Fulltrúar minnihlutans í Kópavogi saka meirihlutann um að fara gegn skuldbindingum og húsnæðisáætlun við úthlutun á lóðum í Vatnsendahvarfi. Ekkert sé hugað að ungu fólki, tekjulágum, námsmönnum og fleiri hópum. Eingöngu verði reist par-, rað- og einbýlishús.
„Með samþykkt þessara úthlutunarskilmála eru virtar að vettugi skuldbindingar bæjarfélagsins lögum samkvæmt sem og í húsnæðisáætlun Kópavogsbæjar, aðalskipulagi Kópavogsbæjar og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins um framboð á húsnæði á viðráðanlegu verði til að fullnægja búsetuþörfum allra félagshópa,“ segir í bókun minnihlutans á bæjarráðsfundi í gær. En að honum standa Samfylking, Viðreisn, Píratar og Vinir Kópavogs.
Yfir stendur annar áfangi í úthlutun lóða í Vatnsendahvarfi, í norðurhluta Vatnsendahverfis við Elliðavatn. Í kynningu bæjarins segir að reistar verði 500 íbúðir í fjölbýli og sérbýli og stefnt sé að því að lóðir í fyrsta áfanga verði byggingarhæfar í apríl árið 2025.
Fulltrúar minnihlutans segja að í afgreiðslu meirihlutans á úthlutunarskilmálum taki ekkert mið af skuldbindingum og markmiðum sem byggist á þeirri reynslu að markaðurinn hafi ekki getað leyst þær fjölbreyttu þarfir sem ungir, tekjulágir, námsmenn og fleiri hópar samfélagsins hafa.
„Kópavogsbær hefur ekki staðið að almennri lóðaúthlutun í 9 ár en því miður tapast hér gullið tækifæri til að leiðrétta þá skekkju, sem orðið hefur með uppbyggingu fjárfesta á þróunarreitum þar sem arðsemiskrafa er leiðarljósið,“ segir þeir.
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og aðrir fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í meirihluta svöruðu þessari gagnrýni.
„Í þessari úthlutun er nær eingöngu um par-, rað- og einbýlishús að ræða. Meiri- og minnihluta greinir á um leiðir að því marki hvernig sem flestir geti eignast þak yfir höfuðið. Hér er verið að auka framboð á lóðum í Kópavogi og slíkt framboð kemur öllum húsnæðismarkaðinum til góða. Mikið hefur verið kallað eftir auknu framboði íbúða á almennan markað og hér er brugðist við því ákalli.“