Tekið er að hitna verulega undir líklegum forsetaframbjóðendum. Sumum meira en öðrum. Þannig sagði Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor í vikunni að hann lægi undir feldi. Honum hlýtur að hafa verið orðið verulega kalt, því þar liggur hinn lærði enn. Stuðningsmenn Baldurs stofnuðu hópinn „Baldur og Felix – alla leið“ utan um stuðningsmenn Baldurs á Facebook og ekki leið á löngu þar til um 7 prósent kosningabærra Íslendinga voru komnir þangað inn. Sumir til að sýna stuðning, aðrir til að fylgjast með, örfáir til að vera með leiðindi og að minnsta kosti einn sem hélt að honum væri boðið í júróvisjónpartíi með Felix.
Halla Tómasdóttir kom sér jafnframt á framfæri í útvarpsþáttum síðustu helgar þar sem hún sagðist vera „alvarlega“ að hugsa sinn gang. Halla bauð sig fram síðast og mældist fylgi hennar sama sem ekki neitt alveg þar til hún varð næstum því forseti. Gárungar og brandarakarlar veraldarvefsins hafa síðan kallað það að toppa á röngum tíma „að Halla sér.“ Telja má þó næsta víst að Halla tilkynni fljótlega um framboð sitt.
Jón Gnarr útilokaði ekki framboð, en hefur lítið gert til að minna á sig. Jón er þó ólíkindatól og er það til marks um slagkraft Jóns að þrátt fyrir litlar tilraunir til þess að vekja athygli á sér er hann hvergi vanmetinn. Þá er Ólafur Jóhann gjarnan nefndur til nafns. Ólafur hefur ekki búið á Íslandi í 40 ár en hann er mikill tæknimaður svo hann ætti að rata frá Leifsstöð og á næsta kjörstað með aðstoð Google Maps. Loks mætti nefna tilraunir Salvarar Nordal til að vekja athygli á sér en hvort að þær tilraunir hafi fangað athygli þjóðarinnar skal ósagt látið.
Um helgina gerðist það svo að gamlar kjaftasögur um áætlanir Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra gengu aftur, og þá af mun meiri krafti en áður. Ljóst er að Katrín yrði sterkur kandídat en segja má forsetaskosningar koma á erfiðum tíma fyrir hana. Ríkisstjórnin springur að öllum líkindum í loft upp ef hún tilkynnir um framboð og flokkur hennar, VG, er í sögulegri lægð og mælist ekki inni á þingi.
Það sem margir telja til marks um að Katrín sé að reima á sig hlaupaskóna fyrir sprettinn úr stjórnarráðshúsinu út á Álftanes er sú staðreynd að hún hefur beitt sér af krafti bak við tjöldin að greiða fyrir aðkomu ríkisins að kjarasamningum hinna vinnandi stétta. Í vikunni sögðu fjölmiðlar frá því að kostnaður sem fellur á ríkissjóð vegna aðkomu hins opinbera að kjarasamningum yrði 80 milljarðar, eða um 20 milljörðum meira en kostar að kaupa öll íbúðarhús í Grindavík.
Orðið á götunni er að innanbúðarfólki í Sjálfstæðisflokki og Framsókn hafi brugðið við að sjá þennan mikla kostnað lenda á skattgreiðendum. Eru margir á því að Katrín hafi gengið til samninga með kreditkort ríkissjóðs í vasanum með það að markmiði að greiða leið sína til Bessastaða.
Ef rétt reynist yrði hið minnsta eitt met slegið í komandi kosningavertíð, forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur yrði þannig dýrasta forsetaframboð sögunnar í Evrópu og það áður en hún svo mikið sem lýsir yfir framboði.