Fjármálaráðuneytið og Lindarhvoll rembast enn eins og rjúpan við staurinn við að leyna upplýsingum um rekstur Lindarhvols, einkahlutafélagsins sem Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, stofnaði til að taka við og selja stöðugleikaeignir frá slitabúum gömlu bankanna, og greiðslur til Steinars Þórs Guðgeirssonar lögmanns. Ekki hafa heldur fengist upplýsingar úr Seðlabankanum um greiðslur til Steinars Þórs og fjárhagsleg samskipti hans við framkvæmdastjóra hjá bankanum.
Ester Finnbogadóttir, eini stjórnarmaður Lindarhvols ehf. sem er í eigu fjármálaráðuneytisins, fékk 150 þúsund krónur á mánuði á síðasta ári og ákveðið afturvikt fyrir árið 2022. Ester er í fullu starfi hjá fjármálaráðuneytinu. 1.800 þúsund krónur á ári verða að teljast rausnarleg stjórnarlaun þegar horft er til þess að Lindarhvoll er nú skúffufélag og ekki með neina starfsemi. Eina verkefni stjórnarmannsins er að svara fyrirspurnum um málefni Lindarhvols en öllum fyrirspurnum er illa tekið. Þeim er svarað seint og iðulega neitað að gefa þær upplýsingar sem óskað hefur verið eftir. Þetta eru vinnubrögð umsækjanda um ráðuneytisstjóra starfið.
Engir stjórnarfundir virðast hafa verið haldnir á síðustu 2 árum því engar fundargerðir hafa fengist afhentar þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um slíkt.
Leyndarhyggja í stað gagnsæis
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ítrekað gert Lindarhvoli ehf. að afhenda upplýsingar vegna fyrirspurna, sem félagið hefur neitað að svara, eða svarað með ófullnægjandi eða jafnvel villandi hætti. Alls hefur úrskurðarnefndin fellt á annan tug úrskurða gegn félaginu. Í samþykktum Lindarhvols ehf. er mikið gert úr gagnsæi, en þegar á reyndi gerði félagið allt sem í valdi þess stóð til að halda upplýsingum frá almenningi. Sér í lagi vekur árátta Lindarhvols um að afmá nær allar upplýsingar af reikningnum, sem félaginu var gert að birta, athygli. Úrskurðarnefndin hefur ekki fallist á þau rök félagsins að um trúnaðarupplýsingar hafi verið að ræða og þar með fallist á að um lymskulega tilraun til að afmá upplýsingar á gögnum sem átti að afhenda var að ræða.
Háir reikningar vegna verjandastarfa
Lögmannsstofan Íslög, sem er í eigu Steinars Þórs Guðgeirssonar lögmanns, sem í raun starfaði um árabil sem framkvæmdastjóri Lindarhvols, hefur fengið háar fjárhæðir greiddar frá Lindarhvoli á margra ára tímabili.
Sérstaka athygli vekur hve háir reikningar eru frá Íslögum vegna málflutnings í héraðsdómi vegna kæru Frigus II. Fáheyrt er að kostnaður við málaferli nemi svo hárri upphæð. Alls greiddi Lindarhvoll ehf. 20 milljónir króna með virðisaukaskatti vegna málaferlanna. Sér í lagi vekur þetta athygli vegna þess að lögmaður Lindarhvols og [Ríkissjóðs], Steinar Þór Guðgeirsson var vegna starfa sinna fyrir Lindarhvol ehf. vel inni í öllum öngum málsins auk þess að vera þar eitt helsta vitnið.
Greiðslur frá Lindarhvoli og fjármálaráðuneytinu til Íslaga eru áframhaldandi og reikningar greiddir athugasemdalaust þrátt fyrir að þeim fylgi engar tímaskýrslur, eins og sérstaklega er kveðið á um í samningi milli Lindarhvols og Íslaga. Samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu hafa Íslög aldrei skilað tímaskýrslum þrátt fyrir að hafa sent reikninga frá 2016 upp á tugi milljóna á ári hverju. Eyjan hefur sent Sigurði Inga Jóhannssyni, fjármálaráðherra fyrirspurn um það hvort hann hyggist láta þessi vinnubrögð sem viðgengist hafa í ráðuneytinu hjá forverum hans viðgangast áfram.
Leitað eftir almannatengslaþjónustu
Samkvæmt reikningum sem fengist hafa afhentir virðist sem Íslög hafi fundað með Huginn Frey Þorsteinssyni, almannatengslaráðgjafa og að stjórn Lindarhvols (Ester Finnbogadóttir) hafi viljað eyða þessum upplýsingum af reikningnum frá Íslögum en úrskurðarnefnd um upplýsingamála gerði Lindarhvoli skylt að afhenda Frigusi II þá. Samkvæmt þessu virðist Huginn Freyr vera almannatengslaráðgjafi fyrir fjármálaráðuneytið, en hann er þar öllum hnútum kunnugur, enda var hann á sínum tíma aðstoðarmaður Fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar.
Háar greiðslur til Íslaga
Frá árinu 2016 hefur lögmannsstofan Íslög fengið tæpar 240 milljónir króna greiddar fyrir vinnu fyrir fjármálaráðuneytið og Lindarhvol. Hjónin Steinar og Ástríður Gísladóttir eru eigendur lögmannsstofunnar. Að meðaltali hefur lögmannsstofan fengið um 27 milljónir króna greiddar á ári hverju frá fjármálaráðuneytinu. Þetta verk var aldrei boðið út eins og ber að gera. Auk vinnu fyrir Lindarhvol og fjármálaráðuneytið hefur Steinar Þór Guðgeirsson unnið mikið fyrir Seðlabanka Íslands og Eignasafn Seðlabanka Íslands en ekki hafa fengist upplýsingar um greiðslur Seðlabankans til hans eða lögmannsstofunnar Íslaga. Þess má geta þess að Íslög eru í hópi minnstu lögmannsstofa landsins, og nú flutt inn á Foss lögmenn og slitastjórn Glitnis.
Dómsmál vegna sölu eigna
Síðar á þessu ári verður tekið fyrir í Landsdómi mál Frigusar II gegn Lindarhvoli og íslenska ríkinu vegna sölunnar á Klakka, en Klakki var seldur til félags á vegum stjórnenda félagsins í mjög svo athyglisverðu útboði þar sem ekki verður séð að allir bjóðendur hafi setið við sama borð. Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols, hefur reiknað út að Klakki hafi verið seldur á helmingsafslætti til tendra aðila, en Steinar Þór Guðgeirsson, sem sá um útboðið og söluna, sat i stjórn Klakka á þeim tíma og hafði, ásamt stjórnendum félagsins aðgang að upplýsingum um afkomu félagsins og verðmat sem ekki voru birtar öðrum bjóðendum í félagið.
Þá má geta þess að ekki verður betur séð af ársreikningum Íslaga en að lögmannsstofan hafi afhent, án endurgjalds, einkahlutafélag að verðmæti rösklega 20 milljónir til Hauks C. Benediktssonar, framkvæmdastjóra hjá Seðlabanka Íslands, sem sat í stjórn Lindarhvols er Steinar Þór fór með raunverulega framkvæmdastjórn í félaginu og stýrði Eignasafni Seðlabanka Íslands er Steinar Þór vann sem lögfræðingur fyrir Eignasafnið. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir til Seðlabanka Íslands varðandi þessi meintu fjárhagslegu tengsl Hauks við lögmann sem fengið hefur háar fjárhæðir í greiðslur vegna starfa fyrir bankann með Hauk sem tengilið.