Orðið á götunni er að haldi Katrín Jakobsdóttir, forsetaframbjóðandi, að hún geti stigið vígamóð út úr daglegum stjórnmálum, yfirgefið sökkvandi skip ríkisstjórnar sinnar og flokks Vinstri grænna og látið kjósa sig forseta Íslands fáeinum vikum síðar, sé það mikill misskilningur. Kjósendur séu ekki eins vitlausir og sumir virðist halda. Landsmenn vilji velja forsetann sjálfir en ekki taka við fyrirmælum um það frá ríkisstjórninni, embættismönnum eða lögreglunni þó að einhvern tíma hafi þjóðinni verið uppálagt að hlýða Víði.
Orðið á götunni er að allt of bratt sé fyrir kjósendur að horfa á eftir umdeildum forsætisráðherra yfirgefa ríkisstjórn sína eftir meira en sex ára feril, breyta eitthvað um takt og reyna að birtast þjóðinni sem fulltrúi allra, sameiningartákn þjóðarinnar. Katrín Jakobsdóttir muni aldrei eiga möguleika á að sameina landsmenn á bak við sig. Jafnvel þó að hún reyni að skipta um yfirbragð og áherslur. Hún ætli að hætta að vera pólitískur stríðsmaður og formaður flokks sem mælist með 4,6 prósent fylgi samkvæmt nýjustu Gallupkönnun og vilji gerast leiðtogi allrar þjóðarinnar – einnig hinna 95 prósentanna sem hafa ekki stutt gamla flokkinn hennar.
Fræg eru ummæli Björgvins Halldórssonar – ný föt, sama röddin – sem voru látin falla af allt öðru tilefni. Þau geta átt við um svo margt annað, meðal annars það þegar umdeildur stjórnmálamaður stígur af stalli og heldur að allt sé gleymt og unnt sé að hefja nýtt líf. Sama röddin fylgir manneskjunni og gleymist ekki svo auðveldlega.
Ljóst er að það fylgi sem Katrín mælist með í skoðanakönnunum kemur að mestu frá kjósendum ríkisstjórnarflokkanna. Orðið á götunni er að skiljanlegt sé að Vinstri græn standi með fyrrum formanni sínum og jafnvel hluti Framsóknarmanna, vinstri armur þess flokks. En að hluti sjálfstæðismanna skuli hafa geð í sér til að veita fyrrum sósíalistaleiðtoganum Katrínu stuðning veki furðu. Reyndar virðist vera að renna upp fyrir æ fleiri flokksmönnum Sjálfstæðisflokksins að Katrín var í fremstu forystu Vinstri grænna þegar flokkurinn skipulagði aðför að fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins, Geir Haarde, fékk hann dreginn einan fyrir Landsdóm með það að markmiði að fá hann dæmdan til fangelsisvistar. Steingrími J. Sigfússyni, Katrínu og félögum tókst það sem betur fer ekki. Sumir félagar þeirra báðust opinberlega afsökunar á að hafa stutt það níðingsverk – en Steingrímur J. og Katrín hafa látið það ógert. Of seint er fyrir þau að biðjast afsökunar núna þegar liggur á að tryggja sér stuðning sjálfstæðismanna. Þó hefur Hannes Hólmsteinn Gissurarson lýsti yfir stuðningi við Katrínu. Óvíst er um gagnsemi þess.
Orðið á götunni er að svo virðist sem forystumenn ríkisstjórnarflokkanna hafi myndað eins konar hræðslubandalag til stuðnings Katrínu. Þó að forystan hafi heitið stuðningi við Katrínu er ljóst að flokksmenn láta ekki binda hendur sínar þegar þeir eru einir í kjörklefanum. Þá geta þeir lagt mat á feril Katrínar í stjórnmálum og orðið á götunni er að líklegt sé að þá átti þeir sig á því að arfleifð hennar er lítil umfram svikin loforð, brostin stefnumál, okurvextir og óðaverðbólga sem ríkisstjórn hennar ber höfuðábyrgð á.
Á kjördag velja kjósendur en ekki valdastéttin í landinu.