fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Sægreifar kosta framboð Katrínar

Eyjan
Sunnudaginn 19. maí 2024 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Endaspretturinn er hafinn í baráttunni um Bessastaði, en nú eru innan við tvær vikur til kjördags. Frambjóðendur og bakhjarlar þeirra eru greinilega farnir að bretta upp ermar. Buddan hefur verið opnuð upp á gátt og bersýnilega vegur hún mismikið hjá frambjóðendum.

Orðið á götunni er að þrír frambjóðendur hafi mest fé milli handanna, sem birtist í auglýsingakaupum bæði á samfélagsmiðlum og hefðbundnum fjölmiðlum. Allt frá upphafi kosningabaráttunnar hefur Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, verið áberandi í keyptum auglýsingum og sama má segja um Höllu Tómasdóttur, forstjóra B-Team. Orðið á götunni er að þær Helga og Halla fjármagni sína kosningabaráttu að mestu sjálfar.

Sá frambjóðandi sem augljóslega ver mestum peningum til sinnar kosningabaráttu er hins vegar Katrín Jakobsdóttir og orðið á götunni er að hún sé þegar búin að verja tugum milljóna í sitt Bessastaðaverkefni.

Auglýsingar Katrínar hafa verið áberandi á flestum miðlum. Meðal annars hefur löng sjónvarpsauglýsing verið sýnd margsinnis á hverju kvöldi í Ríkissjónvarpinu, t.d. rétt fyrir sjónvarpsfréttir. Orðið á götunni er að kostnaður við gerð auglýsingar af þessu tagi hlaupi á nokkrum milljónum. Hver birting á RÚV kosti svo á bilinu 4-500 þúsund, þannig að hvert sjónvarpskvöld hlaupi á milljónum.

Það er auglýsingastofan Aton JL sem sér um útlit kosningabaráttu Katrínar Jakobsdóttur og þar með framleiðslu auglýsinga og birtingar þeirra. Huginn Freyr Þorsteinsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar og einn eigenda Atons er tengiliður auglýsingastofunnar við framboð Katrínar.

Orðið á götunni er að í ljósi þess að enn eru tæpar tvær vikur til kosninga sé ekki óvarlegt að ætla að raunverulegur kostnaður við framboð Katrínar muni verða vel á annað hundrað milljónir króna.

Einhver þarf að borga þann kostnað og orðið á götunni er að lítið sem ekkert komi úr vasa frambjóðandans sjálfs, það séu sægreifar sem hafi tekið upp veskið fyrir Katrínu. Passar það vel við að forysta Sjálfstæðisflokksins styður Katrínu eindregið og hefur raunar látið henni í té skrímsladeild sína sem hefur farið mikinn í þessari kosningabaráttu gegn þeim frambjóðendum sem líklegastir eru taldir til að eyðileggja Bassastaðadraum forsætisráðherrans fyrrverandi. Hér áður fyrr fór skrímsladeildin stundum mikinn gegn Katrínu og fann henni m.a. viðurnefnið „Skatta-Kata“ en sjö ára samstarf í ríkisstjórn virðist hafa sannfært Bjarna Benediktsson og forystu flokksins um að Katrín deili með þeim bæði hugsjónum og gildum.

Orðið á götunni er að sægreifum renni blóðið til skyldunnar að styðja við bakið á Katrínu sem hafi reynst þeim betri en enginn sem forsætisráðherra og m.a. tryggt að ekki hafi tekist að setja ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á náttúruauðlindum landsins, en sem kunnugt er hafa sægreifar afnot af fiskinum í sjónum nær endurgjaldslaust. Hagnaðurinn af því nemur tugum milljarða á hverju ári og því ekki tiltökumál að punga út par hundruð milljónum í þakklætisskyni.

Orðið á götunni er að sægreifunum þyki svo ekki verra að hugsa til þess að á Bessastöðum sitji forseti sem hægt sé að treysta til að verja hagsmuni þeirra ef Alþingi tæki upp á þeim óskunda í framtíðinni að reyna að tryggja raunverulega þjóðareign á auðlindum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt