fbpx
Laugardagur 28.desember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Kirkjan okkar, Ísland

Eyjan
Föstudaginn 1. mars 2024 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mörgum var misboðið sem sáu Kveik sem fjallaði um níðingslegt blóðmerahald á Íslandi. Stutt er síðan nærmyndir af afskræmdum og þjáðum löxum prýddu forsíðurnar. Mann sundlar yfir meðferðinni á skepnunum og af henni að dæma er fráleitt að halda því fram að við séum siðmenntuð þjóð. Að þrautpína dýr til að ávaxta pund sitt er bara með því siðlausasta sem hægt er að hugsa sér. Það fer ekki mikið fyrir siðviti í slíkri hugsun, reyndar bara hrein villimennska.

Nú er svo komið að örplastið er alls staðar og fannst nú samkvæmt fínerís rannsóknum í fylgjum allra kvenna sem næra fóstur í móðurkviði. Mannkyninu er sennilega ekki viðbjargandi. Við beinum eins og bjánar hlaupinu að okkur sjálfum.

Trúarbrögðin eru svo í höndum öfgamanna sem svífast einskis og túlka svo orðið að þeim leyfist með yfirgangi að deyða og beygja allt undir sinn vilja.

Það verður að teljast hrein heppni ef Trump verður ekki forseti öðru sinni og færir Bandaríkin aftur um áratugi. Hann ætlar sér meðal annars að leggja niður helstu stofnanir, skerða réttindi kvenna til yfirráða yfir líkama sínum og brjóta algjörlega á bak aftur réttindabaráttu minnihlutahópa og auðvitað í nafni kristninnar. Verkefni 25 eða Project 25, stefnuplan Trumps verði hann forseti, er svo fjarstæðukennd lesning að hún minnir helst á fáránlegan framtíðar trylli. Guðir heimsins myndu líklega sjálfir brenna bækur sem við þá eru kenndar, fengju þeir fregnir af því hvað mannkynið er orðið stjörnugalið.

Ég held að rétt væri að skammast aftur til fornra siða og reyna að endurræsa þessa veröld. Náttúrutrúin er kannski það sem mannkynið ætti að reyna að sameinast um og gefa skruddunum fínu hlé frá afbökun og mistúlkun með hræðilegum afleiðingum.

Frumbyggjaþjóðir sem við köllum í dag frumstæðar vissu sínu viti. Þær vissu til að mynda að jörðin þarf aðhlynningu þegar af henni er tekið og höguðu lífi sínu eftir því. Tilbáðu náttúruöflin, sólina og tunglið sem öllu lífríki stýra, og er það eitthvað fjarstæðukennt? Ég veit ekki betur en að við sem hér búum séum nú þegar á bæn um að hér bresti ekki á með hörmungatíð og sífelldum gosum? Er ekki landið okkar, okkar eina kirkja, sem við gætum sammælst um að elska og ættum að hlúa að í hvívetna? Ég legg til að við áköllum fossa, firði, fjöll, dali, vötn, lífríki og auðæfi þess lands. Slík tilbeiðsla getur í það minnsta engan skaðað. Slík ástundun og innræting gæti kennt okkur að bera virðingu fyrir heimkynnum okkar. Eitthvað þarf í það minnsta að koma til svo við lærum að fara vel með þetta fína land sem við vorum svo lánsöm að fæðast á. Lánsöm, segi ég, því við erum það. Lítið bara í kringum ykkur.

Mannkynið þarf að temja sér auðmýkt ætlum við að lifa af, því mannskepnan er bara einn örsmár hlekkur í lífríki jarðar. Jörðin er hægt og rólega að losa sig við þessa óværu sem framkoma mannkynsins er. Plastið sem við höfum hent mun að endingu fylla æðar mannsins. Það er ekkert hægt að vera í sambúð með verum sem taka bara og taka, kunna ekki að þakka fyrir sig og skilja eftir sig rusl og eyðileggingu hvert sem litið er. Valdasýki og drottnunargirni mannsins yfir öllu lífi á jörðinni verður því sennilega mannkyninu að falli.

Allir sem hafa umgengist skepnur vita að þær hafa bæði sál og vit. Nú hefur verið sýnt fram á að plönturíkið er ekki án vitundar. Plöntur sýna meðal annars vilja, kapp og bregðast við hættum með fjölbreyttum hætti. Sveppir þekja yfirborð jarðar, gæddir ótrúlegum hæfileikum og senda skilaboð um jarðarkringluna ekki ólíkt internetinu okkar sem er ódýr eftirlíking af yfirburða samskiptakerfi sveppanna.

Læknavísindin sem berjast gegn hrörnun mannslíkamans eiga ekki roð í nokkrar dýrategundir sem hafa fyrir löngu leyst gátuna um eilífleikann.

Við erum svo hrokafull að við höfum álitið að vitið sé einungis í heilanum og heilastærðin sanni yfirburði okkar. Plöntur hafa vit og eru heilalausar!

Hinar siðmenntuðu frumbyggjaþjóðir vissu að allt sem lifir á jörðinni þarf að koma fram við af virðingu eigi maðurinn að komast af. Frumbyggjaþjóðir skildu það sem nútímamaðurinn hefur rækilega gleymt að Homo Sapiens á tilveru sína algjörlega undir náttúrunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
27.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?