Einn af hornsteinum núverandi ríkisstjórnarsamstarfs er varðstaða um óbreytt fiskveiðistjórnarkerfi. Í sjálfu sér má segja að ekki ríki mikill ágreiningur um grunnatriði kvótakerfisins. Þverpólitísk samstaða er um að rétt sé að úthluta aðgengi að takmarkaðri auðlind á grundvelli vísindalegs mats á stofnstærð fiskitegunda hverju sinni. Um það geta allir stjórnmálaflokkar verið sammála.
Ágreiningurinn í sjávarútvegsmálum er um það hvernig beri að verðleggja aðgengi að þessari dýrmætu en takmörkuðu auðlind. Nærri fer að fiskurinn í sjónum skili þeim sem fá að veiða hann um 100 milljörðum í beinan hagnað á ári hverju. Aðgangseyririnn að þessum hagnaði er um og innan við 10 milljarðar á ári, gjarnan rétt í kringum fimm milljarðar. Þeir sem greiða eru hinir sömu og græða, kvótahafarnir í landinu. Að jafnaði ná veiðigjöldin ekki tíund af þeim hagnaði sem veiðarnar skapa.
Skal engan undra þótt talað sé um gjafakvóta í þessu sambandi.
Erindi Sjálfstæðisflokksins
Erindi Sjálfstæðisflokksins í pólitík er að ekki verði hróflað við þessari einföldu jöfnu sem færir helstu stuðningsaðilum flokksins tugi milljarða í beinhörðum peningum á hverju ári. Raunverulegum peningum – grjóthörðum gjaldeyri, en ekki matador-myntinni sem kölluð er íslensk króna og hvergi brúkleg nema hér á Íslandi.
Þetta er jafnframt helsta ástæða þess að flokkurinn situr sæll í vinstri stjórn undir forsæti formanns Vinstri grænna og unir glaður við sitt, hvað sem líður stöku upphlaupi fúllyndra fulltrúa íhaldsafla í þingflokki hans t.a.m. vegna hvalveiðibanns.
Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur í raun eitt meginverkefni. Það er að halda gjaldtökunni í kvótakerfinu óbreyttri, eða alla vega svo hóflegri að sægreifarnir sem raunverulega stjórna flokknum geti unað vel við sitt.
Ekki fór það fram hjá mörgum að talsverð kergja var meðal sjálfstæðismanna í garð Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra vegna þeirrar ákvörðunar hennar að banna með nokkurra klukkustunda fyrirvara hvalveiðar síðasta sumar. Stjórnsýsla Svandísar var vissulega óboðleg en ekki var það stjórnsýslan sem slík sem lagðist þungt í sjálfstæðismenn. Þeir hafa margsinnis sýnt að góð stjórnsýsla skiptir þá litlu samanborið við það hverju stjórnsýslan, góð eða slæm, skilar þeim og þeirra bakhjörlum.
Kergjan stafaði af því að ein stórtækasti stuðningsaðili flokksins og margra einstakra þingmanna hans er Kristján Loftsson, forstjóri Hvals. En það kom meira til. Svandís hafði lýst því yfir að hún hygðist gera breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, m.a. gjaldtökunni. Það fór illa í sjálfstæðismenn.
Greiðendurnir stjórna fjárhæðinni og græða mismuninn
Sægreifarnir að baki Sjálfstæðisflokknum eru ánægðir með fyrirkomulag veiðigjalda eins og það er nú. Kerfið nú er á þann veg að veiðigjöld ársins eru reiknuð út frá afkomu útgerðarinnar þremur árum fyrr. Veiðigjöldin eru með öðrum orðum reiknuð stærð – reiknuð út frá úreltum forsendum vegna þess að engin góð rök eru fyrir því að nota þriggja ára gamlar upplýsingar til grundvallar veiðigjaldinu hverju sinni.
Ekki aðeins eru forsendurnar úreltar heldur getur útgerðin sjálf ráðið mjög miklu um eigin afkomu og nánast stjórnað henni í stórum dráttum. Þar kemur margt til. Flest stærstu kvótafyrirtækin á Íslandi ráða yfir allri virðiskeðjunni, allt frá því að fiskur er dreginn úr sjó þar til hann kemur í fiskborðið í stórmarkaði í Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi og víðar. Segja má að stórútgerðin, eins og hún birtist okkur hér á landi, sé rétt toppurinn á risastórum borgarísjaka. Í gegnum dóttur- og systurfélög úti í heimi, mörg hver í svonefndum skattaskjólum og aflandsumdæmum, selur útgerðin sjálfri sér fiskinn frá Íslandi og getur ýmsu ráðið um það hvar „virðisaukinn“ í virðiskeðjunni kemur fram.
Þetta er hins vegar ekki hið eina sem kvótafyrirtækin geta gert til að stýra afkomunni hér heima. Afkoman er nefnilega að verulegu leyti reiknuð stærð. Fjárfestingar og afskriftir eru dregnar frá afkomunni og bókhaldsleg afkoma þarf alls ekki að endurspegla raunverulega afkomu útgerðarinnar. Það er hins vegar bókhaldslega afkoman fyrir þremur árum sem er notuð til að reikna út veiðigjöldin í ár. Gríðarleg fjárfesting í skipum og tækjum á undanförnum árum hefur dregið úr reiknaðri afkomu kvótafyrirtækjanna og lækkað veiðigjöldin sem þau þurfa að greiða í sameiginlega sjóði þjóðarinnar.
Ætlunarverkinu náð
Þessu hótaði Svandís Svavarsdóttir að breyta. Flestum áhugamönnum um stjórnmál og Kremlarlógíu Valhallar var ljóst allt frá byrjun að ekkert yrði úr þessum áformum Svandísar, ekki með Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórninni. Líklegt má telja að niðurstaðan hefði orðið sú að „samkomulag“ næðist í ríkisstjórninni um einhverjar þýðingarlausar breytingar á veiðigjöldum, sem allt eins yrðu stórútgerðinni í hag þegar öllu yrði á botninn hvolft. Hugmyndir Svandísar um skerðingu aflaheimilda til smábáta gefa vísbendingu um hvert öngstræti hún var komin í með breytingar á fiskveiðistjórninni í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.
Ekki reyndi á þetta þar sem Svandís greindist með alvarlegan sjúkdóm í janúar og þurfti að fara í veikindaleyfi til að undirgangast læknismeðferð.
Eftir stendur að Sjálfstæðisflokknum hefur tekist eitt helsta ætlunarverk sitt í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Ekki verður hróflað við fiskveiðistjórnarkerfinu og veiðileyfagjaldinu.
Sama sukkið í sjókvíaeldi
Annar angi af stefnu ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum, eða mögulega þeim málum sem heyra undir matvælaráðuneytið, er að mjög illa hefur tekist til með regluverk varðandi sjókvíaeldi hér við land og stafar náttúru landsins og villtum stofnum stórhætta af því að norskum auðhringjum á sviði fiskeldis hefur verið heimilað að stunda hér stórfellt sjókvíaeldi án allra eðlilegra umhverfisskilyrða. Öryggismál og eftirlit eru í miklum ólestri og slysasleppingar virðast vera mun algengari en fólk óraði fyrir. Þá virðist rekstur sumra eldisfyrirtækja fremur falla undir hugtakið dýraníð en nytjabúskap og matvælaframleiðslu.
Til að bæta gráu ofan á svart greiða þessir norsku auðhringir nánast ekki neitt fyrir aðstöðuna sem þeir fá hér á landi, ólíkt því sem tíðkast í heimalandi þeirra. Hér er vitanlega fyrst og fremst við sjávarútvegsráðherra fyrri ára að sakast en ekki hefur núverandi ríkisstjórn gert neitt til að bæta úr neinu þessara atriða.
Þegar horft er til fiskveiða og fiskeldis í samhengi má ljóst vera að milljarðar, milljarðatugir, sem með réttu ættu að renna í sameiginlega sjóði þjóðarinnar á hverju ári renna í vasa þeirra sem fá niðurgreiddan og jafnvel ókeypis aðgang að dýrmætum auðlindum Íslands á sama tíma og verið er að stofna umhverfinu og villtum fiskstofnum í voða vegna ófullkomins regluverks og ónógs eftirlits með starfsemi sem nú hefur yfirtekið t.d. alla firði á Vestfjörðum.