Diljá skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hún vekur athygli á þessu.
„Lögregluyfirvöld hafa lengi varað við aukinni ógn vegna skipulagðrar brotastarfsemi sem fer þvert á landamæri. Gengið svo langt að segja umfangið og stöðuna vera grafalvarleg. Stóraukin umsvif alþjóðlegra glæpahópa eru greinileg hér á landi, m.a. á sviði fíkniefnasölu og mansals. Skipulögð brotastarfsemi mun aðeins halda áfram að aukast verði ekkert að gert. Slíkt ástand er ógn við öryggi íslensks samfélags, ekki síst fólks í viðkvæmri stöðu. Veikleikar á landamærum eru helsta áhyggjuefnið og við ættum að leita allra leiða til að stoppa þar í götin,“ segir Diljá.
Hún segir að í nýlegri umfjöllun um Schengen-samstarfið hafi hún bent á að það væru ýmis heimatilbúin vandræði sem yllu veikleika landamæra okkar. Þannig værum við ekki að nýta okkur samstarfið og heimildir þess til fulls.
„Annað sem ég benti á er tregða erlendra flugfélaga til að fara að íslenskum lögum og afhenda yfirvöldum hér farþegalista fyrir komu til landsins.“
Diljá kveðst hafa miklar áhyggjur af þessum málum og því hafi hún lagt fram fyrirspurn á Alþingi til dómsmálaráðherra.
„Annars vegar um hvernig það sé tryggt að erlend flugfélög sem fljúga hingað til lands framfylgi lagalegri skyldu sinni um að afhenda upplýsingar um farþega og áhöfn. Ráðherrann hafði áður upplýst að upplýsingar væru veittar um mikinn meirihluta flugfarþega og að unnið væri að því að ná utan um aðra. Ég hef einnig óskað eftir upplýsingum um það hvaða viðurlögum sé beitt brjóti flugfélög gegn þessari lagaskyldu og hvort dæmi séu um það.“
Hins vegar kveðst Diljá hafa lagt fram fyrirspurn um aukið eftirlit á landamærum okkar og til hvaða aðgerða hafi verið gripið til að auka eftirlitið á landamærunum.
„Hvort tilefni sé til að koma á tímabundinni vegabréfaskyldu eins og heimilt er skv. Schengen-samkomulaginu og víða hefur verið gert í Norður-Evrópu. Svíþjóð hefur t.a.m. oftar en einu sinni gripið til þeirrar ráðstöfunar svo mánuðum skiptir vegna áhyggja af stöðu landamæra sinna. Sömuleiðis hvort komi til álita að taka upp tímabundna upptöku vegabréfsáritana frá tilteknum löndum.“