Líklega er óttinn við hallæri og hungursneyð innbyggður í manninn. Arfur kynslóðanna allt frá því við, þessi dýrategund, fórum að ganga á tveimur fótum. Forfeður okkar voru hirðingjar sem reikuðu um og fluttu sig milli svæða eftir árstíðum og hvar væri lífvænlegt á hverjum tíma. Svo stöldruðu þeir við, lærðu akuryrkju og að safna forða til vetrarins. Alltaf var sú hætta yfirvofandi að birgðirnar dygðu ekki til en í dag líða fáir hér á landi skort en samt óttast þeir stöðugt að einhver annar taki frá þeim björgina.
Hér á landi er fátækt, hræðileg fátækt sem er smánarblettur á þessu samfélagi en hún felst ekki allsleysi eða algjörri örbirgð. Íslenska velferðarkerfið er ekki hafið yfir gagnrýni en innan þess eru til staðar úrræði sem grípa marga og góðgerðafélög taka sömuleiðis við ýmsum. Flóttafólk er allslaust. Þetta er fólk eins og við, átti sjónvarp, ísskáp, eldavél og síma. Hugsanlega náði það bara að grípa með sér símann þegar það fór. Við vitum að margir Grindvíkingar skildu nánast allt eftir, íþróttafötin barnanna, hárblásarann, náttfötin og inniskóna. Sumir voru bara með tannburstann og nærbuxur til skiptanna.
Munurinn á þeim og palestínskum flóttamönnum er sá að þeir áttu bakland, ættingja sem tóku við þeim, veittu skjól og hlýju og ekkert sprengjuregn beið þeirra þótt þeir flyttu sig milli þéttbýlisstaða. Við sem þjóð höfum sameinast um að hjálpa þeim. Palestínumenn eiga ekki lengur neitt land, neina ríkisstjórn eða innviði sem geta gripið þá og gert þeim kleift að byggja nýtt heimili á nýjum stað.
Þetta allt vitum við, enda augljósar staðreyndir. Þrátt fyrir það kallar ákveðinn hópur eftir að öllum landamærahliðum Íslands verði skellt í lás og ekki tekið við fleira flóttafólki. „Við getum ekki meir,“ segir það. „Landið ber ekki þetta fólk.“ Hefur enginn tekið eftir að Ísland er strjálbýlt, eitt strjálbýlasta landi í heimi. Við erum fámenn þjóð en rík og vel menntuð og teljum orðið mörg störf við grunnatvinnuvegi þjóðarinnar fyrir neðan okkar virðingu. Það er því bara nokkuð gott að geta treyst útlendingum í þau verk.
Það eru ekki nema 124 ár síðan Ísland var fátækasta land í Evrópu. Þá ríkti hér grimmd og miskunnarleysi á mörgum sviðum. Fólk bjó við örbirgð, lagðist í flakk til að sníkja sér mat og klæði og var holað niður á bæjum hringinn í kringum landið af hreppsnefndum með eins litla meðgjöf og hægt var að komast upp með. Margt af þessum niðursetningum dó af illri meðferð eða örkumluðust fyrir lífstíð. Aðrir voru heppnir og lentu hjá fólki með snefil af mennsku í hjartanu. Fólk sem raunverulega ræktaði og skildi að allir menn eru fæddir jafnir.
Stundum er erfitt að muna að þessi kjarni mennskunnar, samlíðan og skilningur, er til staðar þótt vissulega sé ekki öllum gefinn þessi eiginleiki. Hann má þó rækta og hægt er að auka skilning milli manna. Það hafa ótal listamenn gert í gegnum tíðina. Charles Dickens breytti viðhorfum samlanda sinna til munaðarleysingja og fátækra barna með bókum sínum, Emil Zola náði að leiðrétta smánarblett á réttarkerfi Frakklands og Victor Hugo að skapaði persónur sem enn í dag tala til okkar og auka samúð og skilning. En hvernig sem ég leita og hvar sem ég ber niður hef ég ekki fundið dæmi um að ræktun haturs hafi skilað mannkyninu framförum eða aukinni velmegun. Ég er bjartsýn að eðlisfari og held enn í þá trú að við leysum flest þau alvarlegu vandamál sem við okkur blasa í heiminum í dag. Margvíslegt hugvit vinnur gegn áhrifum loftslagsbreytinga og framfarir í læknavísindum skila mörgum betra og lengra lífi. Enn er því von um að fólk læri að virða hvert annað og hjálpa með glöðu geði.