Í næsta mánuði hyggjast Hagkaup opna netverslun með áfengi. Til að byrja með verður verslunin í verslun Hagkaupa í Skeifunni, Þetta kom fram á máli Sigurðar Reynaldssonar, framkvæmdastjóra Hagkaupa, á morgunverðarfundi sem haldinn var á vegum Morgunblaðsins í morgun.
Í samtali við Eyjuna segir Sigurður að þrátt fyrir að verslunin í Skeifunni sé opin allan sólarhringinn verði áfengisverslunin fyrst um sinn opin frá kl. 12-21. Viðskiptavinir geti valið um að skanna QR-kóða er þeir koma inn í verslunina og áfengispöntunin sé tekin saman á meðan þeir versla inni í búðinni og viðskiptavinir geti síðan sótta áfengið á þjónustu borð er þeir hafa lokið innkaupunum eða að panta á netinu og sækja pöntunina í verslunina.
Sigurður segir að þótt ekki verði hægt að kaupa áfengi nema milli kl. 12 og 21 verði hægt að sækja pantanir utan þess tíma. Einnig verði hægt að sækja pantanir í aðrar verslanir á höfuðborgarsvæðinu, en annars staðar en í Skeifunni verði bið upp á allt að tvær klukkustundir þar til hægt sé að sækja vörurnar.
Aðspurður segir Sigurður að áfengi í netverslun Hagkaupa með áfengi verði ekki dýrari en í Vínbúðinni. Enn fremur verði mjög hagstætt verð á tilteknum tegundum. Hagkaup muni verða í nánu samstarfi við sína birgja og leyfa viðskiptavinum að njóta hagstæðra innkaupa.