fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Steinunn Ólína segist ekki vera að leggja Katrínu í einelti

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 19. maí 2024 15:30

Katrtín Jakobsdóttir og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir. Myndin er samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir forsetaframbjóðandi vísar því alfarið á bug að hún sé að leggja Katrínu Jakobsdóttur mótframbjóðanda sinn of fyrrverandi forsætisráðherra í einelti. Steinunn Ólína segist aðeins hafa viðhaft eðlilega gagnrýni á störf Katrínar.

Þegar Steinunn Ólína var að hugleiða hvort hún byði sig fram gaf hún það hins vegar skýrt til kynna að hún myndi bjóða sig fram til forseta ef Katrín myndi gera það.

Steinunn Ólína býður sig fram ef Katrín Jakobsdóttir gerir það

Úr varð þó að Steinunn Ólína tilkynnti um sitt framboð 4 .apríl en Katrín um sitt 5. apríl.

Kveikjan að áréttingu Steinunnar Ólínu, í færslu á Facebook-síðu hennar, um að hún sé ekki að leggja Katrínu í einelti er pistill Kolbrúnar Bergþórsdóttur blaðakonu á Morgunblaðinu sem hún ritaði í blaðið. Meðal þeirra sem deilt hafa pistli Kolbrúnar er Líf Magneudóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna sem hefur ekki farið leynt með stuðning sinn við framboð Katrínar:

„Meðal forsetaframbjóðenda er Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir sem virðist eiga það eina erindi í baráttuna að minna á hversu hræðileg Katrín Jakobsdóttir er. Eins og harðgreindur maður, sem hefur sannleikann að leiðarljósi, sagði réttilega þá minnir Steinunn Ólína þessa dagana einna mest á eltihrellinn í Baby Reindeer. Og hún kemst upp með það.“

Þarna er Kolbrún að vísa í vinsæla þáttaröð á Netflix þar sem eltihrellirinn Daphne kemur mikið við sögu.

Lygi

Steinunn Ólína svarar þessum pistli eins og áður segir á Facebook. Ljóst er að hún hefur margsinnis gagnrýnt Katrínu harðlega en segir það hreinlega vera lygi að um einelti sé að ræða:

„Nú er blessunin hún Kolbrún Bergþórs kölluð til starfa til að gera lítið úr ástríðu minni fyrir hag lands og þjóðar. Hún bætist þar í hóp svokallaðs mektarfólks í okkar samfélagi sem lýgur því blákalt að ég hafi gengið fram með eineltistilburðum gagnvart fyrrum forsætisráðherra. Þetta er lygi en ef þessir óvitar halda þessum málflutningi áfram trúa þau eflaust að aðrir muni trúa.“

Steinunn Ólína fer síðan yfir nokkur atriði sem hún hefur gagnrýnt þegar kemur að störfum Katrínar sem forsætisráðherra.

„Í stjórnartíð fyrrverandi forsætisráðherra lagði hún á ráðin,skrifaði, samþykkti og lagði fram lagareldisfrumvarp úr þeirri sjávarútvegsstefnu sem upp er teiknuð og mun eyðileggja til frambúðar lífríki landsins. Stefnu sem gefur áfram auðlindir, eyðileggur atvinnumöguleika, rústar vistkerfum og vegur að mannréttindum fólks og sjálfstæði Íslendinga.“

„Í stjórnartíð fyrrverandi forsætisráðherra var í stað þess að nýta virkjunarkosti sem samþykktir eru og eru grænir og hreinir lagði hún á ráðin með ríkisstjórn sinni að setja af stað gullgrafaraæði í vindmyllurekstri, sem mun eyðileggja fuglalíf, valda landraski og náttúruspjöllum, eyðileggja ásjónu landsins, skapa engin störf og bara eyðileggingu til frambúðar. Ekkert gerði hún til sporna við sumpart tilbúnum orkuskorti með skynsamlegum lausnum til að koma í veg fyrir vindmylluarðránið fyrirætlaða.“

Steinunn Ólína segir það ekki einelti að gagnrýna slíkt og bætir við:

„Fyrrverandi forsætisráðherra ber pólitíska ábyrgð á frumvörpum þeim sem samin voru og lögð eru fram í hennar stjórnartíð og getur ekki vikist undan að hafa ætlað að framselja, leigja, gefa og sumt um aldur og ævi íslenskar náttúruauðlindir til útlendinga og bestu vini þeirra sem eiga og ráða í okkar samfélagi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt