Egill Helgason fjölmiðlamaður og þjóðfélagsrýnir tjáði sig um yfirstandandi kosningabaráttu vegna forsetakosninganna 1. júní næstkomandi á Facebook-síðu sinni fyrr í dag. Miðað við færsluna er Egill búinn að fá nóg af kosningabaráttunni sem hann segir einkennast af hreinum ranghugmyndum um forsetaembættið:
„Aldrei hef ég vitað forsetakosningar þar sem er jafnmikið bullað um embættið, valdsvið þess og hlutverk og hverju forseti getur áorkað. Margt af þessu virkar eins og hreinn heilaspuni. Svo er fullt af fólki að fara á límingunum út af kosningunum – ég held ég verði feginn þegar þessu lýkur.“
Egill nefnir engin dæmi í færslunni en gerir það í athugasemd undir henni:
„Það er af svo mörgu að taka, einn frambjóðandi heyrði ég sagði að ætlaði að verða brú á milli kynslóða, annar ætlar að kalla þjóðina saman til að „uppfæra grunngildin“. Ég veit að það er erfitt að koma með eitthvað nýtt eða ferskt í umræðuna um forsetaembættið – en sama samt!“
Halla Hrund Logadóttir lét fyrrnefndu ummælin sem Egill vísar til falla en hún sagði meðal annars í hlaðvarpinu Chess After Dark:
„Ég held að það séu tækifæri í því að þekkja vel landsbyggðina og þekkja höfuðborgarsvæðið og geta verið að flétta þær sviðsmyndir saman. Ég held að það sé líka tækifæri að vera kannski, þó ég sé nú kona á fimmtugsaldri, að vera kannski ákveðin brú á milli kynslóða.“
Þegar kemur að ummælunum um að „uppfæra grunngildin“ hafa þau verið eignuð Höllu Tómasdóttur en hún hefur rætt um nauðsyn þessa meðal annars í þættinum Forystusætið á RÚV. Í þættinum sagði hún forsetann eiga að tala fyrir grunngildum þjóðarinnar. Aðspurð hver þau eru vísaði Halla til þjóðfundarins 2009 sem komst að þeirri niðurstöðu að grunngildi þjóðarinnar væru heiðarleiki, jafnrétti, réttlæti, virðing og ábyrgð. Það sé hins vegar kominn tími til að forsetinn kalli þjóðina aftur til fundar til að ræða grunngildin á nýjan leik:
„Og ekki síst hafa næstu kynslóð með og ræða þessi grunngildi og sjá hvort þau séu þau sömu eða hvort við viljum uppfæra þau.“
Halla bætti síðan við að af samtölum hennar við kjósendur mætti ráða að líklegt væri að þjóðin vildi bæta friði á listann yfir grunngildin.
Í einni athugasemd við færslu Egils er vísað til fullyrðinga sumra frambjóðenda um að forseti Íslands geti miðlað málum milli stríðandi fylkinga á alþjóðavettvangi til að mynda í stríðinu í Úkraínu:
„Þá erum komin langt út fyrir heiðhvolf hins mögulega.“
Þótt viðkomandi nefni engin nöfn þá er ljóst að helst heyrist málflutningur um að forseti Íslands geti beitt sér fyrir friðarsamningum í Úkraínu úr ranni Ástþórs Magnússonar.
Sá sem ritar athugasemdina vísar einnig til orða Bjarna Más Magnússonar prófessors við Háskólann á Bifröst sem lýsti yfir áhyggjum af vanþekkingu sumra forsetaframbjóðenda á utanríkisstefnu Íslands og sögu hennar. Það hafi meðal annars birst í því að viðkomandi frambjóðendur hafi lýst því ranglega yfir að Ísland sé hlutlaust ríki. Viðkomandi heldur því fram að „enginn í fjölmiðlum“ geri athugasemdir við „alla þessa óra“. DV gerði þó grein fyrir athugasemdum Bjarna, sem snerust um kappræður 6 af 12 forsetaframbjóðendum á Stöð 2, og hvað hver og einn frambjóðandi hafði að segja í kappræðunum um utanríkisstefnu Íslands. Lesendur geta rifjað þá frétt upp og séð hvernig ummæli frambjóðendanna samræmdust utanríkisstefnunni og sögu hennar, eins og hún raunverulega er.