Öfgaöflunum í Ísrael er að takast æðsta ætlunarverk sitt; að hrekja alla Palestínumenn frá heimkynnum sínum. Fyrir fullt og allt. En að því var raunar ætíð stefnt. Sagan er sönnun þess.
Og grimmdin auðvitað líka. Því engir ráðamenn í heimi hér hafa oftar unnið hryðjuverk á einni og sömu þjóðinni og vopnum hlaðinn Ísraelsher á svo til varnarlausum Aröbum.
Höfum það alveg á hreinu.
Allar götur frá því um miðjan febrúar 1948 hafa hópar síonista ráðist á hvert þorp Palestínumanna af öðru og rekið íbúana á flótta. Bretar, sem þá höfðu náð yfirráðum yfir löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs eftir fyrri heimsstyrjöld síðustu aldar, aðhöfðust ekkert. Og þar með var tónninn sleginn. Og sá sári sónn hefur ekki þagnað. Alþjóðlegu öxlunum er bara yppt.
Og gleymum því ekki að fram að þessum voðaverkum undir miðja síðustu öld höfðu íbúarnir í gömlu Palestínu, að mestum hluta íslamstrúar undir tyrkneskum yfirráðum, búið í sátt og samlyndi með minnihluta gyðinga og kristinna manna af ýmsum kirkjudeildum í blómlegri landbúnaðarbyggð fyrir botni Miðjarðarhafs. Þar fann enginn til meiri máttar en annar.
En allt breyttist eftir 1948. Því stefnan var að „moka út skítnum“ eins og það var látið heita af landræningjunum sem voru að komast til valda á staðnum, með velþóknun vestrænna ríkja beggja vegna Atlantsála sem eru sammála um að gestirnir í Palestínumenn séu hafnir yfir alþjóðalög.
Og það var endanlega slegið í gadda með einni undarlegustu samþykkt Sameinuðu þjóðanna um þetta leyti, í þá veru að 70 prósent þeirra sem fyrir voru, fengju minnihluta landsins, en 30 prósent meirihlutann. Yfirburðastaðan var þar með augljós. Og skotleyfið fengið. En upp frá því hafa Ísraelskir ráðamenn ekki þurft að hafa nokkrar áhyggjur af því þótt þeir vaði yfir byggðir Palestínumanna á skítugum skónum og reki þá á flótta og ræni af þeim landinu. Þeir eiga það og mega það. Enda hafa yfirráð Ísraelsmanna verið algjör í allan þennan tíma – og það á öllum sviðum, jafnt hernaðarlega, efnahagslega og pólitískt, svo greiðan stuðning sem þeir eiga vísan á Vesturlöndum.
Genfarsáttmáli og Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna skipta þar engu máli.
„Þeir sem læra ekki af sögunni eru dæmdir til að endurtaka hana.“
Ehud Olmert, fyrrverandi forsætisráðherra, sem hefur fordæmt þjóðarmorðið og útrýmingu almennings á Gasa á síðustu mánuðum, segir yfirstandandi hernað vera í samræmi við fasíska fyrirætlan öfgaaflanna í landinu, sem að jafnaði hafi haldið þar um valdataumana. Þeirri stefnu hafi ávallt verið fylgt, allt frá valdatíma David Ben-Gurion og síðar Goldu Meir, að nota sérhvert andóf Palestínumanna gegn yfirgangi Ísraela, til að komast yfir meira land, með morðum og eyðileggingu.
Og þessa sér nú ekki bara stað á Gasa, heldur er landi rænt á Vesturbakkanum sem aldrei fyrr, á meðan allra augu eru við ströndina. Og sú „gegndarlausa útþensla landránsbyggða Ísraela á herteknum svæðum Palestínu er stríðsglæpur,“ segir Volker Turk, Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, en aðrir áhrifamenn í musteri sömu samtaka, hafa ekki átt til orð yfir morðæðið.
En þau orð breyta heldur engu. Og það er vegna þess að tími öfgaaflanna er aftur runninn upp. Þeir sem læra ekki af sögunni eru dæmdir til að endurtaka hana. Og það átakanlega í því öllu saman er að þroskaðar lýðræðisþjóðir, sem telja sig mega heita svo, aðhafast enn ekki neitt. Og einmitt það er skýru skilaboð okkar tíma: Fasískar áherslur geta farið sínu fram. Svo veik er viðspyrnan orðin.