eins og við öll, og það er því miður komið í ljós að CarbonFIX ævintýrið á Akranesi er skandall fá A-Ö. Það voru mistök að gefa leyfi fyrir þessu, ávinningurinn er enginn, töfrabrögðin virka ekki og klár mengunarskaði með ófyrirsjáanlegum afleiðingum til langs tíma liggur fyrir. Um þetta er ítarlega fjallað í grein Heimildarinnar í dag og endilega lesið hana.

En stóri vandinn hér er ekki viðskiptamennirnir frá Transition Labs heldur skortur á umhverfismati og dómgreind um ráðagerðina alla af hálfu hins opinbera sem hefur fyrir gjörðir stjórnvalda undanfarins tæps áratugar lamað með vilja okkar helstu eftirlitsstofnanir. Þarna liggur hundurinn grafinn.

Á þessu ævintýri öllu bera ráðherrar pólitíska ábyrgð. Ráðherrar Íslands undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur og nú Bjarna Benediktssonar, þau Kolbrún Reykfjörð og Guðlaugur Þór. Ísland vantar tilfinnanlega fagráðherra sem eru hæf til að sinna málaflokkum sem þeim er treyst fyrir.

Skömm í hattinn fær auðvitað bæjarstjórn Akraness fyrir að gæta ekki perlunnar sinnar betur fyrir einföldum fjárfestum og hysknum stjórnvöldum sem svífast einskis og fara með landið okkar eins og drullupoll sem leita má að gulli í þar til ekkert er eftir nema auðnin og angistin.

Við skulum vona að þetta sé upphafið að endinum í upptöku landsins gæða, hvort sem er á láði eða í legi. Stöndum með Akurnesingum og náttúru landsins.

Gerum Akranes heldur að paradís sem við getum öll verið svo innilega stolt og hreykin af.

Við getum það ef við stöndum saman. Þetta er langhlaup og okkur má aldrei hætta að dreyma um betri og fegurri heim. Vonin er magnað afl, trúið mér og trúin flytur fjöll.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið
EyjanFastir pennar
15.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar
EyjanFastir pennar
07.06.2024

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið