fbpx
Mánudagur 15.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Styrk forysta Bjarna Ben – skýr framtíðarsýn – hyggst draga úr mannréttindabrotum

Svarthöfði
Mánudaginn 10. júní 2024 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Benediktsson er prinsipp maður mikill. Vart var búið að telja upp úr kjörkössunum í forsetakosningunum er hann boðaði alla flokksformenn á Alþingi á sinn fundi til að ræða breytingar á stjórnarskránni. Eitt brýnasta málið er að fjölga meðmælendum, sem frambjóðendur til forseta þurfa að afla sér til að framboð þeirra teljist gilt.

Svarthöfði telur forsætisráðherra hafa nokkuð til síns máls í þessum efnum. Á síðari árum hefur borið nokkuð á offjölgun frambjóðenda til forseta og með rökum má komast að þeirri niðurstöðu að fólk sem nær rétt um hundrað atkvæðum í kosningum eigi tæpast erindi í framboð.

Bjarni Benediktsson er stórhuga maður og úr því farið er í að breyta stjórnarskránni á annað borð er alveg gráupplagt að hræra í fleiru en aðeins meðmælendafjöldanum. Hann vill líka tryggja að forseti Íslands sé með meirihluta þjóðarinnar á bak við sig og er hrifinn af því að hafa tvær umferðir í forsetakosningum. Hann blæs á ábendingar um að tvær umferðir hafi í för með sér mikið umstang og fyrirhöfn.

Svarthöfði getur tekið heils hugar undir með Bjarna um að rétt sé að breyta fyrirkomulagi forsetakosninga þannig að tryggt sé að forsetinn hafi meirihluta kjósenda á bak við sig. Hann er hins vegar á því að óþarft sé að sækja vatnið yfir lækinn. Til er einföld aðferð til að kalla fram meirihluta í einni umferð. Þetta er hin svonefnda írska aðferð, sem felur í sér að kjósendur raða frambjóðendum í númeraröð á kjörseðlinum og fáist ekki hreinn meirihluti með fyrsta vali er neðsti maður felldur út og næsta val þeirra sem kusu hann bætt við atkvæði annarra frambjóðenda og svo koll af kolli þar til komin er niðurstaða. Svarthöfða hugnast þetta fyrirkomulag ekki síst vegna þess að hann er óþreyjufullur og getur ekki hugsað sér að bíða í einhverjar vikur eftir seinni umferð kosninganna, auk þess sem honum er annt um peninga skattgreiðenda og önnur umferð myndi vitaskuld kosta formúu.

Írska aðferðin er einmitt sú aðferð sem stjórnlagaráð lagði til á sínum tíma. Þar stendur kannski hnífurinn í kúnni. Að nefna stjórnlagaráð við sjálfstæðismann er náttúrlega eins og að nefna snöru í hengds manns húsi.

Síðasta atriðið sem Bjarna Benediktssyni finnst mikilvægt að taka á í stjórnarskránni er síðan kjördæmakerfið. Þar finnur hann að því að sum kjördæmin séu of stór, þ.e. of víðfeðm. Þá finnst honum ástæða til að draga úr misvægi atkvæða. Hann vill samt ekki gera landið að einu kjördæmi, sem myndi á einu bretti jafna atkvæðisrétt landsmanna að fullu. Nei, hann vill draga úr mesta misvæginu, alls ekki öllu.

Svarthöfði minnist þess að Feneyjanefnd Evrópuráðsins mælti með því fyrir um tveimur áratugum, eða svo, að meðaltal misvægis atkvæða færi ekki yfir 10 prósent og mætti aldrei vera meira en 15 prósent. Allt umfram það væri mannréttindabrot. Hér á landi er þetta misvægi 100 prósent. Þetta finnst Bjarna Benediktssyni of mikið. Í viðtali við Vísi fyrir helgi sagði hann: „Ég við að það sé tekið tillit til landsbyggðanna. Þó að mér þyki tvöfalt vægi atkvæða vera fullmikið þá myndi ég geta séð fyrir mér að við getum náð tveimur markmiðum í einu með því að tryggja betri nálægð við byggðirnar en á sama tíma draga aðeins úr misvægi atkvæðanna.“

Forsætisráðherra vill því draga eilítið úr mannréttindabrotunum hér á landi en alls ekki ráðast að rótum þeirra og uppræta þau. Svarthöfði skilur þessa afstöðu Bjarna Benediktssonar. Góðir íhaldsmenn flana ekki að neinu, allra síst því að breyta fyrirkomulagi sem hefur gefist svona feiknavel eins og kjördæmakerfið okkar sem gerir þorra kjósenda, sem búa á höfuðborgarsvæðinu, þeim arma forarpytti, hálfdrættinga á við þá göfugu landa sína sem búa á landsbyggðunum í beinu og tæru sambandi við fósturjörðina. Dreifbýlið er hið sanna Ísland.

Svarthöfði er þess fullviss að það er þessi styrka og skýra forysta sem Bjarni Benediktsson veitir bæði flokki og þjóð sem hefur tryggt Sjálfstæðisflokknum það fylgi sem hann hefur notið í æ meiri mæli frá því að hann tók við forystukeflinu á landsfundi fyrir fimmtán árum. Með sama áframhaldi gæti flokkurinn jafnvel gulltryggt stöðu sína sem annar eða þriðji stærsti flokkur landsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið
EyjanFastir pennar
15.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar
EyjanFastir pennar
07.06.2024

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið