fbpx
Föstudagur 03.janúar 2025
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar menn hengja sig á einstök orð

Eyjan
Þriðjudaginn 14. maí 2024 14:00

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 4. maí skrifaði ég grein í Heimildina með titlinum „Línurnar eru að skýrast – Nýttu atkvæðið þitt rétt!“. Góður handritalesari hafði lesið yfir, án athugasemda, frúin, sem aldrei vill styggja neinn, hvað þá særa, hafði lesið yfir, án umkvartana, og bráðglöggur og næmur ritstjóri miðilsins hafði líka lesið. Birti svo athugasemdalaust.

Það sannaðist hér, að fólk sér og skilur það, sem sagt er, skrifað, með afar mismunandi hætti. „Mitt fólk“ hafði metið heildarmyndina, heildargreinina, í lagi, aðrir gripu einstakar setningar, eða par orð, út úr samhengi, og festu sig svo á þau.

Ágætur barnabókahöfundur, Gunnar Helgason, tók þetta strax fyrir á Facebook-síðu sinni með upphafsorðunum „Ég hélt við værum komin lengra“.

Var megin punktur umkvörtunar Gunnars sá, að mér fyndist ekki fjölskylda Baldurs Þórhallssonar, Baldurs & Felix, falleg. Að mér fyndist ekki fjölskylda samkynhneigðs pars falleg. Fannst honum rétt að kalla mig nátttröll og fordómafullan karlfausk fyrir og efnið hatursorðræðu.

Dembdu svo aðrir sér, í tuga tali, á þessa fordæmingu. Fór þar framarlega bróðir Gunnars að viðbættum miklum hópi, og lýstu menn ýmist vanþóknun, hneykslan eða fordæmingu sinni á mínum skrifum, eða, í bezta falli, mikilli samúð með Gunnari og hans umbjóðendum; Baldri & Felix.

Hvort þetta hneykslaða fólk allt hafði nokkurn tíma lesið grein mína í heild sinni, og fengið heildarmynd, eða byggði fordóma sína einvörðungu á umkvörtunum Gunnars, er ekki vitað.

Ritstjóri DV henti sér svo í málið á mánudagsmorgni, 6. maí, og endurtók hann á fréttasíðum blaðsins FB-færslu Gunnars í samspili við mína grein úr Heimildinni. Varð úr þessu nokkuð svæsið mál og óskemmtilegt, vondur hrærigrautur.

Ég vildi svara Gunnari á FB-síðu hans, en færslan hrökk út af síðum Facebook. Svarið kemur því hér:

Sæll, ágætur Gunnar Helgason, sælt veri blessað fólkið, þið hafið öll rétt á því, að hafa ykkar skoðun á forsetaembættinu, mínu tali og skrifum um það og frambjóðendur, svo og á öðru, mér meðtöldum. Við lifum í lýðræðisþjóðfélagi, þar sem skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi, málfrelsi og ritfrelsi gilda, og þið megið, því sé þökk, kalla mig fordómafullan karlfausk, ruglhaus, drulludóna m.m.

Þetta er réttur, sem þið eigið, en ætlið mér þó, undarlegt nokk, ekki!?

Reyndar er ég lítið fyrir svona orðræðu, uppnefningar og illmæli.

Þetta vil ég nú segja:

1.

Ég er fylgjandi jafnrétti fyrir alla þjóðfélagshópa, líka auðvitað hinsegin fólk – það er hinsegin fólk í öllum fjölskyldum, og það er auðvitað jafn sjálfsagt, virt og elskað og aðrir fjölskyldumeðlimir – og ég hef sérstaklega stutt þá hópa, sem eiga undir högg að sækja, minna mega sín, t.a.m. eldri borgara, sem eru minnihlutahópur, sem hefur mikið verið settur hjá, ég hef líka margsinnis skrifað í þágu Palestínumanna, og, ekki sízt, hef ég barizt fyrir vernd, rétti og velferð dýranna, sem ekki geta talað fyrir sig sjálf, auk verndar þeirrar einu jarðar, sem við eigum, svo að eitthvað sé nefnt.

2.

Í þeirri kosningabaráttu, sem stendur yfir, styð ég Höllu Hrund Logadóttur. Sú mynd, sem ég sé af henni og hennar fjölskyldu á Bessastöðum – ég er ekki að tala um fólk, fjölskyldumeðlimi, út um allan bæ, hvar eru þeir í Bessastaðamyndinni? – er Halla Hrund, sem forseti, í forgrunni, með sinn ágæta mann og tvær dætur í bakgrunni, en líka fjölskylduna saman. Forseti samt í formi einnar persónu. Þessi mynd fellur mér.

Hin myndin, af Baldri & Felix, þar sem þeir tveir myndu að nokkru eða miklu leyti deila forsetaembættinu, eins og tvíeyki, án fjölskyldu (á Bessastöðum!), hugnast mér síður.

Þetta er mín tilfinning og skoðun, og á henni á ég rétt, reyndar án þess að vera kallaður ónöfnum.

3.

Grunngildi, gæði, þess samfélags, sem við búum í, er rétturinn til frjálsrar hugsunar og tjáningar. Þessi réttur innifelur skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi, málfrelsi, ritfrelsi.

Þetta frelsi leiðir til mikillar og margbreytilegrar flóru afstöðu og skoðana. Ef menn hafna skoðunum annarra, eða reyna að hemja þær eða leiða í tiltekinn einhliða farveg, sinn eigin, þá er hætt við, að þau dýrmætu gæði, sem frelsið er – auðvitað innan ramma laga og reglna siðmenntaðs samfélags – verði að engu.

4.

Að þessu sögðu, er mér ljóst, að ég gerði mistök í greininni, hvað varðar tal mitt um  „venjulegar“ eða „fallegar“ fjölskyldur. Þessi mistök leiddu til þess, að lesendur gátu skilið það svo, að ég teldi fjölskyldur Baldurs & Felix ekki venjulegar eða fallegar. Það er misskilningur!

Þetta harma ég, og ég biðst innilega afsökunar á því. Þessar stóru og fallegu fjölskyldur, margt mætt og fínt fólk, auðvitað venjulegt, var alls ekki í þeirri mynd, sem ég sá fyrir mér á Bessastöðum, og ég var að tala um, enda er það dreift út um allan bæ, eða allt land.

Kæru fjölskyldur Baldurs & Felix, fyrirgefið mér, ég hef séð myndir af ykkur, og þið eruð öll ljómandi falleg og fín!

Það er kannske vert, að enda þetta með því, sem ég sagði að öðru leyti um Baldur í greininni: „Ef við byrjum á að máta Baldur við grunnkjörmynd, þá stendur hann á margan hátt vel, menntaður og reyndur vel, virtur prófessor hér og erlendis, með hlýlegt fas og góðan vilja“.

Lifið öll heil, líka þeir, sem eru á öndverðum meiði við mig.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs
Eyjan
Fyrir 1 viku

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 1 viku

Boða til blaðamannafundar á morgun

Boða til blaðamannafundar á morgun