fbpx
Föstudagur 03.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Trausti rúinn og reistur til valda

Eyjan
Laugardaginn 13. apríl 2024 14:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar halla fór undan á hátindi stjórnmálaferilsins, skömmu upp úr síðustu aldamótum, hafði Davíð Oddsson á orði í samtali við þann sem hér lemur lyklaborðið, að það eina sem atvinnumenn í pólitík þyrftu á að halda væri traust. Ef þeir töpuðu því, færi virðingin halloka og orðsporið biði hnekki. Og svo laskaður stjórnmálamaður hefði týnt umboði sínu.

Orðin lét Davíð falla þegar Árni heitinn Johnsen, sem þá var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, varð uppvís að gripdeildum í eigin þágu á meðan hann gegndi formennsku í byggingarnefnd Þjóðleikhússins, en á endanum var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi í Hæstarétti, fyrir fjárdrátt og umboðssvik í opinberu starfi, mútuþægni og rangar skýrslur til yfirvalda.

Í viðtalinu varði Davíð ekki gjörðir Árna. Því fór fjarri. Þvert á móti sagði hann samflokksmann sinn vera trausti rúinn, einmitt því eina sem þingmenn þyrftu á að halda.

Því er á þetta minnst að í vikunni sem nú er að líða var nýr forsætisráðherra kallaður til valda sem nýtur minnsta traustsins sem ráðamennirnir við ríkisstjórnarborðið búa við. Ekki færri en sjötíu og fimm prósent þjóðarinnar setja þennan nýja leiðtoga stjórnvaldanna á Íslandi í neðsta þrepið á virðingarstiga stjórnmálanna. Allur meginþorri landsmanna ber ekki traust til hans.

Og þótt samlíkingunni við Árna Johnsen og afglöp hans á árum áður sleppi hér endanlega í tilviki nýja forsætisráðherrans, verður ekki hjá því litið, að það almenna vantraust sem hann hefur áunnið sér með næsta einbeittum hætti á síðustu árum, hefur komið til sakir alvarlegra afglapa í opinberu starfi. Hann rækti ekki skyldur sínar, heldur fór þvert á móti á svig við embættiskvaðirnar.

Ekki þarf annað en að rifja upp síðustu ávirðingarnar á nýbakaðan forystumann ríkisstjórnarinnar, en varla er nema hálft ár frá því Umboðsmaður Alþingis átaldi hann sem þáverandi fjármálaráðherra fyrir að selja eigur ríkisins þrátt fyrir augljóst aðgæsluleysi. Hann hefði, svo orðrétt sé vitnað til sálnahirðis Austvellinga, ekki verið hæfur þegar hann samþykkti tillögu Bankasýslunnar um sölu á Íslandsbanka, í ljósi þess að einkahlutafélag föður hans var á meðal kaupenda að 22,5 prósenta hlut í bankanum.

Í huga hvers heilvita manns heitir þetta spilling.

„ … það almenna vantraust sem hann hefur áunnið sér með næsta einbeittum hætti á síðustu árum, hefur komið til sakir alvarlegra afglapa í opinberu starfi.“

Og þarf þá heldur ekki að rifja upp aðrar álíka yfirsjónir sem tengjast feðgunum, en frægt er með endemum þegar sonurinn, í fyrri forsætisráðherratíð sinni, leyndi formenn hinna tveggja stjórnmálaflokkanna við ríkisstjórnarborðið að faðir hans hefði skrifað undir meðmælendabréf til stuðnings þess að dæmdur barnaníðingur fengi uppreist æru.

Látum aflandsfélög fjölskyldunnar og skattaskjólin vera, en endurtekinn trúnaðarbrestur í starfi hefur leitt til ítrekaðra afsagna formanns stærsta stjórnmálaflokksins sem nú á sæti á Alþingi Íslendinga, fyrst sem forsætisráðherra og síðar sem fjármálaráðherra.

Og vandfundið er það lýðræðisríki sem telur sig vera komið til nokkurs þroska sem opnar dyrnar að utanríkisráðuneytinu fyrir fallinn fjármálaráðherra. Það mun líklega vera einsdæmi að ráðherra sem segi af sér, ráði sjálfan sig í annað ráðuneyti – og það samstundis og hann viðurkennir vanhæfi sitt.

En þetta er íslensk pólitík í hnotskurn. Og er hér með lagt til að landsmenn láti vera að gera grín að lýðræðislega völtum eða vanstilltum þjóðstjórnum annarra Evrópuríkja, hvort heldur þær ríkja á Ítalíu, Ungverjalandi, Tyrklandi og áður fyrr í Póllandi.

Því þjóð mín, líttu þér nær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
01.12.2024

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
22.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
19.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið