fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Stórskaðlegur og bannaður nagladekkjadans dunar áfram – Tugir deyja, ekkert mál?

Eyjan
Mánudaginn 29. apríl 2024 08:00

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Undirritaður bjó í 27 ár í Hamborg/Þýzkalandi. Þar er verðurfar svipað á veturna og hér á höfuðborgarsvæðinu. Í Þýzkalandi er notkun nagladekkja í megin atriðum bönnuð. Í þessi 27 ár ókum við hjónin, á sitt hvorum bílnum, á góðum og vönduðum heilsársdekkjum. Lentum aldrei í slysi eða tjóni vegna hálku eða snjós allan þennan tíma.

Nú erum við búin að búa hér í 8 vetur. Aftur á 2 bílum. Sama sagan, engin óhöpp eða slys. Okkar mat er, að notkun nagladekkja hér á höfuðborgarsvæðinu sé í raun algjörlega óþörf.

Á vefsíðu Reykjavíkurborgar stendur þessi tilkynning varðandi nagladekkjanotkun:

„Það er ekki bannað að nota nagladekk frá 1. nóvember til 15. apríl árlega en það er óæskilegt á götum borgarinnar (skv. þessu er auðvitað bannað að nota þau frá 15. apríl). Reykjavíkurborg hvetur því ökumenn til að hugsa sig tvisvar um áður en nagladekk fara undir bílinn og leita fremur að góðum vetrardekkjum.

Ónegld dekk fá háa einkunn á prófum

Í vetrardekkjakönnun sem unnin er af NAF í Noregi, sem er systurfélag FÍB á Íslandi, hefur komið fram að ónegld vetrardekk eru fullgildur kostur með tilliti til aksturseiginleika, hraða (grip), hemlunar, hávaða, rásfestu og aksturstilfinningar. Fjórar tegundir af naglalausum dekkjum skora frá 83-89 af 100 stigum í könnuninni. Það eru Continental VikingContact 7, Michelin X-Ice North 4, Goodyear UltraGrip Arctic 2 og Michelin X-Ice Snow.

Ókostir nagladekkja í Reykjavík

Ókostir fylgja nagladekkjum, þau slíta malbiki margfalt meira en naglalaus vetrardekk og flýta fyrir djúpum raufum í malbikið sem getur skapað hættu. Nagladekk skapa hávaða sem hægt væri að koma í veg fyrir með því að velja góð vetrardekk í staðinn. Nagladekk auka einnig eldsneytiskostnað bifreiða.

Mikilvægt er því að draga úr hlutfalli slíkra nagladekkja á götum borgarinnar, því þau valda svifryki sem leggst í öndunarfæri og lungu fólks.

Dýpt mynsturs í hjólbörðum hefur áhrif á hversu gott grip þeirra er. Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja er krafist þriggja millimetra lágmarksdýptar mynsturs á vetrardekkjum fólksbifreiða. Það dugar mjög vel í Reykjavík.

Nokkrar staðreyndir

  • Bíll á nagladekkjum slítur malbiki og myndar svifryk allt að 40 sinnum hraðar en bíll á ónegldum vetrardekkjum. Sleppum nöglunum!
  • Allt að 67 ótímabær andlát árlega má rekja til svifryks. Nagladekkjanotkun vegur einna þyngst í myndun þess. Sleppum nöglunum!

Svo mörg voru þau orð ráðamanna Reykjavíkurborgar um málið.

Til viðbótar við skemmdir og skaðlegt svifryk á götum, svífandi yfir byggðinni, valda nagladekk skaða á gólfi og spilla andrúmslofti í bílageymslum. För myndast í gólf og loft mengast. Svifryksslæðan, sem menn neyðast svo til að anda að sér, verður jafnvel sýnileg.

Eins má líta til ástandsins í jarðgöngum. Í Hvalfjarðargöngunum sáust varla handaskil fyrir svifryksmekki fyrir nokkru. Naglarnir geta líka valdið falskri öryggistilfinningu, sem getur leitt til óhappa og slysa, sem ella hefðu ekki orðið.

Þetta er skrifað 26. apríl. Í raun hefðu allir bílar, sem hafa verið á nagladekkum í vetur, átt að vera komnir af þeim í síðasta lagi 15. apríl. En nagladekkjadansinn dunar áfram á fullu. Gróft talið virðist minnst annar hver bíll enn vera á nagladekkjum. Tugir þúsunda bíla á höfuðborgarsvæðinu. Það eru margar vikur síðan að síðast sást hér snjóföl og/eða hálka, en nagladekkin glymja bara áfram.

Það undarlega, kaldhæðnislega, við þetta er, að lögreglan þykist hafa vald til að ákveða að þetta megi bara vera svona, þangað til að henni þóknast að fara að sekta.

Ég hef mest haldið að það væri hlutverk lögreglu að fylgja lögum og reglum, ekki að teygja þau og toga að eigin geðþótta. Það síðasta, sem ég vissi var, að 10 ökumenn hefðu verið sektaðir. Af tugum þúsunda. Er þetta sú löggæzla, sem menn vilja!?

Þetta framferði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu stenzt fyrir undirrituðum alls ekki. Skaðsemi naglanna liggur fyrir í margfaldri mynd, jafnvel má rekja ótímabær dauðsföll allt að 67 manns á ári til þessa ósóma, en lögreglan lætur þetta bara ganga áfram, fram yfir lokadag, 15. apríl, í blíðskaparveðri, eins og að þetta sé ekkert mál sem hún getur svo ráðskast með að eigin vild og geðþótta.

Fyrir nokkru féll dómur fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, þar sem svissnesk stjórnvöld voru dæmd brotleg fyrir aðgerðarleysi í loftslagsmálum. Var þar þó um almennt, fremur lítið skilgreint aðgerðarleysi í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun að ræða.

Hvað myndi dómstóllinn segja um linku, andvaraleysi og aðgerðarleysi stjórnvalda hér, þar sem fyrir liggur að stórum hluta bíleigenda líðst að keyra á nagladekkjum stóran hluta ársins, mikið án nokkurrar þarfar, og, það með tilstyrk og framlengingu lögreglunnar.

Margt er gott hér, en sumt, sem virðist skrýtið og lítt grundað. Menn geta velt því fyrir sér, hvort þetta stafi af andvaraleysi, hirðuleysi eða heimsku. Vonandi ekki öllu þrennu.

Höfundur er samfélagsrýnir og dýraverndarsinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK