fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?

Eyjan
Fimmtudaginn 25. apríl 2024 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það skiptir máli hver gegnir embætti forseta lýðveldisins. Ekki vegna þess að forsetinn hafi veigamiklu stjórnskipulegu hlutverki að gegna.

Hitt skiptir meira máli í því sambandi að forseti situr samkvæmt stjórnarskrá á hátindi stjórnkerfisins og er gjarnan kallaður þjóðhöfðingi án þess að það standi berum orðum í stjórnarskrá.

Hvað sem um stjórnskipunina má segja kallar hún á að á Bessastöðum sitji valmenni.

Forneskja

Vandinn er aftur á móti sá að embætti af þessu tagi fellur ekki sérlega vel að nútímanum. Forneskja er það fyrsta sem flestum kemur til hugar þegar þeir lesa stjórnlagatextann um forsetaembættið.

Forseti og Alþingi fara saman með löggjafarvaldið og forseti og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdavaldið. Samkvæmt orðanna hljóðan er forsetinn burðarás allra ákvarðana um löggjöf og framkvæmd hennar.

En veruleikinn er gagnstæður. Embættisathafnir forseta eru gildislausar án undirskriftar ráðherra. Það er hún sem skiptir máli.

Orðalagið er lítið breytt frá því að Danir fengu sína fyrstu stjórnarskrá fyrir 175 árum. Þá missti konungurinn alræðisvald. En til þess að hann héldi virðingu sinni voru ákvæði stjórnarskrárinnar skrifuð á þann veg að engu var líkara en allt væri óbreytt.

Nú er tuttugasta og fyrsta öld

Þegar stjórnarskráin segir að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt mætti ætla að hann væri aðal gæinn eða pæjan og segði ráðherrunum fyrir verkum. En stjórnlagafræðingar túlka þetta á þann veg að ráðherrar segi forseta að skrifa undir það sem þeir hafa ákveðið.

Satt best að segja er varla unnt að ætlast til þess að þessi gamla hefðbundna túlkun lifi 21. öldina af. Athyglisvert er að í nokkrum undangengnum forsetakosningum hafa sumir frambjóðendur talað eins og þeir væru að sækjast eftir áhrifamesta embætti landsins.

Öllu lengur er ekki unnt að reikna með því að þjóðkjörinn forseti skrifi undir allt sem ráðherrar leggja fyrir hann. En nú er möguleiki forseta til að senda ný lög í þjóðaratkvæði eina gildandi undantekningin frá því að forseti geri það sem ráðherrar mæla fyrir um.

Árekstrar og glundroði

Niðurstaðan er sem sagt sú að það er ríkisstjórn og Alþingi til vansæmdar að hafa ekki lokið endurskoðun á ákvæðum stjórnarskrárinnar um forsetaembættið. En hvað á að gera? Og hvað á forseti að gera?

Einn kostur er að heimila forseta að segja nei hvenær sem honum þykir það rétt og sanngjarnt.

Það myndi í raun fela í sér afnám þingræðis og tvískipt framkvæmdavald. Framgangur löggjafar yrði samningsatriði milli þings og forseta. Að sama skapi yrðu stjórnvaldsákvarðanir samningsatriði milli ráðherra og forseta.

Þetta myndi leiða til glundroða í stjórnskipun landsins. Við fengjum fjórskipta stjórnskipun í stað þrískiptrar. Hinn kosturinn er að fella formlega aðkomu forseta að lagasetningu og stjórnvaldsákvörðunum í burtu. Svíar fóru þá leið fyrir hálfri öld.

Gallinn er sá að þá situr forsetinn uppi með nakið og óskilgreint þjóðhöfðingjahlutverkið en engin stjórnskipuleg verkefni. Eigi að síður gæti hann haft ærinn starfa við að klippa á borða, afhenda verðlaun og fara í heimsóknir utan lands og innan.

Verðugt verkefni

Svo er spurning hvort finna megi forseta lýðveldisins stjórnskipulegt hlutverk sem ekki leiðir til árekstra við Alþingi og ríkisstjórn.

Embætti forseta Alþingis er elsta embætti landsins. Lögsögumaður Alþingis á þjóðveldistímanum var æðsti maður þeirrar tíðar í landinu.

Þjóðkjörinn forseti lýðveldisins gæti sem hægast sest í stól forseta Alþings. Þingið myndi þá hætta að velja forseta úr eigin röðum. Það fengi þjóðkjörinn forseta sem væri óháður valdatafli og flokkadráttum á Alþingi. Það gæti styrkt Alþingi.

Í þessu aukna hlutverki myndi forseti áfram stýra stjórnarmyndunarviðræðum. Samhliða breytingu af þessu tagi væri eðlilegt að taka þingrofsvaldið af forsætisráðherra og færa það til þingsins.

Jafnframt væri eðlilegt að tiltekinn minnihluti alþingsmanna gæti óskað eftir því að lög færu í þjóðaratkvæði eins og fordæmi er um frá Danmörku.

Forsetinn fengi verðugt og raunverulegt stjórnskipulegt viðfangsefni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
20.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
19.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu