fbpx
Mánudagur 18.nóvember 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Glöggskyggnir menn og glámskyggnir nafnar þeirra

Eyjan
Fimmtudaginn 29. febrúar 2024 20:00

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hvað varð um Sjálfstæðisflokkinn okkar?“ var fyrirsögnin á blaðagrein, sem ég skrifaði í Morgunblaðið fyrir nokkru. Tilefnið var, að ég hafði verið í burtu, erlendis, í tæplega 30 ár og þekkti ekki Sjálfstæðisflokkinn fyrir sama flokk, þegar ég kom til baka.

Þegar ég fór og settist að í Þýzkalandi vann Sjálfstæðisflokkurinn í svipuðum anda og með svipaðri stefnumörkun og Kristilegi demókrataflokkurinn þar. Nánast eins og systurflokkar.

Þegar ég kom til baka, síðla árs 2016, sýndist mér Sjálfstæðisflokkurinn mest vera kominn inn á svið AfD (Alternative für Deutschland), sem var og er hægri þjóðernisöfga- og íhaldsflokkur, sem hafði klofið sig út úr Kristilegum demókrötum.

Bezta dæmið um þumbaraháttinn var fyrir mér, að flokkurinn var á móti nánara samstarfi Evrópuþjóða, fullri aðild að ESB og upptöku evrunnar.

Hvað var orðið um skilning, þroska og stjórnmálalega sýn forystu þessa flokks, sem þó var skipuð ungu og – að sjá – álitlegu og hæfileikaríku fólki?

Skildi það ekki að álfan okkar, Evrópa, mun ekki geta staðið af sér áskoranir og ógnir langrar framtíðar nema sterklega sameinuð og samstillt?

Skildi það ekki að velferð, menning og öryggi barnanna okkar og barna þeirra væri í húfi?

Skildi það ekki að við vorum þá þegar komin 80% í ESB, í gegnum EES-samninginn og þátttöku í Schengen, og vorum búin að undirgangast að taka upp og hlíta reglugerðum og lögum ESB, án þess þó að hafa nokkra aðkomu að gerð og setningu þeirra?

Skildi það ekki, að með því, að taka skrefið til fulls, ganga 100% í ESB, fengjum við okkar eiginn kommissar (ráðherra) hjá ESB eins og allar aðrar aðildarþjóðir – hver þeirra hefur aðeins einn – 6 þingmenn á Evrópuþingið og fullt neitunarvald gagnvart nýjum lögum og öllum meiriháttar ákvörðunum, eins og öll hin aðildarlöndin, og gætum þannig tekið þátt í allri evrópskri stefnumótun og lagasetningu?

Eftir að hafa fylgzt gjörla með þróun ESB í nær þrjá áratugi, innan frá, í hjarta Evrópu, svo og þeim miklu framförum, ekki sízt á sviði öryggis- og velferðarmála fyrir neytendur og almenning, en líka á sviði hinnar lýðræðislegu uppbyggingar þessa sambands þjóðríkja álfunnar, sem ESB hefur staðið fyrir, var mér þessi afstaða Sjálfstæðisflokksins óskiljanleg.

Þetta fólk skildi greinilega ekki nýja merkingu „sjálfstæðis“, sem Bjarni Benediktsson eldri skilgreindi svo vel, m.a. með þessum orðum í áramótaræðu fyrir meira en hálfri öld: „Við eigum þess vegna ekki að óttast samvinnu við aðra, heldur sækjast eftir henni til að bæta landið og lífskjör fólksins, sem í því býr“.

Það er raunalegt að sá forystumaður, sem leiddi flokkinn fyrir meira en hálfri öld, skuli af séð og skilið okkar tíma betur en núverandi forusta, sem virðist heltekin af gömlum kreddukenningum og þjóðernis- og einangrunarhyggju.

Sjálfstæði nútímans byggist á skilningi á því, að fyrsta stig þess er efnahagslegt sjálfstæði, sem um leið er forsenda fyrir frekari stigum sjálfstæðis – til orðs, æðis og áhrifa – en það næst aðeins með mikilli samvinnu, samskiptum og viðskiptum við önnur ríki – og þá helzt þau, sem eru næst okkur og tengdust – en ekki á einangrunarhugmyndum og afdalahyggju.

Það er líka og ekki síður raunalegt, nánast hörmungarsaga, að forystumenn Sjálfstæðisflokksins skuli ekki hafa skilið hvílíkt ólánstól íslenzka krónan hefur verið, og er, og hversu illa hún hefur farið með landsmenn, í flestum hugsanlegum formum, síðustu öldina.

Hér má minna á, að fyrir hundrað árum hafði íslenzka krónan og sú danska sama verðgildi; ein íslenzk króna hafði sama verðgildi og ein dönsk króna. Nú í dag, er verðgildi íslenzku krónunnar 5 danskir aurar, og, ef við hugsum til þess, að í byrjun níunda áratugarins voru tvö núll sniðin af krónunni, þá er raunstaðan sú í dag, að verðgildi íslenzku krónunnar er komið niður í brot úr einum dönskum eyri.

Þessi hrikalega þróun og botnlausa hrap íslenzku krónunnar hefur svo leitt til þess að hér hafa vextir verið margfalt hærri en í öðrum evrópskum löndum, sem m.a. hefur þýtt það að íbúðarkaupendur hér hafa þurft að greiða íbúðir sínar 3,5-4 sinnum, með vöxtum, á sama tíma og nágrannarnir, með stöðugan og traustan gjaldmiðil, evruna, hafa ekki þurft að greiða sína íbúð, með fullum vöxtum, nema 1,5 sinnum.

Auðvitað gildir sama saga um það fjármagn, sem atvinnufyrirtæki landsins þurfa í sinn rekstur og lántökur einstaklinga og fjölskyldna fyrir öðrum þörfum; menn hafa þurft að standa undir margfalt meiri og þyngri byrðum við skil og uppgjör sinna skulda en íbúar nágrannalanda.

Hvaða heilvita maður getur eiginlega staðið fyrir slíkri stefnu, hvað þá ungt, hæfileikaríkt og vel menntað fólk!? Hvernig getur Bjarni Benediktsson, núverandi formaður flokksins, verið jafn glámskyggn og Bjarni Benediktsson, sem var formaður flokksins fyrir meira en hálfri öld, var glöggskyggn? Þessir menn áttu því miður ekkert sameiginlegt, þó báðir Engeyingar væru, nema nafnið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Æskulýðsrannsóknin 2024: Andleg líðan barna batnað verulega undanfarin tvö ár – þökk sé nýrri löggjöf, segir ráðherra

Æskulýðsrannsóknin 2024: Andleg líðan barna batnað verulega undanfarin tvö ár – þökk sé nýrri löggjöf, segir ráðherra
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Alþingiskosningar: Ekki í lagi að kostnaður við útlendingamál hafi farið úr þremur milljörðum í 20 á nokkrum árum

Alþingiskosningar: Ekki í lagi að kostnaður við útlendingamál hafi farið úr þremur milljörðum í 20 á nokkrum árum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Haraldur Ólafsson skrifar: Myrkur og óöld í heimi án Evrópusambands

Haraldur Ólafsson skrifar: Myrkur og óöld í heimi án Evrópusambands
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir stjórnlynda hagfræðinga á borð við Kristrúnu stórhættulega – „Með því að ofmeta sjálfa sig“

Segir stjórnlynda hagfræðinga á borð við Kristrúnu stórhættulega – „Með því að ofmeta sjálfa sig“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: EES-réttindi eða tjörukagga Þorgeirs Hávarssonar?

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: EES-réttindi eða tjörukagga Þorgeirs Hávarssonar?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Marta er ítrekað spurð „Hefur þú ekkert að gera?” – Raunin er önnur

Marta er ítrekað spurð „Hefur þú ekkert að gera?” – Raunin er önnur