fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Eyjan

Fyrrverandi seðlabankastjóri Sviþjóðar: Tökum upp evru – sænska krónan má sín lítils og þjónar ekki hagkerfinu

Ólafur Arnarson
Laugardaginn 9. mars 2024 15:00

Stefan Ingves var seðlabankastjóri Svíþjóðar í 17 ár, 2006-2022. Mynd/Getty Images)

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svíar eiga að taka upp evru og afleggja sína eigin krónu vegna þess að hún er sem gjaldmiðill of smá til að þjóna sænskum hagsmunum. Þetta segir Stefan Ingves, varaformaður Alþjóðagreiðslubankans (BIS) í Sviss. Ingves var seðlabankastjóri Svíþjóðar í 17 ár, frá 2006 til ársloka 2022.

Í ítarlegu viðtali við Svenska Dagbladet lætur Ingves í ljós þá skoðun sína að raunar hafi það verið mistök af hálfu Svía að vera ekki með í evrunni allt frá byrjun.

„Ef maður er lítið, opið hagkerfi í nábýli við stóran fíl (evrusvæðið) sem stýrir stóru viðskiptakerfunum mælir allt með því að gerast aðili að evrunni. Ef þú ert ekki með evruna ertu í rauninni ekki nema hálfgildings meðlimur ESB,“ segir Stefan Ingves

Hann segir það „ótrúlega skrítið“ og „þrjóskt“ að halda í krónuna og segir það stjórnast af pólitískri óskhyggju en sé ekki efnahagslega sjálfbært.

Hann telur að Svíar verði að endurskoða ákvörðunina rá 2003  þegar 55 prósent þjóðarinnar greiddu atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu gegn því að taka upp evru. Hann rifjar upp að lykilþáttur í andstöðu Svía við evruna var að fólk vildi hafa mynd af sænska kónginum á peningaseðlum.

Ólíkt Dönum fylgja Svíar ekki fastgengisstefnu gagnvart evru, sem þýðir að gengi sænsku krónunnar ræðst á markaði og Seðlabanki Svíþjóðar rekur peningastefnu sína út frá verðbólguviðmiðum

Fleiri þættir en staða sænska hagkerfisins og gjaldeyrismarkaðir hafa hins vegar áhrif á gengi sænsku krónunnar. Á síðasta ári birti sænski seðlabankinn niðurstöður rannsóknar sem gáfu til kynna að gengi krónunnar væri allt of lágt og í síðasta mánuði viðurkenndi Per Janson, varaseðlabankastjóri, að áhættusækni á alþjóðlegum fjármálamörkuðum ráði miklu um gengi sænsku krónunnar.

Á mannamáli þýðir þetta að eftir því sem fjárfestar eru varkárari því meiri hætta er á að gengi sænsku krónunnar veikist, burtséð frá stöðu sænska hagkerfisins.

Allt frá 1992, þegar Danir tóku upp fastgengisstefnu við evru með fulltingi Evrópska seðlabankans, hefur gengi sænsku krónunnar verið lægra en þeirrar dönsku, en fram að því hafði það verið öfugt. Er nú svo komið að einungis fást 66 danskir aurar fyrir eina sænska krónu.

Þetta er ein ástæða þess að Ingves telur að kominn sé tími til að Svíar átti sig á orsakasamhenginu og taki upp evru.

Á síðasta ári var viðtal í Berlingske Tidende viðtal við einn stærsta einkafjárfesti Svíþjóðar, Christer Gardell sem er meðstofnandi og forstjóri fjárfestingarsjóðsins Cevian, sem stýrir sjóðum með um 140 milljörðum sænskra króna.

Hann sagði krónurnar í Danmörku, Noregi og Svíþjóð vera „litla skítagjaldmiðla“ og engin vafi léki á því að Svíar ættu að taka upp evru.

Gardell telur dönsku krónuna munu lenda í sömu hremmingum og sú sænska verði fallið frá fastgengisstefnuna við evru, sem einhverjir í Danmörku vilja nú.

Ástæðan sé sú að erlendir fjárfestar líta ekki til hagstjórnar eða hagvísa landanna við mat á verðmæti gjaldmiðilsins.

Hann segir að vegna smæðar krónunnar hafi enginn áhuga á að eiga hana

Erlendir fjárfestar líti á gjaldmiðla Norðurlandanna sem einn gjaldmiðil. Gjaldmiðill sem þeir telja lítinn og ómikilvægan og vilja ekki taka áhættuna á. „Við erum með 350 stóra, alþjóðlega fjárfesta í Cevian, þar á meðal nokkra af fremstu fjárfestum í heiminum. Það er enginn lyst á að taka áhættuna af sænskum eða norskum krónum.“

Á sama tíma og fyrrverandi seðlabankastjóri Svíþjóðar til 17 ára er kominn að þeirri niðurstöðu að sænska krónan sé svo smár og lítilfjörlegur gjaldmiðill að hann beinlínis skaði sænska hagkerfið og sænska hagsmuni eru flestir helstu stjórnmálaflokkar Íslands á þeirri bjargföstu skoðun að engin rök séu með því að við Íslendingar skoðum inngöngu í ESB og upptöku evru. Erum við þó rétt um 400 þúsund talsins en Svíar um 10,5 milljónir, eða 26 sinnum fleiri.

Ríkisstjórnarflokkarnir virðast beinlínis fylgja þeirri stefnu að halda verði Íslandi utan ESB og evrunni frá íslenska hagkerfinu. Samfylkingin, sem löngum var með skýra stefnu um inngöngu í ESB og upptöku evru, hefur nú sett þá stefnu ofan í skúffu og eftir stendur að Viðreisn, einn flokka, berst fyrir inngöngu í ESB og því að við Íslendingar tökum upp evru.

Ef sænska krónan er of smá hvað má þá segja um þá íslensku? Og hvað má segja um þá stjórnmálamenn sem telja krónuna hina einu sönnu lausn fyrir okkur eyjaskeggjana?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra