„Þrír kandídatar eru fyrir löngu komnir í formannsstellingar og farin að safna liði, Þórdís Kolbrún, Áslaug Arna og Guðlaugur Þór,“ segir Össur í færslu á Facebook-síðu sinni og nefnir svo í lok færslunnar fjórða kandídatinn sem minna hefur farið fyrir.
Össur bendir á að Áslaug Arna hafi kornung orðið dómsmálaráðherra og flokksmenn talið hana standa sig vel.
„Það gustaði oft af henni en einhvern veginn hefur hún týnst í því sérkennilega ráðuneyti sem búið var til í kringum hana og verður vitaskuld lagt niður daginn sem Sjálfstæðisflokkurinn fer úr ríkisstjórn. Hún er enginn aukvisi einsog kom vel fram í prófkjörinu við Guðlaug Þór þar sem hún tapaði með innan við hundrað atkvæðum,“ segir hann.
Um Þórdísi Kolbrúnu segir hann:
„Þórdís Kolbrún þótti „safe pair of hands“ í flokknum, en margir, m.a. innmúraðir Sjálfstæðismenn, veltu fyrir sér stjórnvisku hennar þegar hún lét Ísland eina þjóða de facto slíta stjórnmálasambandi við Rússland. Það var mér líka óskiljanleg ákvörðun og lexían, sem Lars Lökke utanríkisráðherra Dana, gaf henni í Mogganum af því tilefni er minnisstæð.“
Hann vindur sér svo að Guðlaugi Þór og segir:
„Guðlaugur Þór er í dag helsti „survivor“ íslenskra stjórnmála. Hann lifði af ályktun gegn sér á landsfundi um árið sem Davíðsvængurinn stóð að baki, er bardagahundur að upplagi og hefur stöðugt vaxið sem stjórnmálamaður eftir að honum tókst að kasta af pirringsham hins pólitíska skæruliða sem einkenndi hann lengi eftir að honum skolaði inn á þing úr þrasgjörnum minnihluta í borginni.“
Össur segir þó að Guðlaugur Þór hafi þann djöful að draga að það eina sem sameinar Bjarna og ritstjóra Morgunblaðsins sé að koma í veg fyrir að hann verði nokkru sinni formaður Sjálfstæðisflokksins.
„Don´t ask me why. Guðlaugur Þór er hins vegar vinmargur, ræður flokknum í Reykjavík, og mjög líklegt að hann sigri formannskjör kljúfi stöllurnar andstöðuna við hann með því að fara báðar fram. Loftslagsráðherrann er tekinn að vígbúast og hefur þegar skipt út óæskilegu fólki í valdastöðum í Reykjavík til að koma í veg fyrir vélabrögð úr Valhöll, sem honum er vitaskuld andsnúin,“ segir Össur sem þekkir pólitíkina hér á landi ágætlega.
Össur segir að Bjarni Benediktsson hafi „smurt“ Þórdísi Kolbrúnu til arftöku með því að lyfta henni í varaformennsku og láta hana taka við fjármálaráðuneytinu. Það hafi vitaskuld verið ákveðið í uppphafi kjörtímabilsins þó Íslandsbankaklúðrið hafi flýtt dagsetningunni.
„Hann skilur mæta vel að ef þau fara öll þrjú fram sigrar Guðlaugur næsta örugglega. Bjarni hefur því efalítið lagt fast að Áslaugu Örnu að hafa sig hæga og styðja Þórdísi Kolbrúnu. Það er eina hugsanlega leiðin sem hin „innmúruðu og innvígðu“ hafa til að stoppa Guðlaug.
Áslaug Arna er að springa úr metnaði, sem er kostur, heppilega áflogasækin, ung en samt með mikla reynslu. Hún hefur líklega bestu ráðgjafana og hlustar greinilega á þá. Úr sófanum á Vestó sýnist manni hún hafa alla burði til að geta rifið Sjálfstæðisflokkinn upp í stjórnarandstöðunni, sem óhjákvæmilega bíður hans á næsta kjörtímabili,“ segir Össur sem telur þó líklegt að á endanum láti Áslaug Arna kjafta sig inná að halda sig til hlés – og styðja Þórdísi Kolbrúnu.
„Rökin sem að henni verður haldið er að hún sé svo ung að hún eigi alltaf annan séns seinna. Þó er það svo að sagan fer oft framhjá þeim sem ekki taka stökkið þegar glufan myndast. Þeir brenna fljótt upp einsog vígahnettir í hröðum flaumi fjölmiðlanna, og enda sem efnileg „has beens“ hjá Gísla Marteini upp á punt. Sjálfur hafði ég aldrei neitt plan en stökk í allar glufur, og var ekki hræddur við að fá högg á trýnið,“ segir Össur sem nefnir svo fjórða valkostinn sem gæti verið álitlegur fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
„Annars horfði ég á Hildi Sverrisdóttur, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins í Silfrinu seint í gærkvöldi. Hún var ansi vösk, kjaftfor án þess að vera dónaleg og nógu ófyrirleitin til að heimta afsökunarbeiðni frá Samfylkingunni fyrir klúður Sjálfstæðisflokksins í útlendingamálum. Hún sýndi satt að segja fágæta hæfileika til að verja vondan málstað. Er Hildur kannski leiðtogaefnið?“