fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Ásdís Rán segist hafa verið óskipaður sendiherra Íslands

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 15. apríl 2024 17:00

Ásdís Rán.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásdís Rán Gunnardóttir athafnakona, fyrirsæta, þyrluflugmaður og forsetaframbjóðandi birti fyrr í dag grein á Vísi þar sem hún kynnir það sem hún hefur fram að færa í embætti forseta Íslands. Í greininni segir Ásdís meðal annars að hennar framboð geri forsetakosningarnar skemmtilegri og fjölbreytilegri. Hún segist einnig hafa verið óskipaður sendiherra Íslands í sínum störfum erlendis.

Ásdís Rán er enn að safna tilskyldum fjölda meðmælenda til að geta boðið sig fram en tíminn fer að verða naumur þar sem framboðsfrestur rennur út 26. apríl næstkomandi.

Ásdís Rán segir í upphafi greinarinnar að hún geri sér grein fyrir að margir hafi orðið nokkuð hissa þegar hún hafi tilkynnt framboð sitt:

„Ég er eflaust ekki hinn hefðbundni frambjóðandi en ég er án efa ferskur blær inn í flokk frambjóðenda og það er einmitt það sem gerir þetta stóra verkefni svo skemmtilegt og hvetjandi.“

Hún segir helsta boðskap framboðs síns vera þann að allt sé mögulegt sama hver maður er og hvaðan maður kemur. Það þurfi bara að þora.

Ásdís Rán segir flesta óttast breytingar en hún taki þeim fegins hendi með bros á vör.

Hún ætlar ekki að lofa upp í ermina á sér en segist vera kona sem skilji baráttu hversdagslífsins og trúi á möguleika allra:

„Við vitum það öll að gleði ásamt smá von er besta lyfið og við þurfum góðan skammt af því í okkar skammdegi, kulda og pólitíska umhverfi! Við saman erum hjarta og sál þessarar þjóðar og með samstöðu vöxum við í átt að bjartri framtíð og spennandi nýjum tímum.“

„Svo er ég líka þyrluflugmaður“

Ásdís Rán gerir stuttlega grein fyrir sínum starfsferli í greininni sem hún segir meðal annars hafa einkennst af störfum fyrir Ísland:

„Meðfram mínum fyrirsætu ferli hef starfað sem óskipaður sendiherra Íslands í mínum störfum erlendis síðustu áratugi og hef tekið þátt í hinum ýmsu viðskiptum ásamt því að koma fram fyrir hönd Íslands í viðtölum og uppákomum. Fyrir utan fyrirsætustörf sem flestir þekkja mig fyrir þá er ég menntuð í viðskiptum-og stjórnun og svo er ég líka þyrluflugmaður.“

Hún segir að með hennar þátttöku verði forsetakosningarnar opnaðar fyrir nýjungum og þar verði fjölbreytileikanum fagnað:

„Við eigum að þora að láta okkur dreyma stórt, njóta þess að að vera til og halda í vonina um bjartari tíma og betra líf,“ skrifar Ásdís Rán að lokum.

Grein Ásdísar Ránar í heild sinni er hægt að nálgast hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt