fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Eyjan

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 22. apríl 2024 16:30

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir. Skjáskot/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona og forsetaframbjóðandi er nýjasti gestur Frosta Logasonar í þætti hans, Spjallið. Í kynningarstiklu fyrir þáttinn sem er öllum aðgengileg fer Steinunn Ólína meðal annars yfir sýn sína á hlutverk forseta Íslands. Hún segir það hlutverk Alþingis og ríkisstjórnar að stjórna landinu og að kjósendur beri ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa. Forsetinn hafi hins vegar skoðanafrelsi og hún sé ekki skoðanalaus manneskja. Hún segist gera sér grein fyrir að þinginu beri engin skylda til að hlusta á það sem forsetinn hefur að segja um gang landsmála, en hún ætli sér ekki að verða skoðanalaus forseti:

„Ég hugsa að ef að væri eitthvað sem sneri mér þannig að mér fyndist ástæða til að segja eitthvað þá myndi ég gera það. Það er svona mín náttúra. Ég væri bara að ljúga ef ég segði það að ég ætlaði að verða skoðanalaus í þessu framboði eða verði ég forseti. Ég er ekki skoðanalaus manneskja en þingið þarf ekkert að hlusta á sinn forseta en það bannar honum enginn að tala heldur. Sveinn Björnsson okkar fyrsti forseti hann hundskammaði þingið án þess að ég sé að hóta því að ég geri það. Þá er það þannig að við skulum vona að nýrri stjórn sem er nýtekin við og þeirri næstu þeim auðnist að setja fókusinn á velferð fólksins í landinu.“

Steinunn Ólína áréttar að ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu kjörnir fyrst og fremst til að einmitt einblína á velferð fólksins í landinu. Séu stjórnmálin í réttum farvegi þurfi forsetinn í raun ekki að segja nokkurn skapaðan hlut.

Koma umræðunni í farveg

Steinunn Ólína tekur undir með Frosta um að forseti Íslands geti hafið upp raust sína meðal annars til að koma þjóðfélagsumræðunni í ákveðinn farveg:

„Það eru mörg brýn mál þar sem ég tel að forseti gæti beitt sér. Það eru mál sem eru til dæmis mér hugleikin. Úrbætur í geðheilbrigðismálum, úrbætur í áfengis- og fíkniefnameðferðum og úrræðum. Þetta eru einfaldlega hlutir sem við verðum að kippa í liðinn. Vegna þess að þetta er undirstaða þess að okkur geti liðið vel hérna. Það eru allt of margar fjölskyldur í hreinni angist. Sú angist skapar enga velferð, hún skapar aukinn ótta.“

Þegar kemur að hinum margumrædda málskotsrétti forseta Íslands hefur Steinunn Ólína áður sagt að hún myndi nýta hann sparlega verði hún kjörin:

„Það gengur ekki að við séum með forseta sem hvetur til þjóðaratkvæðagreiðslu um allt milli himins og jarðar. Það bara gengur ekki. Kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa. Þar af leiðandi eru þær stjórnir sem sitja hverju sinni á okkar ábyrgð. Þess vegna er það okkar kjósenda að hugsa vel og vandlega sjálf … hvaða fólki treystum við til að standa við stóru orðin. Við verðum að sjá í gegnum kosningaloforðin.“

Steinunn Ólína segir málskotsrétt forsetans þar af leiðandi vera neyðarhemil:

„Ég var að hugsa þetta um daginn og þá fann ég upp orðið ofríkishemill eða ofríkisbremsa. Helst á forseti aldrei að þurfa að nýta sér þessa grein. Við skulum segja að ef það stendur til að skerða mannréttindi borgaranna. Banna okkur að tala íslensku eins og við erum vön að tala hana. Banna konum að fara í fóstureyðingar. Skikka ungt fólk í herskyldu. … Undir svoleiðis kringumstæðum getur forseti virkjað þennan ofríkishemil.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum