Bitcoin hefur hækkað mikið frá áramótum, úr 41.500 dollurum í um 70 þúsund dollara, mikið til vegna þess að stórir sjóðir á Wall Street eru farnir að fjárfesta af krafti í rafmyntinni. Stofnanafjárfestar virðast hafa tekið bitcoin í sátt, en löngum hefur verið notað sem rök gegn fjárfestingum í myntinni að á bak við hana standi engin áþreifanleg verðmæti.Kjartan Ragnars, regluvörður Myntkaupa, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni. Hann segir fjárfesta í auknum mæli líta á bitcoin sem betrumbætt rafrænt gull, auk þess sem spyrja megi hvað standi í raun á bak við hefðbundna gjaldmiðla á borð við dollar, krónu og evru.
Það sem skýrir þær gríðarlegu hækkanir sem orðið hafa á bitcoin frá áramótum, en um áramótin stóð bitcoin í u.þ.b. 41.500 Bandaríkjadölum, eru miklar fjárfestingar stórra stofnanafjárfesta. Sjóðir á borð við BlackRock, Fidelity og fleiri sjóði á Wall Street, stórir og smáir, hafa komið af krafti inn í bitcoin frá áramótum. Bitcoin er nún í u.þ.b. 70 þúsund Bandaríkjadölum.
„Þeir eru að kaupa upp gríðarlegt magn. Greiningaraðilar voru að tala um að fimm til tíu, jafnvel tuttugu milljarðar myndu flæða inn árið 2024 frá þessum sjóðum en á einhverjum örfáum vikum, hvort það voru tvær eða þrjár vikur, þá voru þeir komnir yfir tíu milljarða,“ segir Kjartan.
Kjartan segir vogunarsjóði hafa verið lengi inni í bicoin, komu inn mjög snemma, og innstreymið á þessu ári sé ekki frá þeim komið, heldur sjóðum sem stýra fjármunum annarra stofnanafjárfesta og einstaklinga.
„Ég held að það megi alveg fullyrða það að þessir sjóðir, þeir eru ekki að kaupa bitcoin á þeim forsendum að hér sé gjaldmiðill sem þeir haldi á. Mögulega útiloka þeir ekki þá framtíðarsýn eftir einhverja áratugi en þeir eru að kaupa þetta undir þeim formerkjum að hér sé stafrænt og betrumbætt gull. Þeir eru búnir að vera það lengi í fjárfestingum að þeir skilja gull og að gull, ef við tökum svona síðustu 15 ár út fyrir sviga, þá hefur gull verið góð fjárfesting. Únsan var 35 dollarar þegar gullfóturinn var afnuminn, 1971, svo nær hún í 2.000 dollara árið 2010 og hefur ekki gert neitt síðan,“ segir Kjartan.
Hann bendir hins vegar á að í sögulegu samhengi hafi gull verið mjög góð fjárfesting, að undanskildum þessum 15 árum.
En þegar þú skoðar bitcoin sem eignaflokk þá ertu að vega það á móti skuldabréfum, hrávöru og hlutabréfum og slíku. Á bak við hina eignaflokkana er eitthvað áþreifanlegt. Á bak við hlutabréfin er fyrirtæki í rekstri sem skilar tekjustreymi og skilar, væntanlega, arði. Á bak við skuldabréf er einhver skuldari sem er búinn að taka á sig þá skuldbindingu að borga þetta bréf, annaðhvort með jöfnum afborgunum eða með einni afborgun í lokin og vaxtagreiðslum yfir lánstímann. Í bitcoin er enginn sem búinn er að skuldbinda sig til að borga svo mikið sem túskilding með gati fyrir bitcoin. Þú ert í raun og veru bara með svona stafræn merki, einn og núll.
„Hárrétt. Þessi samanburður á einmitt mjög vel við þegar þú nefnir hlutabréfin. Þar eru raunveruleg verðmæti að baki, það eru fyrirtæki. Ef við stöldrum aðeins við skuldabréfin þá er einhver skuldari að baki sem er búinn að binda sig til að greiða þá skuld með einhverjum hætti og jafnvel tryggingar. Yfirleitt er samt endastöðin sú að þú ert að fá þennan gjaldmiðil, hvort sem það er dollari, evra eða króna, sem er þá einhvers konar tóken, eða merki, sem þeir eru allir, og nú eru bara fleiri og fleiri, og fleiri, einhvern veginn að opna augun og sjá, bíddu við vorum að tala um að það væri ekkert á bak við bitcoin. Hvað er á bak við dollarann? Hvað er á bak við krónuna? Hvað er á bak við evruna?“