fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Jöfnun atkvæðisréttar er mannréttindamál – hvað dvelur Orminn langa?

Ólafur Arnarson
Föstudaginn 16. febrúar 2024 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mannréttindi eru fótum troðin á Íslandi. Hér á landi er við lýði kosningakerfi sem leyfir að vægi atkvæða í einu kjördæmi geti orðið allt að tvöfalt á við vægið í öðru. Það er pólitísk ákvörðun að hafa þetta svona

Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna segir í 21. gr.:

Vilji þjóðarinnar skal vera grundvöllur að valdi ríkisstjórnar. Skal hann látinn í ljós með reglubundnum, óháðum og almennum kosningum, enda sé kosningarréttur jafn og leynileg atkvæðagreiðsla viðhöfð eða jafngildi hennar.“

Kosningaréttur getur ekki verið jafn þegar atkvæði sumra kjósenda vega tvöfalt á við atkvæði annarra. Nú er það svo að kjósendur í Kraganum hafa aðeins hálft atkvæði á meðan kjósendur í Norðvestur kjördæmi hafa heilt. Líka mætti segja að kjósendur í Norðvestur hafi tvö atkvæði á meðan kjósendurnir í Kraganum hafa aðeins eitt. Þetta er klárt mannréttindabrot, enda hafa erlendar eftirlitsstofnanir gert athugasemdir við þennan mikla mun á vægi atkvæða og þar með mun á vægi kjósenda.

Þessu til viðbótar er kosningakerfi okkar svo gallað að það dugar ekki til þess að tryggja að fjöldi þingmanna frá hverjum flokki sé í samræmi við það fylgi sem flokkurinn hlýtur í kosningum, sem var þó helsta markmiðið með setningu gildandi kosningalaga. Á undanförnum árum hafa ýmist Sjálfstæðisflokkur eða Framsóknarflokkur að jafnaði hlotið einum þingmanni meira en niðurstöður kosninganna gefa tilefni til.

Þetta hefur verið vitað í mörg ár. Samt sem áður hefur kosningalögum ekki verið breytt. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki beitt sér fyrir leiðréttingu á þessari grófu mismunun, sem í seinni tíð bitnar bæði á kjósendum eftir búsetu og þingflokkum.

Nú liggur í hlutarins eðli að fullkomlega jafnt vægi atkvæða allra kjósenda næst ekki nema með því að landið verði allt eitt kjördæmi. Til að svo verði þarf að breyta stjórnarskránni. Í ljósi þess að hér er um mannréttindamál að ræða ætti það engan veginn að standa í vegi fyrir því að ráðist verði í lagfæringu.

Í síðustu þingkosningum gilti hvert atkvæði í Norðvestur kjördæmi á við 2,11 atkvæði í Kraganum. Ekki mátti heldur muna miklu í Norðaustur kjördæmi vegna þess að þar gilti hvert atkvæði á við 1,9 atkvæði í Kraganum. Í næstu þingkosningum mun því eitt þingsæti færast  úr Norðvestur í Kragann. Þá verður munurinn ekki „nema“ 1,76 og verður þá mest atkvæðavægi í Norðaustur kjördæmi.

Hægt að stíga stór skref fyrir næstu þingkosningar

Raunar þyrfti ekki nema einfalda breytingu á kosningalögum til að jafna atkvæðavægi mun meira. Í stjórnarskránni er kveðið á um að hvert kjördæmi skuli hafa sex þingmenn. Kjördæmin eru sex og er því 36 þingmönnum úthlutað jafnt til kjördæmanna samkvæmt stjórnarskrá. Hinum 27 þingsætunum er úthlutað samkvæmt fjölda kjósenda út frá þeirri reglu að verði munurinn meira en tvöfaldur milli þess kjördæmis sem hefur mest atkvæðavægi á hvern kjósanda og þess sem hefur minnst atkvæðavægi skuli eitt þingsæti færast frá því fyrrnefnda til þess síðarnefnda.

Ef Alþingi hefði einfaldlega breytt kosningalögum í þá veru að ávallt skuli miðað við að vægi atkvæða eftir kjördæmum verði sem jafnast, og vitaskuld er enn tími til þess á þessu kjörtímabili – vilji er allt sem þarf – yrðu tvö þingsæti færð frá Norðvestur til Kragans. Einnig yrðu tvö þingsæti frá Norðaustur kjördæmi færð til Kragans. Sjáum aðeins hverju munar:

Þannig mætti jafna vægi atkvæða með einfaldri lagasetningu fyrir næstu þingkosningar þannig að munurinn verði rúm 20 prósent milli þess kjördæmis sem mest vægi hefur og þess sem minnst vægi hefur í stað þess að vera um tvöfaldur. Ekki fullkomið en skref í rétta átt – skref sem þjóðin á siðferðilega kröfu á að Alþingi taki.

Eðlilegt væri svo að síðasta verk þess Alþingis sem nú situr yrði að samþykkja þá breytingu á stjórnarskránni að Ísland verði eitt kjördæmi til að tryggt sé að allir kjósendur í landinu hafi sama atkvæðisrétt. Full ástæða er til að hvetja stjórnarandstöðuna til að leggja slíka stjórnarskrárbreytingu til og neyða ríkisstjórnarflokkanna, og einstaka þingmenn þeirra, til að taka opinberlega afstöðu til þess hvort þeir standi með eða gegn sjálfsögðum mannréttindum hér á landi.

Vert er að geta þess að  löng og góð hefð er fyrir kosningum hér á landi þar sem landið er eitt kjördæmi. Í forsetakosningum er landið eitt kjördæmi, hver kjósandi hefur eitt atkvæði en ekki sumir tvö eins og þegar kosið er til þings. Myndu þó margir ætla að meiru skipti að atkvæðisrétturinn sé virtur þegar kosið er til löggjafarþings en þegar kosið er til embættis sem að stærstum hluta er táknrænt.

Hvað dvelur Orminn langa?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt