Í kvöld klukkan 18:55 fara fram kappræður milli forsetaframbjóðenda á Stöð 2. Þó verða ekki allir tólf frambjóðendurnir með heldur aðeins þeir sex sem eru efstir í skoðanakönnunum. Einn þeirra frambjóðenda sem fær ekki að vera með er Viktor Traustason. Hann er afar ósáttur við þessa ráðstöfun og hefur tilkynnt að hann muni samt taka þátt í kappræðunum með því að svara öllum spurningum sem þeir frambjóðendur sem fá að taka þátt verða spurðir að. Þetta ætlar Viktor að gera með hjálp samfélagsmiðla.
Viktor segir í færslu á Facebook-síðu sinni að þessi ákvörðun Stöðvar 2 sé byggð á ófaglegri túlkun niðurstaðna ólíkra skoðanakannanna yfir langt tímabil sem byggi á tölfræðilegum grunni, sem sé lítt traustur, varðandi það hvaða frambjóðanda landsmenn vilji helst að taki við forsetaembættinu.
Þar af leiðandi muni hann í kvöld taka óbeinan þátt í kappræðunum með því að svara sömu spurningum í rauntíma á hans samfélagsmiðlum: Facebook, Instagram, X (áður Twitter) og Tiktok.
Viktor segir að lokum að hann hafi hvatt alla frambjóðendur að taka þátt með honum í kvöld á samfélagsmiðlum.