Fylgi Katrínar Jakobsdóttur heldur áfram að dala samkvæmt nýjustu skoðanakönnuninni sem Morgunblaðið birtir í dag. Hún er komin niður í 19,2 prósent en Halla Hrund Logadóttir leiðir með 26 prósenta fylgi. Katrín þyrfti að bæta við sig meira en þriðjungi fylgis til að ná Höllu. Baldur Þórhallsson er skammt á eftir Katrínu. Ekki er marktækur munur á þeim. Jón Gnarr kemur svo og Halla Tómasdóttir sækir í sig veðrið og hefur náð 12 prósenta fylgi. Hún siglir upp á við.
Orðið á götunni er að víðtækur stuðningur ýmissa embættismanna og valdhafa virðist ekki ætla að hjálpa Katrínu í þessari baráttu. Kjósendur láti ekki segja sér fyrir verkum. Enn á ný virðist þetta ætla að verða val á milli fólksins, kjósenda sjálfra, og valdhafanna í landinu. Ítrekað hefur valdinu mistekist að fá sinn forseta kjörinn í forsetakosningum á Íslandi. Katrín er að lenda í sama fari og Gunnar Thoroddsen þegar hann laut í lægra haldi fyrir Kristjáni Eldjárn og Albert Guðmundsson þegar hann tapaði fyrir Vigdísi Finnbogadóttur, að ógleymdri þeirri útreið sem Davíð Oddsson fékk þegar hann tapaði fyrir Guðna Th. Jóhannessyni fyrir átta árum. í öllum þessum tilvikum valdi fólkið forsetann en hafnaði stjórnmálamönnum og valdhöfum.
Athygli vekur hve margir valdhafar, áhrifavaldar og embættismenn hafa valið að stíga fram og lýsa yfir stuðningi við fyrrverandi forsætisráðherra sem ætlar að skipta um vettvang á nokkrum vikum, eftir að hafa siglt pólitísku fleyi sínu í strand. Orðið á götunni er að kjósendur láti ekki verkalýðsleiðtoga, sægreifa og áhrifavalda segja sér fyrir verkum þegar kemur að vali á forseta Íslands. Fólk sem kynnir landsmönnum brúnkukrem, GUCCI-töskur, bústnar risavarir og fleira silíkontengt ætti að einbeita sér að því en leyfa kjósendum að velja sér forseta í friði. Þetta gildir ekki síður um yfirlögregluþjón ríkislögregluembættisins sem ætti hvergi að koma nálægt pólitík ef hann vill halda trúverðugleika gagnvart þjóðinni. Víðir Reynisson hefur þegar stigið í feitina sem er dapurlegt.
Orðið á götunni er að dómarar, lögreglustjórar, saksóknarar og fleiri embættismenn sem þurfa að sýnst trúverðugir verði að halda sig frá pólitík, nema þeir hætti og snúi sér að stjórnmálum í staðinn.
Orðið á götunni er að það hjálpi Katrínu Jakobsdóttur og hennar kosningabaráttu ekki neitt að bersýnilegt þykir að margir af helstu ráðherrum og forystumönnum hinnar óvinsælu ríkisstjórnar sem hún yfirgaf nýlega virðast ætla að styðja hana. Skiljanlega ætli sósíalistar úr flokki hennar og fyrrum félagar úr þeim flokki að leggja henni lið. Erfiðar sé að skilja afstöðu forystumanna í stjórnarandstöðunni sem hafa opinberað stuðning, að ekki sé talað um flokksmenn í Sjálfstæðisflokknum sem ættu að muna eftir því að Katrín Jakobsdóttir tók þátt í því að reyna að fá fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins, Geir Haarde, dreginn fyrir Landsdóm einan manna og helst dæmdan í fangelsi. Vinstri grænum tókst sem betur fer ekki að fá Geir dæmdan í fangelsi. En skömm þeirra lifir – skömm Katrínar, Steingríms J. og hinna. Ögmundur Jónasson hefur þó beðist afsökunar en aðrir úr flokknum ekki.
Orðið á götunni er að ekki muni duga að tefla fram söngvurum eins og Bubba Morthens eða öðrum skemmtikröftum því að kjósendur velji sjálfir en ekki þeir sem gott er að hlusta á syngja.
Þá vekur athygli að Katrín virðist halda úti dýrustu kosningabaráttunni undir leiðsögn auglýsingastofunnar Aton JL, með aðstöðu á dýrasta horni landsins og miklar auglýsingar. Þetta kostar mikið og orðið á götunni er að sægreifar borgi brúsann. Hver annar?
Kjarni máls er þessi: Engu máli skiptir hve margir úr valdastéttinni, lögreglunni eða úr hópi embættismanna verða dregnir fram. Það mun ekki duga því fólkið velur forsetann.
Orðið á götunni er að þegar sé búið að taka París frá í stjórnkerfinu fyrir Katrínu eftir kosningar. Þá yrðu örlög hennar þau sömu og Alberts Guðmundssonar sem tapaði forsetakosningum árið 1980 en varð síðar sendiherra þjóðarinnar í París við góðan orðstír.