fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Að spara sig í hel

Eyjan
Föstudaginn 22. mars 2024 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ef þú situr við lestur þessa pistils þá er öruggt að einhver, ekki bara setti saman sætið þitt, heldur var þar líka einhver sem lagði hugsun og vinnu í að hanna húsgagn svo þú þurfir ekki að liggja á víðavangi eða standa uppréttur daginn langan. Ef þú horfir nú í kringum þig þá er bókstaflega allt í okkar umhverfi búið til vegna hugvits og listfengis fólks. Listin umlykur alla okkar tilveru og þó við höfum á henni fagurfræðilega skoðun væru án hennar samfélög einfaldlega ekki til.

Engar byggingar, engir hurðarhúnar, engin farartæki, enginn fatnaður, engir dýrðarréttir, svo eitthvað sé nefnt. Við værum allsber að slást við hrafna og refi um næsta málsverð.

Á dögunum lögðu þingmennirnir Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Diljá Mist Einarsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Njáll Trausti Friðbertsson fram frumvarp til laga um breytingar á myndlistarlögum. Þar þykjast þingmenn hafa fundið útgjaldalið sem ekki sé réttlætanlegur samkvæmt því sem þau telja hagkvæma opinbera fjárstjórn og vegna ákvæðis laganna um skyldu ríkis til listaverkakaupa sé ríkið vegna þessa ,,nauðbeygt“ til að velja ,,óhagkvæmasta fjárfestingakostinn“ sem augljóslega, að þeirra mati, er að kaupa listaverk.

Í stuttu máli kveða myndlistarlögin á um það að opinberar byggingar og umhverfi þeirra eigi að skreyta með listaverkum af ýmsum toga og við opinberar nýbyggingar sé ríkinu skylt að verja 1%, ég endurtek, einu prósenti, af heildarbyggingarkostnaði til listaverkakaupa.

Eitthvað svíður þingmönnunum fimm þessi útgjöld og auðvitað erum við sammála um aðhald og skynsemi í ríkisfjármálum. Kannski liggur fimmmenningunum lífið á að klóra yfir afglöp og óráðsíu leiðtoga síns í téðum ríkisfjármálum sem leiddi að lokum til afsagnar hans.

Röksemdafærsla fimmmenningana er raunaleg og ber vitni um furðu snauðan huga og takmarkaðan skilning á tilveru fólks. Dæmin sem þau tiltaka máli sínu til stuðnings eru nefnilega afleit. Ég finn verulega til með þeim, en þau eru væntanlega bara að ruglast svolítið, eins og sagt er þegar einhver sullar niður í Hjallastefnunni.

Fimm á Fagurey setja í fyrsta lagi stórt spurningarmerki við listaverkakostnað í nýjum Landspítala. Áætlaður heildarbyggingarkostnaður nú, sem eins og við vitum, fór hressilega fram úr áætlun, sem líklega var hrákasmíð frá upphafi, reiknast nú 210 milljarðar. Það er í reynd og miðað við nágrannaþjóðir okkar ofur eðlilegur kostnaður við verkefni af þessari stærðargráðu: ,,Þjóðarsjúkrahús“ sem tekur til allra fyrirhugaðra nýbygginga, tækjakaupa og endurbóta í íslenska heilbrigðiskerfinu.

Samt halda fimmmenningarnir því fram í frumvarpsdrögum sínum að ríkinu sé á grundvelli myndlistarlaganna ógurlegu skylt að kaupa listaverk fyrir rétt ríflega 2 milljarða vegna nýja Landspítalans.  Og þessu eigum við að súpa hveljur yfir og kyngja ósöltuðu þótt ósatt sé.  Þingmennirnir segja enn fremur að ekki sé hægt að réttlæta slík fjárútlát til listaverkakaupa, eða eins og þau orða það í frumvarpi sínu „fyrir eina byggingu.“ Og fljúga þar á hausinn á eigin svellbunka.

Þessi ,,eina bygging“ er ekki kofaskrifli heldur væntanlegt hátækni þjóðarsjúkrahús landsins og er bara hluti af tilteknum heildarkostnaði. Bygging sem landsmenn hafa beðið eftir með óþreyju, svo ekki sé minnst á starfsfólk sem dvelur þar, eins og ástatt er í heilbrigðismálum, myrkranna á milli.

Þetta eina prósent sem lögin tryggja til listaverkakaupa er ekki bara út í loftið, því nær má geta að málningarkostnaður innandyra, húsgagnakaup, hurðir og hurðarhúnar lendi í svipuðum kostnaðarflokki. Þingmennirnir sjá vonandi ekki ofsjónum yfir því að byggingarnar verði málaðar og innréttaðar?

Ég nánast bjó um tveggja ára skeið á Landspítalanum í veikindum eiginmanns míns heitins og ósennilegt er að ég væri gangfær eða skrifandi, ef ekki hefði verið fyrir hundljótan, slitinn en þægilegan Lazy-boy sem einhver hafði gefið spítalanum og þau listaverk sem spítalann prýða. Ég verð líka að nefna ríkulega myndskreyttan undirganginn sem liggur að Barnaspítalanum sem var leiksvæði barnanna minna á óbærilegum stundum. En skítt með okkur!  Hvað með alla þá sem þurfa að dvelja á spítölum langdvölum vegna veikinda? Er þeim hollast að stara rúmfastir á gráa veggi og ráfa um eyðilega rangala þegar þeir fá loks fótaferð?

Slíkt umhverfi er auðvitað engum til heilsubótar og grætilegt að þingmenn skilji ekki mikilvægi þess að sjúkrastofnanir séu vistlegar og fallegar og beri lífsandanum fagurt vitni.

Einnig álykta þingmennirnir í þessu dapurlega frumvarpi, að ekki sé jafn mikil þörf á listaverkum í byggingum sem eru ,,þess eðlis að almenningi er þar bannaður aðgangur, svo sem fangelsi eða varnarmannvirki.“ Það er sumsé ekki nóg að fólk sé frelsissvipt ef það hlýtur dóma, heldur vilja þingmennirnir refsa frekar frelsissviptum manneskjum með því að neita þeim um fegurð og innblástur listamanna í umhverfi sínu. Afstaða þingmannanna fimm byggist á óásættanlegri fyrirlitningu á manneskjum sem hafa af einhverjum orsökum gerst sekar um glæp og taka út sína refsingu lögum samkvæmt.

Gaman væri að vita hvort ríkið hefur hingað til staðið við þessar skuldbindingar, þær sem bundnar eru í myndlistarlög? Mér er sagt að eitt málverk eftir Tolla hangi uppi í anddyrinu á Hólmsheiðinni sem hann hafi fært fangelsinu að gjöf, en annars sé enn fátt um fína drætti á veggjum þar. Kannski skuldar ríkið myndlistarfólki og þjóðinni allri að standa við skuldbindingar sínar hvað myndlistarlög snertir? Að auðga líf og anda allra sem í opinberar byggingar koma með fjölbreyttri myndlist. Standa þannig vörð um að listamenn og list þeirra á hverjum tíma fái þann sýnileika sem nauðsynlegur er til að tryggja okkar menningararf og menningarsögu að einhverju algjöru lágmarki.

Afhjúpun á menningarlegu ólæsi kristallast samt í áliti þeirra sem er á þá vegu að gæði listaverka ,,byggi eingöngu á huglægu mati og fagurfræðilegt mat sé alltaf háð persónulegri skoðun hvers og eins og því sé ómögulegt að slá því föstu að tiltekið listaverk sé betra eða fegurra en önnur.“

Já, hér má dæsa.

Hvaða litir verða valdir á veggi spítalans innandyra er líka huglægt mat. Einhver þarf að velja litinn, ekki satt og þar mun huglægt mat viðkomandi ráða för. Húsgögn þau sem valin verða munu líka byggjast á huglægu mati. Einhver eða einhverjir með kunnáttu, vit og getu munu sjá um það og það verður eftir þeirra smekk og því að sjálfsögðu huglægt mat viðkomandi. Sjúklingar og starfsfólk koma ekki bara með, sessur, rúm og sæti úr geymslunum heima hjá sér og sletta afgangsmálningu á veggina.

Frumvarp þessara þingmanna byggist á þeirra huglæga mati að myndlist sé ónauðsynleg. Það er af þessu að dæma líka þeirra huglæga mat að listir og menning séu ekki ýkja merkileg í lífi fólks. Þar skjöplast þeim hrapallega.

Íslenska þjóðin er ekki skyni skroppin, hún kann að meta listir, um það vitnar blómlegt menningarlíf á Íslandi. Við erum hreykin af okkar afreksfólki sem flest er á sviði listgreinanna og okkur þykir í reynd reglulega vænt um okkar listafólk.

Það kann að vera að huglægt mat fimmmenninganna að list Picasso sé drasl, en um það eru margir, byggt á huglægu mati, þeim öldungis ósammála.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Egill Þór er látinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn