fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Lindarhvoll er svarið

Svarthöfði
Sunnudaginn 18. febrúar 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði rak augun í það í vikunni að Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur, ásamt nokkrum félögunum sínum í þingflokki sjálfstæðismanna, lagt fram þingsályktunartillögu um að skipuð verði nefnd „sem móti langtímaáætlun um sölu ríkiseigna, lækkun á skuldum ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum. Nefndin verði skipuð þremur sérfræðingum á sviði hagfræði, fjármála og lögfræði. Nefndin skili áfangaskýrslu eigi síðar en 6 mánuðum eftir skipun og lokaskýrslu eigi síðar en 12 mánuðum eftir skipun.“

Þessari nefnd verði falið að gera verðmat á eignum, meta kosti þess og galla að selja eignir og setja fram tímasettar tillögur um sölu eigna og meta áhrif sölunnar á þróun skulda og vaxtagreiðslna ríkissjóðs. Einnig á nefndin að setja fram áætlun um þörf á fjárfestingum í mikilvægum innviðum og meta hvort hægt sé að ráðast í þær án skuldsetningar – og þá með skattahækkunum, eignasölu og lækkun á vaxtakostnaði ríkisins. Ekki er allt komið enn. Nefndin á einnig að meta hvort skynsamlegt sé að fá einkaaðila að fjármögnun innviðafjárfestingar og gera úttekt á efnahagslegum áhrifum skuldalækkunar ríkissjóðs og sölu ríkiseigna. Það var og.

Svarthöfða kom til hugar að þarna hafi Óli Björn mögulega dottið niður á lausnina sem getur sparað allan kostnað við rekstur fjármálaráðuneytisins, Fjársýslu ríkisins, Hagstofunnar og nokkurs fjölda annarra ríkisstofnana sem kosta skattgreiðendur ógrynni fjár á ári hverju. Þessari þriggja manna nefnd er bersýnilega ætlað að taka yfir öll helstu verkefni þessara aðila og skilað þeim af sér á 12 mánuðum.

Svo varð Svarthöfða hugsað til þess að fyrrverandi fjármálaráðherra stofnaði lítið einkahlutafélag árið 2016 til að halda utan um og selja megnið af þeim eignum sem ríkið fékk frá kröfuhöfum gömlu bankanna í stöðugleikaframlag. Félagið hlaut nafnið Lindarhvoll ehf. og fenginn var lögmaður úr Reykjavík til að sjá um daglegan rekstur þess félags og ráðstöfun eigna þess. Lögmaðurinn var talinn búa yfir yfirburðaþekkingu og reynslu á þessu sviði vegna þess að hann hafði starfað að svipuðum verkefnum fyrir Eignarhaldsfélag Seðlabanka Íslands. Þessu til viðbótar ku hann vera góðvinur fyrrverandi fjármálaráðherra, sem ekki þykir verra.

Svarthöfði man ekki betur en Steinari Þór Guðgeirssyni, lögmanni, hafi verið fengið fullt vald yfir öllum málefnum Lindarhvols og stjórn félagsins, sem skipuð var misminnisgóðum og heilsuhraustum embættismönnum, hafi haft það hlutverk helst að stimpla og staðfesta ákvarðanir hans. Hann var kominn með prókúru fyrir Lindarhvol áður en stjórn félagsins kom saman til fyrsta fundar til að ráða Steinar Þór til starfa. Eftir því sem Svarthöfða skilst mun hér vera um sérútfærslu á armslengdarhugtakinu að ræða, sem felist í því að aldrei skuli vera meira en armslengd milli fjármálaráðherra og þeirra sem ráðskast með verðmætustu eignir íslenska ríkisins hverju sinni.

Lindarhvoll ehf. réðst strax í að setja sér strangar siðareglur til að „auka trúverðugleika og  óhlutdrægni við meðferð og afgreiðslu mála félagsins. Siðareglur þessar [sic] er ætlað að leiðbeina þeim sem starfa fyrir félagið við framkvæmd daglegra starfa þess með hagsmuni félagsins og viðskiptamönnum [sic] þess að leiðarljósi.“

Í siðareglum Lindarhvols er lögð áhersla á ábyrga og góða ákvarðanatöku sem hafi hagsmuni allra hlutaðeigandi að leiðarljósi. Svarthöfði verður að viðurkenna að hann hefur vart séð fallegri siðareglur og er hann þó eldri en tvævetur. Sérstaklega hlýnaði honum um hjartarætur er hann las yfirskrift 6. gr. reglnanna: „Við erum til fyrirmyndar“. Öllu fallegra verður það ekki.

Sérstaklega er þessi yfirlýsing hjartnæm í samhengi við 5. gr. siðareglnanna:

5.1. Við kappkostum við að veita viðskiptavinum réttar, skýrar og áreiðanlegar upplýsingar. 

5.2. Við upplýsum um þau atriði sem kunna að valda hagsmunaárekstrum í störfum okkar og sérstaklega er varða atriði sem geta haft áhrif á sjálfstæði, hlutleysi eða skyldu okkar við félagið og viðskiptavini þess.“

Einhverjir bjóðendur í ríkiseignir kvörtuðu reyndar undan því að þessar reglur virðist hafa gleymst þegar Klakki var seldur til forstjóra félagsins og nánustu samstarfsmanna hans á hálfvirði. Seljandi, f.h. Lindarhvols, var Steinar Þór Guðgeirsson sem sat í stjórn Klakka þegar salan átti sér stað. Svarthöfði trúir ekki öðru en að þessar kvartanir séu bara lélegur mórall hjá tapsárum aurapúkum. Hvernig gæti Lindarhvoll og Steinar Þór hafa gert eitthvað rangt með svona fallegar siðareglur í gildi? Já, Svarthöfði bara spyr.

Því ekki að nýta þá innviði og reynslu sem fyrir er innan stjórnkerfisins? Steinar Þór Guðgeirsson er enn í þjónustu fjármálaráðuneytisins til að fylgja eftir dómsmálum gegn Lindarhvoli, sem flestum ber saman um að sé ekki hans sérsvið. Fjármálaráðuneytið hefur fjárfest hundruð milljóna í hans sérþekkingu. Hans sérsvið er að ráðskast með og selja ríkiseignir. Koma þeim í verð hratt og vel – vera snöggur að finna rétta kaupendur á verði sem hentar þeim.

Svarthöfði skilur ekki hví Óli Björn og félagar leggja til svona flókna og dýra útfærslu – að fá nefnd til að liggja yfir málinu í heilt ár þegar hægt er að fá Lindarhvol í málið og Steinar Þór Guðgeirsson getur einfaldlega gengið beint til verks og selt allar þessar ríkiseignir fyrir sumarfrí þingmanna í vor. Af hverju alltaf þetta óþarfa skrifræði?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar
EyjanFastir pennar
20.10.2024

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
12.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins
EyjanFastir pennar
12.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut