fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Eyjan

Þjóðarsjóður: Spor Seðlabankans hræða – hvar er skýrslan um ESÍ?

Ólafur Arnarson
Miðvikudaginn 12. júní 2024 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Seðlabankinn leggur mikla áherslu á að fyrirhugaður Þjóðarsjóður verði hýstur og starfræktur í Seðlabankanum, mikilvægt sé að formfesta og gegnsæi ríki um starfsemi hans og alls ekki megi úthýsa starfseminni til einkaaðila. Saga bankans við eignastýringu er hins vegar vörðuð hulu leyndarhyggju og ógagnsæi, auk þess sem bankinn hefur á vafasaman hátt einmitt útvistað stýringu til lögmannsstofu, sem hefur fengið háar fjárhæðir fyrir og liggur á öllum upplýsingum eins og ormur á gulli.

Fyrrverandi og núverandi fjármálaráðherra hafa lagt mikið kapp á stofnaður verði Þjóðarsjóður sem skuli vera eins konar hamfaraáfallasjóður fyrir ríkið. Til hans skulu renna allar tekjur sem ríkissjóður hefur vegna nýtingar orkuauðlinda.

Þessi mikli áhugi fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar vekur nokkra athygli, ekki síst í því ljósi að ríkissjóður hefur um árabil verið rekinn með miklum halla og vaxtakostnaður ríkisins er með því hæsta sem þekkist innan OECD, jafnvel þótt heildarskuldir hans séu talsvert lægra hlutfall landsframleiðslu en hjá flestum öðrum ríkjum OECD. Ætla mætti að undir slíkum kringumstæðum væri hagkvæmara að verja arði af auðlindum til niðurgreiðslu dýrra skulda en að hefja sjóðssöfnun.

Í umsögn frá Seðlabanka Íslands um það frumvarp, sem nú er til meðferðar á Alþingi, um stofnun Þjóðarsjóðs kemur fram að Seðlabankinn telur öll rök standa til þess að sjóðurinn verði hýstur í Seðlabanka Íslands sem jafnframt sjái um rekstur hans. Meðal raka sem bankinn setur fram fyrir þessu er að mikilvægt sé að formfesta og gegnsæi ríki um rekstur Þjóðarsjóðs og að þeir aðilar sem að því komi hafi sérþekkingu á stýringu varasjóða.

Ekki er laust við að það setji hroll að þeim sem reynt hafa að kynna sér sögu eignastýringar hjá Seðlabankanum. Bankinn stofnaði á sínum tíma Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ) sem fór með rekstur og ráðstöfun eigna sem féllu til bankans við fall bankakerfisins 2008. Eignirnar námu um 500 milljörðum og svo virðist sem Seðlabankinn hafi að mestu falið Steinari Þór Guðgeirssyni, lögmanni, umsjón þeirra.

Ómögulegt hefur verið með öllu að fá haldgóðar upplýsingar um rekstur og ráðstöfun þeirra eigna sem ESÍ hélt utan um. Búið er að slíta félaginu og allar upplýsingar liggja inni á lögmannsstofu Steinars Þórs. Framkvæmdastjóri ESÍ var Haukur Camillus Benediktsson, sem einnig sat í stjórn Lindarhvols ehf., einkahlutafélags sem Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, stofnaði til að halda utan um og ráðstafa stöðugleikaeignum upp á hundruð milljarða. Steinari Þór Guðgeirssyni, lögmanni, var falin framkvæmdastjórn yfir Lindarhvoli og sá um alla ráðstöfun eigna í umboði stjórnar. Enn er í gangi dómsmál vegna ráðstöfunar eigna þess félags.

Sjá einnig:

Lindarhvoll:
Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Sigurður Þórðarson, settur ríkissakendurskoðandi um málefni Lindarhvols, skilaði Alþingi greinargerð um rekstur félagsins sem allt kapp var lagt á að kæmi aldrei fyrir sjónir fjölmiðla og almennings, en í greinargerðinni benti Sigurður á að dæmi væru um að eignir Lindarhvols hefðu verið seldar á hálfvirði til tengdra aðila. Steinar Þór Guðgeirsson hefur legið á upplýsingum um rekstur Lindarhvols eins og ormur á gulli, rétt eins og hann hefur passað upp á að engar upplýsingar berist út um rekstur ESÍ.

Seint á árinu 2019 færðist eignarhald á einkahlutafélaginu Grjótatún frá lögmannsstofu Steinars Þórs Guðgeirssonar til Hauks Camillusar Benediktssonar. Í byrjun þess árs voru eignir félagsins hverfandi en í árslok voru þær orðnar um 20 milljónir króna. Ekki verður séð af ársreikningum lögmannsstofunnar að neitt endurgjald hafi komið fyrir einkahlutafélagið og athyglisvert er að þrátt fyrir að Haukur Camillus hafi nú átt félagið í tæp fimm ár er Steinar Þór enn skráður eini stjórnarmaður þess. Eyjan hefur ítrekað óskað eftir upplýsingum frá Seðlabanka Íslands um það hvort bankinn hafi skoðað þennan fjárhagslega gjörning milli Hauks Camillusar, sem nú gegnir framkvæmdastjórastöðu hjá Seðlabankanum, og Steinars Þórs, sem hefur fengið háa reikninga greidda frá bankanum vegna starfa sinna fyrir ESÍ og fleiri verkefna. Haukur er einnig umsækjandi um stöðu varaseðlabankastjóra. Engin svör hafa borist.

Sjá einnig:

Umsækjandi um varaseðlabankastjórastöðu fékk tugmilljóna félag frá lögmanni sem rukkar bankann um hundruð milljóna

Kröfum um upplýsingagjöf vegna starfsemi ESÍ hefur ávallt verið hafnað af hálfu Seðlabankans og/eða vísað á Steinar Þór Guðgeirsson, sem hefur öll gögn í sínum höndum. Steinar hefur neitað að birta upplýsingar. Seðlabankinn tilkynnti á sínum tíma að beðið væri eftir að skilað yrði skýrslu um starfsemi ESÍ. Upphaflega átti að skila þeirri skýrslu fyrir árslok 2018. Það gekk ekki eftir. Enn hefur skýrslan ekki litið dagsins ljós. Ýmsar ástæður tafarinnar hafa verið tilteknar á mismunandi tímum. Meðal annars átti Covid að hafa tafið hana þrátt fyrir að fyrstu tilfelli Covid kæmu ekki fram fyrr en rúmu ári eftir að upphaflega átti að skila henni. Síðasta afsökunin er sú að slit F-fasteignafélags, enn annars einkahlutafélags á vegum Seðlabankans sem höndlaði með eignir Seðlabankans og var í höndum Steinars Þórs Guðgeirssonar, líkt og ESÍ, hafi valdið töfum á skýrsluskrifum.

Fátt hefur frést um það hvernig skýrsluskrifum miðar áfram eða hverjir halda þar á penna. Ekki er talið útilokað að þar séu á ferð félagarnir Haukur Camillus Benediktsson og Steinar Þór Guðgeirsson, mögulega með einhvern liðsauka.

Sem fyrr segir er ekki laust við það það setji að ýmsum hroll ef ætlunin er að Seðlabanki Íslands hýsi og starfræki fyrirhugaðan Þjóðarsjóð. Í þeim efnum eru það sporin sem hræða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir óvíst að Kristrúnu takist að halda Degi úti í horni til lengdar

Segir óvíst að Kristrúnu takist að halda Degi úti í horni til lengdar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það má semja um aðildarskilmála að ESB – mörg dæmi sýna það og sanna

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það má semja um aðildarskilmála að ESB – mörg dæmi sýna það og sanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi