Á fundi borgarráðs Reykjavíkur síðastliðinn fimmtudag var samþykkt tillaga Einars Þorsteinssonar borgarstjóra um að tekið yrði tilboðum í óverðtryggð skuldabréf borgarinnar sem bera fasta 9,52 prósent vexti. Sögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins um að ræða „afarkjör“ og skýrt merki um slæma fjárhagsstöðu borgarinnar. Einnig gerðu þeir alvarlegar athugasemdir um hvernig tillögunni var komið á dagskrá fundarins og segja að þar hafi reglum um framlagningu mála í borgarráði ekki verið fylgt.
Í fundargerð fundarins kemur fram að samkvæmt tillögu borgarstjóra var lagt til að borgarráð samþykkti tilboð að nafnvirði 3 milljarða króna í nýjan óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs, RVKN 27 1, sem sé 3 milljarðar króna að markaðsvirði. Skuldabréfaflokkurinn beri 9,52 prósent fasta vexti sem greiðist tvisvar á ári. Tillagan hafi verið tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 17. apríl 2024.
Hafa ber í huga að fundur borgarráðs fór fram daginn eftir fund fjárstýringarhóps.
Fulltrúar meirihlutaflokkanna í borgarráði samþykktu tillöguna en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.
Sjálfstæðismenn lögðu fram bókun á fundinum þar sem þeir segja 9,52 prósent fasta vexti vera afarkjör fyrir stóran aðila eins og Reykjavíkurborg og sýna glöggt versnandi stöðu borgarinnar á lánsfjármarkaði.
Í bókuninni er einnig gerð alvarleg athugasemd við afgreiðslu málsins og lögmæti hennar dregið í efa. Tillagan er sögð ekki hafa verið á útsendri dagskrá fundarins og ekki lögð fram undir sérlið heldur skotið inn undir liðnum „Útgáfuáætlun skuldabréfa.“ Tillagan fullnægi þar með ekki þeim skilyrðum sem gerð séu til framlagningar mála í borgarráði. Samkvæmt samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar skuli borgarráð boðað til fundar með rafrænu fundarboði ásamt dagskrá og fundargögnum að minnsta kosti 40 klukkustundum fyrir fund.
Sjálfstæðismenn segja tillöguna fela í sér mikilvæga fjárhagslega hagsmuni fyrir borgina. Tillagan hafi ekki verið kynnt með slíkum hætti heldur lögð fram án fyrirvara í upphafi fundar. Hún hafi til að mynda ekki verið á prentaðri dagskrá fundarins sem dreift hafi verið til borgarráðsfulltrúa í upphafi hans. Lágmark hafi verið að leita samþykkis fundarmanna til að setja slíka tillögu á dagskrá með afbrigðum en það ekki verið gert.
Fulltrúar meirihlutaflokkanna í borgarráði, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisna svöruðu bókun sjálfstæðismanna með stuttri bókun:
„Útgáfa þessa skuldabréfaflokks og afgreiðsla hans í borgarráði er í samræmi við hefðbundið verklag sem fulltrúar í borgarráði þekkja vel.“