Sigríður Hrund Pétursdóttir fyrrverandi formaður Félags kvenna í atvinnulífinu og frambjóðandi til embættis forseta Íslands er nýjasti gestur Frosta Logasonar í þættinum Spjallið, á efnisveitunni Brotkast. Í þættinum segir Sigríður frá sjálfri sér og framboði sínu. Í kynningarstiklu fyrir þáttinn sem er öllum aðgengileg á Youtube segir Sigríður meðal annars frá því að hún telji 80 ára afmæli lýðveldisins 17. júní næstkomandi gott tilefni til að endurskoða ýmislegt á Íslandi, meðal annars stjórnarskránna.
Hún segist aðspurð ætla, verði hún kjörin, að nýta vald forsetans samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar til að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu, kæmu slíkar aðstæður upp:
„Klárlega.“
Sigríður Hrund bætir því við að Íslendingar skuldi sjálfum sér nýja stjórnarskrá og mikilvægt sé að klára hana.
Hún segir einnig að á tímum rafrænna lausna ætti að vera hægt um vik að ræða það hvað þurfi margar undirskriftir til að forseti Íslands „taki í handbremsuna“ og vísi málum til þjóðarinnar:
„Þá myndi ég spyrja þjóðina. Ég myndi ekki spyrja Alþingi. Alþingi er bara 63 manneskjur.“
Sigríður Hrund segist vilja að litið verði til tillagna Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá og eins og í rekstri fyrirtækis verði alltaf reglulega að endurskoða hvernig Íslandi er stjórnað og hvaða stefnu þjóðfélagið skal taka:
„Lýðveldið er 80 ára gamalt,“ bætir hún við og telur endurskoðun því tímabæra.
Sigríður Hrund segir það þó ekki útilokað að endurskoða núgildandi stjórnarskrá fremur en að skipta henni út fyrir nýja.
Frosti spyr Sigríði Hrund einnig í stiklunni hvort hún styðji aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hún segir að verði hún forseti Íslands þá muni hennar persónulega álit á því ekki skipta neinu máli.
Sigríður Hrund segir aðspurð að sá gjaldmiðill sem Ísland noti sé bara hluti af þeim þáttum sem hafi áhrif á efnahagslífið en játar því að líklega væri rekstur fyrirtækis hennar, Vinnupallar, auðveldari með stöðugri gjaldmiðli. Sérstaklega myndi vaxtakostnaður minnka, segir hún. Hún tekur undir með Frosta að ein helsta byrðin sem hvílir á íslensku efnahagslífi sé vaxtakostnaður.
Í lok stiklunnar spyr Frosti Sigríði Hrund hvort hún styðji veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Ekki er að heyra annað á máli Sigríðar en að svo sé:
„Mér þykir mjög vænt um að við séum varin. Ég myndi ekki vilja hafa það öðruvísi,“ segir Sigríður Hrund að lokum.“