fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
EyjanFastir pennar

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar: Snillingar í lágkúrunni

Eyjan
Miðvikudaginn 22. maí 2024 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég var ungur drengur vestur á Bíldudal stóð ég í þeirri trú að Reykvíkingar væru mun merkara fólk en við sveitafólkið fyrir vestan. Það gat borðað hamborgara allan ársins hring óháð því hvort einhver nennti að standa í því að reka Vegamót, það borðaði ís sem var ekki seldur í olíuskúr og var því ekki með megnu olíubragði, og svo sá það nýjustu bíómyndirnar. Þar að auki þurfti það ekki að taka saman stólana að sýningu lokinni. Svo flutti ég suður og komst að því að borgarfólkið var engu nær himnasmiðnum en við Bílddælingar og smátt og smátt fór ég að sakna olíubragðsins þegar ég fékk mér ís.

En ég hélt áfram að smíða metorðastigann í muna mér og nú brá svo við að fólk þurfti að flytja til útlanda til að verða víðsýnt og spakt, að hætti heimspekinga sem hæst tróna í þessum stiga. En ekki liðu mörg ár áður en ég vaknaði til vitundar um að það var alveg til í dæminu að fólk snéri úr margra ára víking alveg jafn heimskt og það fór. Þá færði ég þessa mannkosti yfir á fólk sem læsi mikið. Nú ætla ég ekki að segja að fólk sem hefur búið lengi erlendis og lestrarhestar búi ekki yfir miklum andlegum auðlegðum. Það gerir það vissulega. Hins vegar væri synd að segja að þetta væru allt saman miklar mannvitsbrekkur. Til dæmis hefur Nóbel-skáldið Mario Vargas Llosa búið í fleiri löndum en ég get talið, skrifað um það bil þrjátíu bækur, birt álíka margar ritgerðir og lesið heilt bókahaf. Og það eru engir bæklingar, skal ég segja þér, enda er hann sérfræðingur í Victori Hugo, Julio Cortazar, Virginíu Woolf, William Faulkner og fleiri skáldjöfrum. Það kemur því ekki á óvart að það skuli fátt vera skemmtilegra en að hlýða á hann tala um bókmenntir. En þegar hann er búinn að greina verk Victors Hugos tranar hann sér fram með mesta afturhaldi landsins í Lýðflokknum til að sannfæra landann um að kjósa óþokka eins og þá sem Hugo var að gagnrýna í Vesalingunum. Það er því aldrei að vita hvað verður um hið besta lesefni þegar það fer upp í heila á sumum lesendum.

Er þetta þá bara hábölvaður og hetjulaus heimur þar sem allir eru stórgallaðir á alla kanta þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til hins gagnstæða? Um tíma helt ég að svo væri en þá datt ég niður á það ágæta ráð að gefa gaum að hæfileikum fólks en láta vankanta þess lönd og leið. Í bili, að minnsta kosti. Til dæmis er ég nú að rannsaka hana Carmen gömlu en hún sagði mér að fara niður í skúr og svo lýsti hún fyrir mér hvernig þar væri umhorfs, hvar Jósef bóndi hefði skilið eftir vettlingana, föturnar og svo framvegis. Svo sagði hún mér að fara á tiltekinn stað í skúrnum en þar væru, við hliðina á víntunnunni, tveir pokar með baunabelgjum sem bóndinn hafði týnt fyrr um daginn. Skildi ég taka hann en einnig hvítlauk sem var í körfu við hliðina á þremur edikbrúsum fyrir aftan traktorinn. Það merkilega er að sú gamla er orðin svo farlama að hún hefur ekki komið í þennan skúr í sjö ár. Ef ráðherra hefði jafn skýra sýn á sinn málaflokk og Carmen hefur á skúrinn væri sá hinn sami hreinlega bara hæfur í starfið. Mér skilst að það sé ekki alltaf tilfellið.

Lífið er því bara nokkuð bærilegt meðan ég rannsaka Mario Vargas Llosa er hann talar um bækur en sný mér að Carmen þegar hann byrjar á sínu afturhaldskvabbi. Að sama skapi getur þú dáðst að Bubba meðan hann syngur en snúið þér svo, sársaukalaust, að Svavari Knúti þegar Bubbi byrjar að boxa og bomba ef slíkt er þér ekki að skapi. Svona rannsóknarvinna getur reynst hin besta menntun. Þar að auki hefur hún sannfært mig um að hvarvetna sé fullt af snillingum sem eru að gera góða hluti áður en þeir detta svo niður á næstu lágkúru.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?