Orðið á götunni er að Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks Fólksins, hafi hitt á að flytja á Alþingi lélegasta brandara seinni tíma þegar hann spurði Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formann 4,7 prósent flokksins VG, hvort hún hygðist bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Þingheimur hló – og einnig Katrín þótt henni sé vart hlátur í hug þessa dagana.
Guðmundur Ingi er alvörugefinn maður sem hefur barist af einlægni fyrir hag þeirra verr settu í þjóðfélaginu, bæði utan þings og innan. Það er virðingarvert hjá honum. Hins vegar hefur þess ekki orðið vart að hann sé húmoristi eða gleðigjafi af neinu tagi. Þess vegna rak þingheim í rogastans í gær þegar hann fór í ræðustól til að spyrja Katrínu Jakobsdóttur um starfsáform sín og nefndi forsetaembættið. Ekki er skrítið þó að þingmenn rækju upp hrossahlátur.
Nýjustu Gallup-kannanir kalla ekki beinlínis á að formaður Vinstri grænna þurfi að íhuga stærra embætti en það sem hún gegnir enn þá, rúin fylgi og trausti. Fylgiskönnun Gallups sýndi í fyrsta skipti, í lok síðustu viku, að flokkur Katrínar væri kominn niður fyrir það lágmarksfylgi sem þarf til að fá fulltrúa kjörna á Alþingi. Vinstri græn mældust þá með 4,7 prósent fylgi en 5 prósent þarf að lágmarki til að ná sæti á þingi.
Vinstri græn hófu núverandi óheillasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn með 17 prósenta fylgi. Í síðustu kosningum fór flokkurinn niður í 12 prósent og nýjustu mælingar sýna 4,7 prósent stuðning sem dugar ekki til að koma fólki inn á þing. Forsætisráðherra myndi falla í kosningu ef niðurstaða yrði í samræmi við könnun Gallups. Hér er um að ræða merkilega þróun enda hefur það aldrei gerst í sögu lýðveldis á Íslandi að forsætisráðherra hafi stýrt flokki sínum í þrot af þessu tagi. Rétt er þó að hafa í huga að skoðanakönnun, þótt margendurtekin sé, er ekki það sama og sjálfar kosningarnar sem eru það eina sem gildir.
Formaður í flokki sem er í andarslitrunum á ekkert erindi í framboð til forseta lýðveldisins. Það blasir við.
Orðið á götunni er að Guðmundur Ingi Kristinsson hafi komið öllum á óvart sem lúmskur húmoristi með því að brydda upp á þessu strax eftir að Vinstri græn mældust út af Alþingi samkvæmt nýjustu Gallup-könnun.