fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Við gætum haft það miklu betra

Eyjan
Mánudaginn 18. mars 2024 08:00

Ole Anton Bieltvedt

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Undirritaður býr yfir nokkurri þekkingu og reynslu á sviði viðskipta- og efnahagsmála, en hann hefur stundað alþjóðlega framleiðslu og viðskipti, bæði í Evrópu og Asíu, í 50 ár. Hann er stjórnarformaður alþjóðlegs framleiðslufyrirtækis í Hamborg, Þýzkalandi, ENOX.

Við lágt verðlag og hófstilltan kostnað á þjónustu, komast menn auðvitað af með lægri laun, sem aftur skerpir samkeppnishæfni fyrirtækja, ekki sízt iðnaðar- og framleiðslufyrirtækja, en líka allra hinna, og bætir stöðu þeirra, sem keppa á alþjóðlegum markaði.

Þegar litast er um á íslenzkum markaði, blasir hins vegar við að samkeppni er hér víða takmörkuð. Á flestum sviðum mætti fremur tala um fákeppni en samkeppni.

Ástæðan er sú að þrátt fyrir þá staðreynd að við erum aðilar að fjórfrelsi ESB, í gegnum EES-samninginn, hafa nánast engir þeirra aðila, sem varning og þjónustu bjóða af hinum þjóðunum 30 sem eru á Evrópska efnahagssvæðinu, áhuga á viðskiptum hér.

Við sitjum því mikið uppi með innlenda aðila sem sinna hér verzlun og þjónustu, en njótum ekki þess gífurlega úrvals varnings og þjónustu og þeirrar hörðu samkeppni, sem við hefðum ef Ísland væri áhugaverður markaður fyrir hin EES-löndin 30.

Flest verzlunarfyrirtæki hér byggja sín innkaup á gömlu og löngu úreltu heildsölukerfi, þar sem milliliðir eru margir, varningur margfluttur til og frá, inn og út úr vöruhúsum, milli staða og landa, í stað þess, að hann sé keyptur inn beint frá „uppsprettunni“, oftast verksmiðju í Asíu, og fluttur inn beint og milliliðalaust til Íslands. 

Þannig mætti lækka verðlagið á ýmsum varningi hér um helming, ef innflutnnings- og verzlunarfyrirtæki landsins hefðu vilja og metnað til. 

En, það þrýstir fátt eða ekkert á, allir eru meira og minna í sama úrelta kerfinu, og því láta verzlunarfyrirtæki hér, líka þau stærri, slag standa og halda áfram í forföllnu heildsölukerfinu. Þetta er einfaldara og þægilegra fyrir verzlunina, þrátt fyrir gæðaleysið, og gengur fyrir sig; neytendurnir eiga ekkert val, verða bara að kaupa sína vöru, þó á tvöföldu verði sé.

Auðvitað mætti velta fyrir sér, hvernig stjórnendur verzlunarfyrirtækja hér líta á sína samfélagslegu ábyrgð. Er hún kannske aukaatriði; engin!?

Allir hafa séð hver áhrif til góðs það hafði, þegar erlent fyrirtæki, reyndar utan EES, kom hér inn á markaðinn; Costco. Það er engin spurning að tilkoma Costco setti innlenda smásöluverzlun, líka benzínsölu, undir verðþrýsting, sem margir neytendur nutu góðs af.

Áhrifin eru þó takmörkuð, af því Costco á ekki í neinni raunverulegri samkeppni við „jafningja“ hér, eins og t.a.m. Aldi, Lidl eða aðrar evrópskar verzlanakeðjur, sem byggja á og bjóða lágmarksverð. Oft er það helmingurinn af íslenzku verðlagi, eða enn lægra en það.

En, af hverju koma nánast engin önnur verzlunar- og þjónustufyrirtæki hér inn!? Skýring er ekki langsótt. Íslenzka krónan er ástæðan. Það hefur vart nokkuð erlent fyrirtæki áhuga á að fjárfesta og stofna hér til reksturs, meðan að krónan er okkar gjaldmiðill. 

Þetta er gjaldmiðill, sem hvergi gildir og ekkert verðgildi hefur, nema hér á Íslandi. Erlendis hafa okkar blessuðu krónuseðlar, í þeim skilningi, ekki einu sinni verðgildi þess pappírs, sem menn nota mest á óæðri endann.

Mér verður líka hugsað til íslenzka bankakerfisins. Hér eru að nafninu til þrír meginbankar, Íslandsbanki, Landsbanki og Arionbanki, en þegar betur er að gáð er munurinn á þeim lítill sem enginn og verður ekki séð að samkeppnin sé nokkur, hvað þá mikil.

Rekstursyfirbragð allra bankanna þriggja er mjög áþekkt og þjónustuframboð meira eða minna það sama. Í þeim skilningi færi eiginlega bezt á því að sameina þá í einn banka, þar sem mikla fjármuni mætti þá spara í yfirstjórn og öðru.

Þessi fákeppnis bankaþjónusta kostar greinilega líka meira en bankaþjónusta annars staðar á EES-svæðinu, ef dæmt er út frá vaxtamismun og öðrum kostnaði sem almenningur og fyrirtæki landsins verða að bera.

Önnur ill og alvarleg afleiðing þess, að við notum íslenzku krónuna sem gjaldmiðil okkar, er svo auðvitað sú að vextir eru hér að jafnaði tvisvar til þrisvar sinnum hærri en í evru-löndum. 4-5% hærri. Það keyrir auðvitað líka upp þörfina á hærri launum – flest þurfum við einhvern tíma á lánsfé að halda – og þar með allt verðlag og rýrir samkeppnishæfni.

Hvenær skyldi okkur bera gæfa til – kannske værri réttara að segja, hvenær skyldum við hafa skilning og vitsmuni til – að fá hér evru og blómstrandi samkeppni í verzlun og þjónustu og lágmarksvexti, öllum til ómetanlegs ávinnings og góðs!?

Leiðin að evru er í gegnum fulla ESB-aðild – við erum nú þegar um 80% þar – en öll önnur smáríki Evrópu, nú 15 talsins, Eistland, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Írland, Slóvenía, Króatía, Kýpur, Malta og svo Kósóvó, Svartfjallaland, San Marínó, Andorra, Mónakó og Vatíkanið, eru nú öll þar.

Skildum við vera þrárri, tregari eða heimskari en aðrar smáþjóðir Evrópu!? Kolföst í gömlu fari!? Já, það virðist því miður svo vera. Vonandi ber næsta kynslóð gæfu til að skilja það og vinna úr því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK