Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og vitnar í ónefnda heimildarmenn. Segir blaðið að ekki sé búið að ganga frá öllum lausum endum, svo ekki sé útilokað að hlutirnir geti breyst. Þá þurfa viðeigandi stofnanir flokkanna að fjalla um tillögu formanna þeirra um myndun nýrrar ríkisstjórnar.
Morgunblaðið segir að eftir því sem næst verði komist verði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra. Vísir.is tekur í sama streng.
Morgunblaðið segir að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, verði fjármálaráðherra og að Svandís Svavarsdóttir flytjist yfir í innviðaráðuneytið. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir er sögð fara aftur í utanríkisráðuneytið.
Vísir.is segir að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi rætt málefnaáherslur nýrrar ríkisstjórnar í gærkvöldi sem og ráðherraskipan flokkanna. Þingflokkar Framsóknarflokksins og Vinstri grænna munu að sögn funda fyrir hádegi.
Segir Vísir.is að stefnt sé að því að kynna stjórnarsamstarfið og áherslur þess á fréttamannafundi eftir hádegi í dag.