Í þá þrjá sólarhringa sem undirskriftasöfnun gegn forsætisráðherratíð Bjarna Benediktssonar hefur staðið hafa um 39 þúsund manns haft fyrir því að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum og sett nafn sitt á listann.
Það eru um níu þúsund fleiri einstaklingar en skrifuðu undir sambærilegan lista árið 2016 gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra, í kjölfar umfjöllunar um Panamaskjölin. Hann sagði af sér.
Það eru einnig álíka margir og skrifuðu sig á lista gegn fjölmiðlafrumvarpinu árið 2004. Það var dregið til baka og sett í tætarann.
Enn fjölgar á listanum gegn Bjarna og þegar þessi orð eru skrifuð er undirskriftasöfnunin í sextánda sæti yfir fjölmennustu undirskriftasafnanir sögunnar. Af þessu tilefni hefur hann sagt það hluta af eðlilegri framkvæmd lýðræðis að ekki séu allir á sömu skoðun.
Hversu margar undirskriftir teljast nægjanlega margar til að mark verði á þeim takandi?