fbpx
Sunnudagur 17.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Málefnahnútarnir enn óleystir

Eyjan
Fimmtudaginn 11. apríl 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frá áramótum mátti öllum vera ljóst að verulegar líkur væru á að Katrín Jakobsdóttir færi í forsetaframboð. Þó að formleg ákvörðun um framboð hafi ekki verið tekin fyrir páska gat leiðtogum samstarfsflokkanna ekki dulist að allt stefndi í þá átt.

Samt var eins og þeir kæmu af fjöllum þegar forsætisráðherra baðst lausnar á sunnudaginn var. Þeir lýstu því yfir við forseta Íslands að þær ætluðu að halda samstarfinu áfram en vissu bara ekki hvernig.

Fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins lýsti þeirri skoðun sinni fyrir nokkrum mánuðum að það væri stjórnarkreppa í landinu. Þegar í ljós kom að leiðtogar stjórnarflokkanna vissu ekki sitt rjúkandi ráð eftir afsögn Katrínar Jakobsdóttur var það einfaldlega staðfesting á því að allt er óbreytt.

Lögmálið um gagnkvæmt neitunarvald

Það er rétt hjá fulltrúa ritstjóra Morgunblaðsins að stjórnarkreppa á ekki einungis við það ástand að ríkisstjórn hefur beðist lausnar og önnur ekki mynduð.

Stjórnarkreppa tekur líka til þess þegar sitjandi stjórnarflokkar geta ekki komið sér saman um heildstæða stjórnarstefnu eða afgreiðslu mikilvægra mála. Það ástand hefur staðið allt þetta kjörtímabil. Það hvorki varð til né leystist við afsögn Katrínar Jakobsdóttur. Málefnahnútarnir eru enn óleystir.

Núverandi leiðtogi VG lýsti þessu ágætlega á flokksráðsfundi á Ísafirði í byrjun kjörtímabilsins. Þar sagði hann að árangur stjórnarsamstarfsins yrði að meta út frá fjölda þeirra stefnumála samstarfsflokkanna, sem unnt hefði verið að stöðva.

Þau kalla Rússlandsvexti stöðugleika

Lögmálið í samstarfinu hefur verið þetta gagnkvæma neitunarvald. Regluleg endurnýjun málefnalegra heita breytir engu um þetta.

Fyrir nokkru kynntu stjórnarflokkarnir sameiginlega sýn í útlendingamálum. Óánægja með stöðu útlendingamála í stjórnarflokkunum hefur aldrei verið meiri en eftir að þau tíðindi.

Stjórnarflokkarnir hafa opinberlega deilt um stöðnun í orkumálum. En fráfarandi forsætisráðherra upplýsti fyrir skömmu að orkuráðherra Sjálfstæðisflokksins hefði aldrei lagt mál fyrir ríkisstjórn sem ágreiningur hefði orðið um.

Þessi dæmi sýna að endurnýjuð málefnaleg heit ári fyrir kosningar hafa litla eða enga þýðingu.

Hitt er broslegt þegar ráðherrarnir kalla vaxtastig, sem bara sést í Rússlandi og Úkraínu, stöðugleika. Það heitir líka stöðugleiki þegar markaðurinn býst við þrefalt hærri verðbólgu en í grannlöndunum við lok næsta kjörtímabils.

Ekki á vísan að róa

Vilji stjórnarflokkanna til áframhaldandi samstarfs virðist byggjast á því að lækkun nafnvaxta samfara lægri verðbólgu vegna verðlækkana erlendis muni hjálpa þeim í kosningum að ári.

Hin hliðin á þeim peningi er sú að þrátt fyrir 1% mögulega nafnvaxtalækkun bendir flest til að raunvextir muni beinlínis hækka um að minnsta kosti 1%. Heimilin sem eru í mestum vanda í dag verða því að öllum líkindum í sama eða meiri vanda að ári.

Fari aftur á móti svo að vextir lækki verulega er hætt við að erlendir spákaupmenn, sem íslenskir skattgreiðendur halda uppi, snúi til síns heima. Þá fer gjaldeyrir úr landi og verðgildi krónunnar lækkar.

Að þessu virtu er það varfærið mat að ekki sé á vísan að róa um betri hag heimila eftir eitt ár að óbreyttri stjórnarstefnu.

Veðmál VG

Í þessu ljósi er ekki ólíklegt að VG hefði komið ár sinni betur fyrir borð með því að fara í stjórnarandstöðu í eitt ár.

Þó að Svandís Svavarsdóttir hafi ekki reynst öflugur ráðherra hefur hún óumdeilanlega hæfileika til þess að velgja hvaða ríkisstjórn sem er undir uggum í stjórnarandstöðu.

En þingflokkur VG virðist hafa ákveðið að veðja á nafnvaxtalækkun þótt raunvaxtahækkun sé líklegri. Samfylkingin verður því áfram án aðhalds frá vinstri.

Veðmál Sjálfstæðisflokks

Veðmál þingflokks sjálfstæðismanna er tvenns konar:

Annars vegar veðjar hann á að unnt verði að selja litla nafnvaxtalækkun í kosningum þótt raunvaxtahækkun sé líklegri. Hins vegar veðjar hann á að vænlegra sé að ná til baka íhaldsatkvæðum, sem hann hefur tapað til Miðflokks, en frjálslyndum atkvæðum sem hann hefur tapað til Samfylkingar í stórum stíl.

Sú niðurstaða að leggja áherslu á íhaldsfylgið auðveldar sókn Samfylkingar og gefur Viðreisn tækifæri til öflugrar viðspyrnu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Umsátur á Vopnafirði – Gæsluvarðhald og nálgunarbann eftir umfjöllun fjölmiðils

Ágúst Borgþór skrifar: Umsátur á Vopnafirði – Gæsluvarðhald og nálgunarbann eftir umfjöllun fjölmiðils
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás
EyjanFastir pennar
12.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
05.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hápunktur sjúklingsferilsins

Óttar Guðmundsson skrifar: Hápunktur sjúklingsferilsins
EyjanFastir pennar
04.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!