fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Uppreisn og samtal

Eyjan
Fimmtudaginn 8. febrúar 2024 06:00

Mynd frá degi landbúnaðarins 2023/Skjáskot YouTube t.v og mynd frá mótmælum bænda í Frakkland/Getty t.h.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mótmæli bænda í Frakklandi og víðar í Evrópu hafa verið svo hörð og umfangsmikil að nær væri að kalla þau uppreisn.

Þetta segir okkur þá sögu að öflugustu landbúnaðarþjóðirnar í hjarta Evrópu eiga líka við vanda að etja eins og norðurslóðabúskapur okkar.

Forysta Bændasamtaka Íslands hefur þó beitt hófsamari meðölum þótt vandi íslenskra bænda sé síst minni.

Tökum samtalið

Á liðnu hausti efndu Bændasamtökin til fundaherferðar um land allt undir yfirskriftinni: „Tökum samtalið.“

Þar kom fram að á þeim tíma vantaði tólf milljarða króna inn í hagkerfi landbúnaðarins til þess að hann stæði í járnum. Jafnframt voru birtar tölur, sem sýndu að kúabændur þyrftu að greiða 40 krónur í fjármagnskostnað af hverjum 132 krónum, sem þeir fá nú fyrir hvern lítra.

Það þarf ekki hagfræðing til að sjá að hér er við tröllaukinn vanda að etja.

Eitt svar og engin viðbrögð

Bændablaðið er nú mest lesna blað landsins. Nærri lætur að lesendur þess séu fimmtíu prósent fleiri en blaðsins, sem næst kemur. Athyglisvert er að lestur ungs fólks hefur aukist verulega.

Á þessum víðlesna vettvangi hef ég bara séð einn leiðtoga stjórnmálaflokks, formann Viðreisnar, taka kalli bændaforystunnar um samtalið. En viðbrögð bændaforystunnar eru engin.

Hún hefur hins vegar átt samtöl við ríkisstjórnina um endurnýjun búvörusamninga. Þeim lauk án viðbótarfjármagns úr ríkissjóði í samræmi við fimm ára fjármálaáætlun stjórnarflokkanna þriggja.

Segja má að stjórnmálaumræðan um landbúnaðinn snúist nær einvörðungu um bestu landbúnaðarafurðir í heimi, stórkostleg sóknarfæri og innflutningshöft. Minna fer fyrir mati á því hverju kerfið hefur skilað bændum, samkeppnisstöðu þeirra á fjármagnsmarkaði og aðrar leiðir en innflutningshöft.

Veggur

Á dögunum átti ég samtal við tvo sunnlenska bændur. Hvorugur þeirra setti fulla aðild að Evrópusambandinu efst á dagskrá. Hitt skildu þeir ekki hvers vegna þeir rækjust á vegg þegar þeir vildu opna umræðu um kosti þess og galla að taka upp annan gjaldmiðil.

Annar þessara bænda er skuldlaus og sagði búreksturinn ganga betur en nokkru sinni. Við vorum því sammála um að helsti vandinn lægi í ósamkeppnishæfum vöxtum.

Við vitum að öflugustu útflutningsfyrirtæki landsins yrðu ósamkeppnisfær ef þau yrðu þvinguð inn í sama vaxtaumhverfi og landbúnaðurinn. Forysta þeirra myndi einfaldlega gera uppreisn að frönskum hætti.

Mismunun

Ritstjóri Bændablaðsins var með mjög áhugaverða umfjöllun í ritstjórnargrein 25. janúar undir fyrirsögninni: „Kerfið“. Þar kemur fram að kvótakaup muni kosta hverja kynslóð bænda nærri fjóra milljarða króna á ári með fjármagnskostnaði.

„Þetta eru tvöfaldar opinberar greiðslur út á þetta sama greiðslumark,“ segir ritstjórinn.

Blaðið greinir einnig frá því að Kaupfélag Skagfirðinga veiti bændum sínum óverðtryggð og vaxtalaus lán til slíkra kaupa. Það er vel gert en lýsir mikilli samkeppnismismunun. Hugsanlega auðveldar það Kaupfélaginu að veita þessa aðstoð að öflugasta dótturfyrirtæki þess starfar í öðru vaxtaumhverfi.

„Hringavitleysa“

Í forystugrein sinni minnir ritstjórinn á lögbundna stefnu með búvöruframleiðslu. Og segir svo: „En stefnum þurfa líka að fylgja leiðir og fyrrnefnd hringaveitleysa bendir til þess að kerfið sé nokkuð óskilvirkt, sérstaklega þegar horft er til nýliðunar í greininni.“

Augljóst má vera að innflutningshöft leysa ekki þá „hringavitleysu“ sem ritstjóri Bændablaðsins gerir hér að umtalsefni.

Menn geta deilt um ágæti þeirra, en sú umræða er flótti frá þeim kjarna máls, sem Bændablaðið vekur athygli á. Hitt er eðlilegt að gera sömu gæðakröfur til takmarkaðs innflutnings.

Skuld stjórnmálanna

Það er ekki einfalt að brjóta kvótakerfið upp. En það er líka deginum ljósara að „hringavitleysan“ gengur heldur ekki upp.

Og það stenst ekki að binda landbúnaðinn í fjármálakerfi með tvöfalt til þrefalt hærri vöxtum en öflugustu útflutningsfyrirtæki landsins búa við. Þessi hlutfallslegi munur er alltaf sá sami hvort sem vextir hækka eða lækka.

Við vitum líka að aukin framleiðni kallar á frekari fækkun bænda eða stærri markað.

Stjórnmálin skulda bændum dýpri umræðu en einfalda frasa um tækifæri landbúnaðarins. Þau eru fyrir hendi, en verða ekki að verleika í „hringavitleysu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
03.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið
EyjanFastir pennar
29.09.2024

Björn Jón skrifar: Að vera menningarríki

Björn Jón skrifar: Að vera menningarríki
EyjanFastir pennar
26.09.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Töframeðal stjórnmálanna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Töframeðal stjórnmálanna
EyjanFastir pennar
22.09.2024

Björn Jón skrifar: Ísbirnir og aðrar fjarlægar skepnur

Björn Jón skrifar: Ísbirnir og aðrar fjarlægar skepnur