Það kom til harðra orðaskipta milli borgarfulltrúanna Alexöndru Briem og Kolbrúnar Áslaugar Baldursdóttur á síðasta fundi borgarstjórnar. Þar tókust þær á um málefni þjónustu- og nýsköpunarsviðs og hvort allir þeir milljarðar sem undanfarið hafa runnið inn í stafræna umbreytingu borgarinnar, hafi skilað þeim árangri sem til var ætlast.
Það var um miðjan janúar sem tilkynnt var um breytingar á 23 stöðugildum hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði borgarinnar (ÞON). Um var að ræða hagræðingu eftir að greiningarvinna leiddi í ljós að fækka þyrfti stöðugildum samhliða skipulagsbreytingum, en ákvörðun var tekin um að leggja skrifstofu sviðsstjóra niður.
ÞON hefur verið umdeilt svið hjá borginni, enda hefur sviðið fengið gífurlegar fjárveitingar á tímum þar sem ýmiss þjónusta borgarbúa hefur verið skorin niður. Þetta er gert í nafni stafrænnar vegferðar en Reykjavíkurborg tilkynnti árið 2021 að til stæði að setja tíu milljarða í þróun stafrænna innviða. Flokkar minnihlutans gerðu ýmsar athugasemdir við þessar fyrirætlanir. Fremst í gagnrýni hefur farið Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sem hefur gert ítrekaðar athugasemdir við starfsemi sviðsins og gagnrýnt hversu hægt vinnan hefur gengið og hvað árangurinn er minni en mætti ætla í samræmi við fjárveitingar.
Eyjan hefur rætt við aðila sem hafa komið að þessu stafrænu vegferð sem furða sig á hversu illa sé farið með opinbert fé. Verkefni sem með réttu ættu að ganga hratt og vel fyrir sig verði fyrir endalausum töfum út af slæmu skipulagi, slæmri samræmingu milli sviða, flöskuhálsum, endalausum fundarhöldum og stöðugu hópefli. Kunnáttumenn í stafrænum efnum benda á að hér sé í raun svið sem hafi yfirbragð sprotafyrirtækis, en ólíkt hefðbundnu sprotafyrirtæki sé sviðið með aðgang að opinberu fé og hafi ekki sama aðhald og einkafyrirtæki sem er bara með tiltekið fjármagn og þarf að auki að standa sig í stykkinu gagnvart hluthöfum og fjárfestum.
Kolbrún gerði í kjölfarið fjölmargar athugasemdir á fundi stafræns ráðs borgarinnar þann 24. janúar. Þar gerði hún athugasemdir við hægagang í vinnu við að gera umsóknir um byggingarleyfi stafræn og ítrekaðar glærukynningar um verkefnið án þess að nokkuð virðist hafa áunnist í ferlinu. Kynningarnar séu að auki óskiljanlegar og ekki á mannamáli.
„Setningar eru ekki að segja neitt og fáir þora að gagnrýna eitthvað ef þau hafa ekki þekkinguna á málinu.“
Kolbrún telur að ÞON hafi byrjað á gæluverkefnum sem hafi tekið alltof langan tíma og kostað mikið. Þegar leitað sér skýringa á hægagangi sé gjarnan svarað að svið hafi hreinlega ekki verið tilbúið að taka við stafrænum lausnum. Veltir Kolbrún því fyrir sér hvort það sé ekki hlutverk ÞON að undirbúa og leiða svið í gegnum þessa vinnu.
Velti Kolbrún því eins fyrir sér hvers vegna Reykjavíkurborg þurfi að finna upp hjól sem þegar hefur verið fundið upp. Ljóst sé að bæði sambands íslenskra sveitarfélaga sem og íslenska ríkið séu eins í stafrænni vegferð og liggi beinast við að þarna sé haft samstarf til að ná fram skilvirkni og hagræðingu.
Kolbrún vakti athygli á bókunum sínum á borgarstjórnarfundi í liðinni viku. Þar sagðist hún hafa veitt því eftirtekt að nú loks virðist borgin ætla í samstarf við aðra, en þó hafi hún heyrt að slíkt sé hvorki fugl né fiskur heldur hafi yfirbragð sýndarmennsku.
Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata sem situr í stafrænu ráði var hvöss í svari sínu til Kolbrúnar.
„Ég vil biðja borgarfulltrúann, Kolbrúnu Áslaugar Baldursdóttur um að fylgjast betur með. Við höfum rætt þetta oft og mörgum sinnum áður, Ég er búinn að svara þessum punktum ítrekað bæði á innri fundum og í borgarstjórn og þetta er bara farið að vera vandræðalegt.
Í fyrsta lagi þá er bara búinn að nást mjög mikill árangur í stafrænni umbreytingu og það gengur bara framar vonum: ÞON er vissulega að forgangsraða verkefnum, meðal annars eftir því hvaða svið eru tilbúin að fara að stað og hver ekki. Við erum langt á undan island.is og hinum sveitarfélögunum. Við erum til í samstarf. Við erum t.d. að taka við ábendingavefnum frá island.is. En almennt séð erum við að bjóða öðrum að nota okkar lausnir því við erum komin lengra en þau.“
Alexandra sagði það rangt að það sé lítill gangur í vinnunni. Í raun hafi náðst ótrúlegur árangur sem hafi vakið athygli bæði hér innanlands sem og erlendis.
„Það er mjög ómaklegt að láta svona. Ég veit t.d. að hjá sambandi íslenskra sveitarfélaga er bara ekki sett neitt voðalega mikið púður í stafræna um breytingu. Leikskólaskráningar eru í forgangi hjá okkur en það er vandamál með aðgang að gagnagrunnum sem eru hjá fyrirtækjum sem eru með þá í rekstri, það er ekki vegna þess að við séum ekki að forgangsraða.“
Kolbrún steig aftur í pontu og sagðist taka undir með Alexöndru að þetta mál væri orðið vandræðalegt, en það mætti rekja til þess að erfitt sé að átta sig á stöðu ÞON út frá kynningum sem séu ekki á mannamáli.
Það sé þó fulllangt gengið að saka Samband íslenskra sveitarfélaga um að vera ekki í stafrænni vegferð. Nýleg hagræðing innan ÞON gefi eins til kynna að borgin hafi áttað sig á að þarna mætti betur fara.
„Er ekki rétt að það var verið að leggja niður skrifstofu sviðsstjóra og færa verkefni eitthvert annað. Af hverju var það gert? Var það ekki gert því það var mögulega einhver hagkvæmni þar og einhver sparnaður sem mátti koma inn í þetta. Svo ég spyr bara: Af hverju var ekki búið að þessu fyrir löngu? Af hverju er það núna fyrst? Ég hugsa að kannski bara hafi nýr borgarstjóri svona góð áhrif. Hvað veit maður, en allavega þarna segir mér að það var eitthvað til í því sem Flokkur fólksins er búinn að segja síðast liðinn þrjú ár.“
Aftur tók Alexandra til svara og sagðist oft hafa gefið efnisleg svör við athugasemdum Kolbrúnar, og ekki hafi verið nokkuð hæft í athugasemdum Flokks fólksins undanfarin sex ár.
„Það er vissulega þannig að það var dregið úr fjármagni til sviðsins en það erí fyrsta lagi því að átakið sem við settum í gang var runnið sitt skeið, fjárfestingaátak, og vegna þess að það er eðlileg aðhaldskrafa á þessu sviði eins og annars staðar innan borgarinnar. Það var hægt að forgangsraða og reyna að losa um það sem var hægt að losa um og mér finnst sviðsstjóri staðið sig mjög vel í að finna út úr því. Ég ætla reyndar að leiðrétta mig um eitt. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur aðeins verið að sýna lit upp á síðkastið það er t.d. nýlega búið að ráða sérfræðing í þetta, en almennt séð þá erum við að vinna þetta af miklu miklu meiri krafti heldur en önnur sveitarfélög á Íslandi eða ríkið. Það er ekki einu sinni á neinum ákveðnum stað sem ábyrgð á stafrænum málum er hjá ríkinu, það er bara mismunandi eftir málaflokkum og já….“
Kolbrún sagðist eiginlega orðlaus yfir þessu svari. Alexandra mætti horfa á þetta mál út frá hagsmunum Reykvíkinga sem séu að borga brúsann.
„Ég er bara eiginlega orðlaus. Þetta eru verkefni og ég vildi óska þess að borgarfulltrúinn Alexandra Briem leyfði sér að horfa á þetta frá sjónarmiði þeirra sem borga. Við erum að tala um allt að 20 milljarða hérna á stuttum tíma og ef maður bara hugsar um hvað mikið vantar bara enn þá í Reykjavík, þó að einhverjar lausnir kunni að vera voðalega sniðugar þá er það kannski ekki alveg akkúrat þær sem sárvantar.
En aðeins að setja sig i spor skattgreiðenda sem eru að borga hér inn í borgarsjóð og muna eftir öllum biðlistunum, hvort það væri hægt að forgangsraða öðruvísi. Maður talar bara við fólk sem er að horfa á þetta utan frá. Og fólk sem hefur meira að segja vit á þessu og nú er ég ekki að tala um amatúra eins og þá sem hér talar. En ljá aðeins eyra, því að sitja fastur og vera læstur inn í einhverju svona er bara ekki gott fyrir neinn mann eða konu eða hvað annað. Þannig nú bara legg ég til að borgarfulltrúinn Alexandra Briem leyfi sér aðeins að anda bara djúpt og hlusta á það sem fólk er að segja og það er ekki bara hér innan húss heldur líka að utan.“