fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Morgunblaðsfrumvarpið fæðist

Svarthöfði
Miðvikudaginn 14. febrúar 2024 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það gladdi Svarthöfða þennan morguninn að þingmenn Sjálfstæðisflokks hafi lagt fram frumvarp um Ríkisútvarpið. Fagnaðarefnið er svosum ekki frumvarpið sjálft heldur að þingmennirnir skuli nenna því eina ferðina enn að þyrla upp ryki í tengslum við fjölmiðlarekstur stjórnvalda. Ryk er nefnilega vanmetið.

En þegar betur var gáð virðast vera í hugmyndunum, sem liggja að baki frumvarpinu, nokkur athyglisverð nýmæli sem renna eiga stoðum undir rekstur annarra fjölmiðlafyrirtækja en hins opinbera. Til dæmis virðist sem því sé ætlað að styrkja stöðu þeirra fjölmiðla sem selja áskrift að efni sínu. Það ber að lesast sem Morgunblaðið. Ekki virðist nú af veita, enda dylst fáum að harmkvæli virðast vera að selja auglýsingar í blaðið og fátt um auglýsingar frá öðrum en fyrirtækjum í beinni eða óbeinni eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, stærsta hluthafa útgáfufélags Morgunblaðsins. Enda veitir ekki af að rétta henni hjálparhönd við að halda útgáfufélaginu á réttum kili, fjárhagslega.

Svarthöfða finnst skiljanlegt að Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem fer fyrir hópi þingmanna flokksins við frumvarpsframlagninguna, hafi áhuga á að halda Morgunblaðinu sem lengst í útgáfu, því líklega eru aðrir miðlar vandfundnir hérlendis sem myndu birta nær óbreyttar aðsendar greinar þingmannsins vikulega, enda virðist þingmaðurinn vera á sama báti og Svarthöfði að góð vísa sé sjaldnast of oft kveðin.

Annað nýmæli er að svo virðist sem breyta eigi símum þeirra sem selja auglýsingar í Ríkisútvarpið. Eftir frumvarpinu mega þeir aðeins svara í símann en ekki hringja úr honum.

Þá fagnar Svarthöfði því að leggja eigi af opinbert hlutafélag um fjölmiðlarekstur stjórnvalda og færa hann í búning sjálfstæðrar ríkisstofnunar með sjálfstæða stjórn. Það virðist enda hafa gefist vel að viðhafa það rekstrarform sem fær regluleg framlög úr ríkissjóði og vandar verk sín í hvívetna. Nægir þar að nefna fjöldamörg dæmi, svo sem Hagstofuna og Samkeppniseftirlitið, svo fátt sé nefnt.

Svarthöfði varp öndinni léttar að ekki skuli gert ráð fyrir samdrætti í rekstrarfé fjölmiðlasamsteypu stjórnvalda og getur hann því áfram fylgst með því sem efst er á baugi í gegnum samfélagsmiðlareikninga samsteypunnar svo sem TikTok og hlustað á vandaðar fréttaskýringar í Hlaðvarpsformi á borð við Þetta helst, þar sem í hávegum er vönduð fréttamennska í anda Lukku Láka – skotið fyrst og spurt svo.

Það dregur reyndar ögn fyrir sólu Svarthöfða þegar í ljós kemur að leggja eigi af opinbert styrkjakerfi einkarekinna miðla samkvæmt frumvarpinu. Þar með lyki þeirri heillaþróun að allir fjölmiðlar landsins væru ríkisreknir að meira eða minna leyti. Verst er þó að nefndarmenn í nefndinni með langa heitið; „Úthlutunarnefnd um úthlutun rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla“, verða verklausir og óþarfir.

Svarthöfði bindur þó vonir við að nýtt fyrirkomulag á rekstri fjölmiðlasamsteypu stjórnvalda kalli á að kraftar þess fólks fái útrás í viðlíka þjóðþrifa verkefnum.

Við skulum sjá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið
EyjanFastir pennar
15.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar